22.04.1939
Neðri deild: 46. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 815 í B-deild Alþingistíðinda. (1594)

82. mál, útsvör

*Frsm. (Garðar Þorsteinsson):

Út af orðum hv. 5. þm. Reykv. vil ég aðeins benda á, að hvað sem segja má um það, að ekki komi allar eignir manna fram til skatts, þá er það sérstakt mál og þessu óviðkomandi. Ég hygg, að ekki geti verið ágreiningur um það, að betra sé fyrir báða aðila, bæði þá, sem greiða útsvörin, og eins fyrir bæjar- og sveitarstjórnirnar, sem taka við þeim, að höfð séu slík ákvæði um innheimtu þeirra og um ræðir í þessu frv. Það er vitað, að af ýmsum ástæðum hefir orðið mjög mikil] kostnaður — og óþarfa kostnaður — í sambandi við innheimtu útsvara, sem stafar af því, að ekki hafa verið settar reglur um það, hvernig þau skuli innheimt, eins og gert hefir verið í öðrum löndum. Þau hafa verið innheimt á of fáum mánuðum ársins, og gjaldendur hafa ekki haft eins mikla möguleika á því að standa í skilum með þessi opinberu gjöld, vegna þess hvað þau hafa komið þeim að óvörum, ef svo mætti segja. Með þessu móti verða gjöldin miklu þyngri fyrir menn heldur en ef þeim er jafnað á 7–8 mánuði ársins og þau tekin jafnharðan af kaupi manna, eftir því sem fært þykir.

Um hitt atriðið, sem hv. þm. minntist á, er það að segja, að ég fæ ekki séð, að þær tölur séu sannar, vegna þess að meiri hl. þeirra bréfa, sem þar gæti verið um að ræða, er í vörslu sjóða, sem alls ekki eru skyldir til að svara slíkum opinberum gjöldum af þessum bréfum, eins og t. d. þau veðdeildarbréf, sem eru hjá hinum ýmsu sjóðum, sem alls ekki er skylt sem slíkum að greiða skatt eða útsvar af sínum eignum. Landsbankinn eða Útvegsbankinn hafa enga hugmynd um það, hjá hvaða aðilum þessi bréf liggja, svo að ég hygg, að þessi fullyrðing hv. þm. um þessar mörgu milljónir, sem sviknar séu þannig undan skatti, sé alveg gripin úr lausu lofti. Hv. þm. getur ekki sannað það með rökum. Það snertir ekki heldur það mál, sem hér liggur fyrir, heldur er hér verið að finna leið, sem viðtakandi útsvars megi una við, og líka sé heppilegri fyrir greiðanda.

Regla svipuð þessari er höfð í Danmörku, og ég hygg viðar á Norðurlöndum. Og n. sú, sem starfað hefir að undirbúningi þessa máls, sem var mþn., hefir í sinni grg. fært þau rök fyrir þessu, sem ég fyrir mitt leyti tek fullgild. Ég vænti þess, að þetta frv. gangi fram þegar á þessu þingi.