29.11.1939
Neðri deild: 71. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 832 í B-deild Alþingistíðinda. (1659)

27. mál, íþróttalög

Fram. meiri hl. (Pálmi Hannesson) :

Eins og hv. þd. er kunnugt, var þetta frv. á sínum tíma flutt samkvæmt tilmælum hæstv. kennslumrh. Það var samið af fjölmennri n., sem skipuð var fulltrúum allra aðalfélaga og félagasambanda innan íþróttasamtakanna í landinu, og ennfremur fulltrúum frá skólunum. Menntmn. hefir farið yfir þetta frv. og gert við það nokkrar brtt. á þskj. 336. Þessar brtt. eru nokkuð margar, en skipta ekki miklu máli hvað efnið snertir. Fyrst og fremst eru það orðalagsbreyt., og er leitazt við að færa málið til betra horfs. Ég skal lauslega gera grein fyrir þeim brtt., sem mér þykja helzt skipta máli. Fyrst er brtt. við 2. gr.; þar stendur: „Kennslumrh. hefir yfirumsjón allra íþróttamála að því leyti, er ríkið lætur þau til sín taka.“ En n. þótti réttara að setja fræðslumálastjóra í stað kennslumálaráðherra, og eru samsvarandi breytingar gerðar við síðari gr. frv., þar sem við þótti eiga. — Í 3. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að íþróttafulltrúi sé skipaður af ráðherra til 5 ára í senn, og launaður úr ríkissjóði. Þessu þótti n. rétt að breyta þannig, að fulltrúinn skuli skipaður til þriggja ára, og skiptir það raunar ekki miklu máli hvort heldur er. — Næsta brtt. er við 6. gr. og er að mestu orðalagsbreyt. Ég skal leyfa mér að geta þess. að inn í 4. gr. hefir slæðzt prentvilla. Þar stendur „Ungmennafélaga Íslands“ en á að vera Ungmennafélags Íslands. — Brtt. við 7. gr. er ekki efnisbreyt., nema við 3. tölul. Honum er nokkuð breytt, aðallega þannig, að fært er til skýrara og fastara horfs það, sem fyrir vakti með þessum tölul. — Sama er að segja um 8. gr. Þar er aðeins um orðalags, en ekki efnisbreyt. að ræða. — 9. gr. er lítilsháttar breytt. Gr. hljóðar um það að setja skuli reglugerð um mannvirki, sem styrks njóta af almannafé og er þar átt við íþróttamannvirki, og skal fræðslumálastjórnin setja reglugerðina, þar sem áður er gert ráð fyrir, að ráðh. setji reglugerðina. Er þessi breyting í samræmi við breyt. við 2. gr.Brtt. við 13. gr. skiptir mestu máll af þeim brtt., sem fram koma á þessu þskj. Þar er gert ráð fyrir að bæta aftan við gr. ákvæði um það, að fræðslumálastj. skuli heimilt að veita skólum undanþágu frá sundskyldu um nokkur ár fyrst í stað, ef skilyrði eru slík, að slíkt teljist nauðsynlegt. Þetta þótti nauðsynlegt, einkum með tilliti til hinna afskekktari skólahéraða, þar sem þarf að koma börnunum langa vegu til sundnáms. — 20. gr. gerir ráð fyrir því, að enginn geti öðlazt réttindi sem sérkennari í íþróttum né rekið íþróttakennslu sem atvinnu nema hann hafi lokið íþróttakennaraprófi hér á landi eða öðlazt réttindi sem íþróttakennari áður en ákvæði frv. tóku gildi. — 22. gr. er nokkuð breytt, en það er fyrst og fremst orðalagsbreyting, eins og í hinum gr., sem breytt hefir verið. Í upphafi gr. segir, að við héraðsskólana skuli starfa sérdeildir fyrir íþróttakennslu, og skulu nemendur eiga kost á að stunda nám í þeim eftir eins vetrar nám í skólum. — Við 24. gr. er brtt., sem skiptir nokkru máli. Í frv. hljóðar þessi gr. svo með leyfi hæstv. forseta: „Íþróttastarfsemi utan skólanna er falin frjálsu framtaki landsmanna og fer fram í félögum og sem einstaklingsstarf, með þeim stuðningi, sem veittur er samkvæmt l. þessum. Viðurkennd landssambönd íþróttafélaga eru Íþróttasamband Íslands (Í. S. Í.) og Samband Ungmennafélaga Íslands (U. M. F. Í).“

Nú hefir það komið fram, meðal annars í bréfi frá Í. S. Í., sem birt er í áliti minni hlutans, að þessu sambandi eða stjórn þess hefir vaxið í augum, að U. M. F. Í. skyldi vera talið til, þegar íþróttasambönd eru viðurkennd af ríkisvaldinu. Til þess að kippa þessum þyrni úr holdi þessa aðila taldi n. rétt að fella þetta ákvæði burt, og er þess að vænta, að betur líki þá eftir en áður. En þess skal getið, að efnisbreyting er þetta lítil, því að með öðrum ákvæðum frv. er Í. S. Í. tryggð sú viðurkenning, sem telja má, að máll skipti. En það hefir frá upphafi verið ætlunin, að þetta samband yrði viðurkennt sem æðsti aðili um frjálsa íþróttastarfsemi í landinu, og að því lúta ákvæði um þátttöku þess í íþróttanefnd og loks með öðrum ákvæðum 24. gr., sem sé þeim, að það komi fram erlendis af Íslands hálfu í íþróttamálum og setji þær reglur, sem gildi um alla keppni innanlands. Aftur var litið svo á, að vegna verðleika sinna í þágu íþróttamálanna mætti nefna U. M. F. Í. þarna með, en sú viðurkenning, sem máli skiptir fyrir það, eins og hitt, felst einnig í öðrum ákvæðum frv. Þess vegna var á það fallizt að fella hvorttveggja burt, fyrst það reyndist öðrum aðilanum hneykslunarhella. Þó þótti rétt að bæta aftan við þessa gr. ákvæði, sem var áður aftast í 26. gr. Það er gert til samræmis, en er engin efnisbreyt. — Þá er till. um að fella niður úr 25. gr. orðið „landfræðilegri“. Það er óþarft og miður fallegt, svo að það mun mega missa sig. –Aðrar breyt., sem gerðar eru till. um á þskj. 336. er ekki ástæða til að ræða. Síðasta gr., um gildistöku væntanlegra l., er orðuð skýrar en var í frv.

Ég vil vænta þess, að hv. d. geti fallizt á þessar brtt., sem meiri hl. menntmn. hefir borið fram. Málið hefir verið rannsakað allrækilega í n. og 4 af 5 nm. eru sammála um, að æskilegt sé, að frv. nái fram að ganga, þó með þeim breyt., sem ég hefi getið um, en það eru aðallega orðalagsbreyt.