22.04.1939
Neðri deild: 46. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 815 í B-deild Alþingistíðinda. (1593)

82. mál, útsvör

*Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Ég kann illa við, að þetta frv. fari svo í gegnum þessa hv. d., að ekki sé minnzt á innihald þess, sem sé þennan mjög aukna rétt, sem þarna er tryggður bæjar- og sveitarstjórnum til þess að innheimta og taka af kaupi manna útsvör. Í sjálfu sér er það raunar ekki nema eðlilegt, að útsvör, sem lögð hafa verið á, verði innheimt. En meðan ástandið er þannig í okkar þjóðfélagi, eins og upplýst hefir verið, meira að segja hér á sjálfu Alþ., að megnið af skuldlausum eignum auðmannastéttarinnar í landinu er svíkið undan skatti, virðist æðihart, að verkamenn og starfsmenn og aðrir launþegar skuli sífellt fá þyngri og þyngri byrðar að bera og að sama skapi skuli vera hert á réttinum til þess að innheimta útsvör hjá þeim.

Við bárum hér fram fyrir tveimur þingum síðan (núv. þm. Sósíalistafl., þáv. Kommfl.) frv., sem fór fram á, að reynt yrði að ná til þess hluta auðæfa landsmanna, sem svikinn væri undan skattl. Ég benti þá á það í framsöguræðu minni, að um 20 millj. kr. myndu vera sviknar undan skatti hér í Reykjavík. Nú upplýsir hv. 1. þm. Reykv. í Ed., að það muni vera yfir 40 millj. kr., sem sviknar séu undan skatti í Reykjavík, mestmegnis verðbréf og skuldabréf með tryggingu í hinum og þessum fasteignum. Reiknað með normalrentu myndi þessi upphæð gefa 2–3 millj. kr. tekjur. á ári.

Þó ekki sé nema eðlilegt að krefjast þess, að starfsmenn og verkamenn greiði sín útsvör, get ég ekki annað en verið á móti því að setja slík ákvæði um innheimtu þeirra og gert er í þessu frv., meðan sannað er og viðurkennt af Alþ., að 40 millj. kr. eru sviknar undan skatti. Ég mun þess vegna greiða atkv. á móti þessu frv., þótt það út af fyrir sig geti skoðazt réttmætt, ef ekki væru látnir ónotaðir slíkir tekjustofnar sem þessar skattsviknu eignir auðmannastéttarinnar í landinu.