06.12.1939
Efri deild: 77. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 823 í B-deild Alþingistíðinda. (1614)

82. mál, útsvör

*Magnús Jónsson:

Það er í raun og veru mjög litið, sem okkur ber á milli, hv. 11. landsk. (MG) og mér. En mér skilst, að ef bæjarstjórn ætlar að nota þennan rétt sinn og tilkynnir það kaupgreiðanda, þá sé hann skyldur að halda eftir af mánaðarkaupi starfsmanna sinna, og þar með er búið að svipta þá réttinum til þess að greiða útsvar sitt sjálfir, nema því aðeins, að þeir greiði allt útsvarið strax. Annars er vitanlega mikil bót að 2. málslið a.-liðs, þar sem það er tekið fram, að bæjarstjórn beri að tilkynna atvinnurekanda í tæka tíð, ef hún óskar að innheimta útsvarið á þenna hátt.

Í sjúkrasamlagslögunum mun vera svipað ákvæði og í þessu frv., en samkv. þeim er hægt að láta vinnuveitanda halda eftir af kaupi starfsmanna sinna, ef þeir eru komnir í vanskil með greiðslu iðgjalda. Hér er gengið lengra, því hér verður að halda eftir af kaupinu, þótt útsvarsgreiðandi sé ekki kominn í vanskil.

Þá vil ég víkja fáum orðum að 2. málsl. b-liðar, um útgerð í félagi upp á hlut. Ég held, að það ákvæði verði erfitt að framkvæma. Við skulum segja, að 4 menn slái sér saman um bát og séu allir á bátnum. Ég held, að ómögulegt verði að fá menn til þess að halda reikninga í slíkum félagsskap. (MG: Þeir eru bókhaldsskyldir). Ég held, að varla komi til mála, að þeir séu bókhaldsskyldir, enda hvaða vit er í því að bókhaldsskylda slíkt fyrirtæki?

Þetta er aðeins eitt af mörgum atriðum, sem sýna erfiðleikana á framkvæmdinni, en þó að ég hafi bent á þessa agnúa, þarf það engu að hagga; frv. getur verkað í stórum dráttum til góðs, og ekkert annað en reynslan sker úr um það, hvað er til gagns og hvað ekki.

Ég mun því greiða frv. atkv. með brtt. allshn., og fyrir mitt leyti einnig brtt. hv. 2. landsk.