06.12.1939
Efri deild: 77. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 818 í B-deild Alþingistíðinda. (1606)

82. mál, útsvör

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Hv. frsm. n. hefir gert grein fyrir till. n., og hefi ég þar engu við að bæta. Eins og hv. frsm. gat um, ríkti nokkur ágreiningur innan n. um gjalddagafjölgunina. Ég rakti fyrir n. skoðanir mínar á því, þegar hnigið er inn á þá braut að taka útsvar af kaupi manna. Það kemur mjög hart niður á fólki, þegar slíkur frádráttur er gerður, hvernig sem ástatt er, og ég er hræddur um, að það mundi verða í undandrætti hjá öllum þorra manna að taka útsvarsupphæðina af sínum mánaðarlaunum.

Ég er ekki í vafa um, að þótt þingið vilji kannske ekki ganga inn á þessa breyt. nú, þá mun fyrr eða síðar verða hnigið að því ráði, og sérstaklega mun krafa koma um það frá bæjunum.

Þá er sú mótbára gegn þessu, að svo og svo mikið af útsvarinu mundi verða ógreitt við lok reikningsársins. Þar er því til að svara, að eins og nú er, þá er svo mikið ógreitt af útsvörum við lok reikningsársins, að þar mundi ekki mjög mikil breyt. verða á nema að því leyti, að með þessu fyrirkomulagi mundi sá hluti upphæðarinnar, sem ógreiddur er við áramót, verða jafntryggur til greiðslu og fyrir áramót, og getur þá bæjar- eða sveitarfélagið eftir sem áður reiknað með þessum tekjustofni. Ég sé því ekki, að þessi mótbára sé óyfirstígandi í reyndinni.

Þá hefir því verið haldið fram, og ég skal viðurkenna, að það er rétt, að þetta fyrirkomulag er ekki hentugt fyrir sveitarfélög almennt. En ég vil benda á, að þetta eru heimildarlög, og hrepparnir eru því ekki bundnir við að taka upp þessa reglu.

Ég vil ennfremur benda á, að í nágrannalöndunum þekkist þessi regla, að innheimta útsvör mánaðarlega. Mér er kunnugt um, að sú mþn., sem hefir fjallað um þetta mál og innheimtu allra opinberra gjalda til ríkisins, mun yfirleitt hafa litið svo á, að hyggilegt væri að koma inn á svipaða reglu. Ég er ekki viss um, hvernig þetta er í sumum nágrannalöndunum, en t. d. í Danmörku er reglan sú, að mörg opinber gjöld eru innheimt mánaðarlega 10 mánuði ársins, en 2 mánuðir felldir úr, desember og júlí, til þess að létta undir með fólki. Annar þessara mánaða er hátíðamánuður, en hinn mánuðurinn er sá, sem á Norðurlöndum er almennt kallaður sumarfrismánuður. Ég vil fylgja svipaðri reglu hér, því að mér er ljóst, að í Reykjavík er reynslan sú, að hver einasti maður, sem á þess kost, lyftir sér upp sumarmánuðina og fer út úr bænum, en það hlýtur alltaf að hafa útgjöld í för með sér. Um desembermánuð vita allir, að þá er ein aðalhátíð ársins, og þá eiga menn erfitt með að mæta slíkum útgjöldum. Af þessum ástæðum legg ég til, að þessir tveir mánuðir séu undanskildir.

Ég skal í þessu sambandi benda á, að með þeirri vaxandi dýrtið, sem nú er hér á landi, er mjög erfitt fyrir meðalheimili, sem hefir 300 — 400 kr. á mánuði, að verða að klípa þar af kannske 50 kr. á mánuði í útsvar. Þessi útgjöld fara nú mjög hækkandi, og samkvæmt nýjustu hagskýrslum hafa skattar nú hækkað á einu ári um 13%. Þess vegna álít ég, að eigi að taka skattana á sem lengstum tíma. Um þetta mál gat ekki orðið samkomulag í n., en ég hygg, að hv. samnm. mínir hafi frekar litið á aðstöðu hreppanna en bæjanna í sambandi við þetta mál, en það er ekki nein hætta á, að þetta komi þeim að neinum baga, því að hér er aðeins um heimild að ræða, sem þeir eru sjálfráðir um, hvort þeir nota sér eða ekki.