15.11.1939
Neðri deild: 60. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 805 í B-deild Alþingistíðinda. (1550)

110. mál, vegalagabreyting

*Flm. (Bergur Jónsson):

Í 24. gr. vegal. frá 19. júní 1933 er fjallað um, hvernig bæta skuli fyrir jarðrask og landnám, er verður, þegar vegir eru lagðir, en í síðari málsgr. þeirrar gr. segir svo: „Bætur fyrir jarðrask og landnám vegna þjóðvega skulu greiðast úr sýslusjóði, þar sem land það er, sem bætur greiðast fyrir“.

Þessi ákvæði, að leggja á sýslusjóði að greiða skaðabætur fyrir jarðrask, er hlýzt af lagningu þjóðvega, eru sanngjörn þegar um þjóðvegi er að ræða, sem næstum eingöngu eru lagðir fyrir íbúa þeirrar sýslu. En þau eru á engan hátt sanngjörn, þegar um almennar samgönguleiðir er að ræða, einkum þegar þannig stendur á, að hérað það, sem vegurinn liggur að mestu leyti yfir, hefir e. t. v. sjálft minnstra hagsmuna að gæta í sambandi við vegarlagninguna. Við, sem flytjum þetta frv., höfum nefnt eitt dæmi í grg., sem fylgir frv., til þess að benda á tilfelli, þar sem ósanngjarnt er, að sýslusjóður greiði bætur fyrir jarðrask og landnám, sem sé hin svo kallaða Krísuvíkurveg. Hann er vitanlega hugsaður sem samgönguleið að vetrarlagi milli Suðurlandsundirlendisins annarsvegar og Reykv. og Hafnfjarðar hinsvegar, en á engan hátt hefir við lagningu þessa vegar verið tekið tillit til hagsmuna Gullbringusýslu, sem hann liggur að mestu leyti um. Samkv. ákvæðum vegal. verður sýslusjóður Gullbringusýslu að greiða bætur fyrir landnám og jarðrask, sem hljótast kann á löndum manna við lagningu þessa þjóðvegar. Auðvitað væri e. t. v. réttasta reglan sú, að reiknað væri út í hvert skipti, hve mikinn part af skaðabótum fyrir jarðrask hlutaðeigandi sýslusjóður skyldi greiða, en slíka útreikninga myndi oft reynast erfitt að gera, og þeir myndu orsaka mat, sem oft væri mjög örðugt eða ógerlegt að fullnægja. Við, sem flytjum þetta frv., höfum þess vegna lagt til, að aftan við síðari mgr. 24. gr. vegalaga bætist nýr málsl., svo hljóðandi: „Ef um samgönguleið milli héraða er að ræða, skulu þó slíkar bætur greiddar úr ríkissjóði.“ Hér höfum við farið eins skammt og unnt er að telja sanngjarnt.

Ég held, þótt hér sé um breyt. á vegal. að ræða, þá sé réttara að vísa þessu frv. til allshn. en til samgmn., þar sem hér er aðeins um breyt, á almennum ákvæðum að ræða, en ekki um það, hvar eða hvernig leggja skuli vegi. Annars legg ég ekki mikla áherzlu á það, hvaða n. fær þetta frv. til meðferðar.