06.12.1939
Efri deild: 77. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 820 í B-deild Alþingistíðinda. (1609)

82. mál, útsvör

*Frsm. (Magnús Gíslason):

Viðvíkjandi því, sem hæstv. ráðh. tók fram um, að að því mundi stefnt, að gjalddagarnir yrðu fleiri, þá skal ég ekki bera neitt á móti því. Það er heppilegast fyrir gjaldendur að geta greitt sem oftast. En þá er því aðeins hægt að fá allt útsvarið greitt á sama ári, að reikningsárinu sé breytt, eða þá að niðurjöfnunin sé færð svo langt fram í tímann, að innheimtan geti byrjað 1. marz, en ég hygg, að erfitt verði að koma því á.

Ú af því, sem hv. 2. landsk. sagði, að meiri hl. n. mundi fremur hafa aðstöðu sveitanna fyrir augum, þá er því til að svara, að með þessu frv. er lagt til, að sama reglan gildi fyrir kaupstaði, sveitir og sjávarþorp. Það hefir ekki þótt hlýða að hafa sérstakar reglur fyrir kaupstaðina. Í sveitunum er það svo, að langhægast er að ná útsvörunum inn á haustin. En ef ætti nú að lögfesta, að greiðslan mætti dragast fram yfir áramót, þá er hætt við, að útsvörin tapist.

Hvað því viðvíkur, að ekki verði meira útistandandi en nú, þá er bersýnilegt, að ef greiðslur mega dragast fram yfir áramót, þá fá bæjar- og sveitarfélög minna fé handbært á þeim tíma.

Líklegt er, að bráðlega verði að taka þetta mál til nýrrar athugunar, en ég hygg, að þetta frv. feli í sér verulega réttarbót fyrir gjaldendur, þar sem lagt er til, að gjalddagi verði 7 sinnum á ári hverju.