18.12.1939
Neðri deild: 86. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 824 í B-deild Alþingistíðinda. (1622)

82. mál, útsvör

*Bergur Jónsson:

Frv. var flutt af allshn. á þingi því, sem var frestað í vor. Hv. 7. landsk. þm. var frsm. í málinu, en hann færðist undan því að tala í því, og því hefir það fallið í minn hlut að mæla með því.

Hv. Ed. hefir gert nokkrar formbreytingar á frv. og tvær efnislegar breyt., sem allshn. leggur til, að verði breytt. Ed. breytti a-lið í 1. gr. frv. svo, að á eftir orðunum „fyrir hvern mánuð“ komi: að undanskildum júlímánuði og

desembermánuði, og fari fullnaðargreiðsla útsvarsins fram á 10 mánuðum. Allshn. hefir aftur á móti lagt til, að greiðslutíminn verði 7 mánuðir og vill undanskilja júní- og desembermánuð og að greiðslutíminn nái fram í marz árið eftir. Í frv. er júlímánuður undanskilinn, en allshn. hefir álitið réttara að undanskilja júní, því að í þeim mánuði er oft mjög erfitt um vik að taka af kaupi manna. Desembermánuður er aftur svo mikill útgjaldamánuður, vegna jólanna, að sjálfsagt þótti að undanskilja hann líka.

Hin brtt. er við 2. gr., að 3. málsgr. 29. gr. falli niður. Samkv. þessari gr. mátti skylda kaupgreiðendur til að halda eftir hluta af kaupi fastra starfsmanna til greiðslu á útsvari. Þessi gr. verður auðvitað óþörf, ef frv. verður samþ., en þó ekki fyrr en útsvörin, sem til falla á þessu ári, eru greidd. Allshn. leggur því til, að 3. málsgr. 29. gr. verði ekki látin falla úr gildi fyrr en 1. okt. 1940.