06.12.1939
Efri deild: 77. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 822 í B-deild Alþingistíðinda. (1613)

82. mál, útsvör

*Frsm. (Magnús Gíslason) :

Hv. 1. þm. Reykv. hélt því fram, að útsvör gætu tapazt vegna þess, að kaupgreiðandi stæði ekki skil á þeim. Þessi möguleiki er auðvitað til, en hinsvegar mun þetta bjarga svo mörgum útsvörum, sem annars hefðu tapazt, enda er það bæjarstjórn og hreppstjórn að kenna, ef eitthvað tapast, því þær eiga að ganga eftir greiðslum a. m. k. mánaðarlega.

Hann hélt því einnig fram, að það væri móðgun við þá menn, sem ávallt hefðu staðið í skilum með útsvarsgreiðslur sínar, að haldið væri eftir af kaupi þeirra, en þetta þarf ekki svo að vera. Það er ekki annað en að þeir greiði 1/2 útsvar sitt 1. dag mán. eftir að útsvarið hefir verið lagt á, en hinn helminginn 1. sept., eins og gert er ráð fyrir í l. — Ég er viss um, að bæjarstjórnin í Reykjavík t. d. myndi taka því feginsamlega að fá 1/2 útsvars greiddan þegar í stað, og láta svo hinn helminginn bíða til 1. sept. Þannig gætu menn haldið sínum venjum.

Hvað snertir þá, sem hafa daglaunamenn í þjónustu sinni, þá er það tekið fram í frv., að ef bæjarstjórnir eða hreppsnefndir vilja haga innheimtu útsvara eins og gert er ráð fyrir í frv., er þeim skylt að senda atvinnurekendum öll gögn í tæka tíð að lokinni niðurjöfnun útsvara, svo sem tilkynningu um útsvör gjaldenda, kvittanahefti o. s. frv. Það er þannig ekki gert ráð fyrir, að þessi skylda færist yfir á atvinnurekendur, nema því aðeins, að öll gögn séu fyrir hendi, og gildir þetta jafnt um þá, sem hafa daglaunamenn í þjónustu sinni og fasta starfsmenn, og þannig er byggt fyrir þau óþægindi, sem hv. 1. þm. Reykv. minntist á að því er snertir þær umræður, er orðið hafa í sambandi við brtt. hv. 2. landsk., hvort leyfilegt sé að telja til frádráttar allt útsvarið, vil ég aðeins geta þess, að frádráttarhæft er að mínu áliti aðeins það, sem greitt er á gjaldárinu, en það, sem greitt er á næsta ári, kemur til frádráttar þá. Þetta held ég, að sé réttur skilningur á skattalögunum.