29.11.1939
Neðri deild: 71. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 834 í B-deild Alþingistíðinda. (1660)

27. mál, íþróttalög

*Frsm. minni hl. (Pétur Halldórsson) :

Hér liggur fyrir hv. þd. frv. til íþróttalaga. Það er von, að mönnum fari svo, þegar þeir sjá þetta nafn, að þeir spyrji, hver æski þess, að íþróttal. séu samþ., og í hvaða skyni eigi að gera það. Ég heyrði á hv. frsm. meiri hl., að frv. væri borið fram eftir ósk hæstv. kennslumrh., sem hefði skipað n. til að undirbúa málið, og það sé hennar starf, sem liggur hér fyrir í frv. formi. Nú getur hæstv. kennslumrh. varla haft neina sérstaka ástæðu eða hvöt til að setja íþróttal., nema svo sé, að jafna megi til þess, sem er í ýmsum löndum, þar sem vitað er, að íþróttirnar eru teknar í þjónustu ríkisvaldsins. Það er svo í þeim löndum, sem einræði er, og kannske líka annarstaðar. Þar er með íþróttunum verið að undirbúa ungdóm landanna til hernaðar. En það getur ekki legið til grundvallar hér.

En það verður þó að viðurkenna, að íþróttir eru gagnleg iðkun, og það er ekki ástæðulaust, að hið opinbera eða ríkisvaldið stuðli að því á einhvern hátt, að þessi starfsemi í landinu megi ná takmarki sínu. Hingað til hefir það aðallega komið fram í því, að ríkið hefir stutt

íþróttastarfsemi í skólum og veitt fjárframlög úr ríkissjóði til íþrótta. En spyrja má: Er ástæða til vegna þess arna að samþ. íþróttal. og hvað er eðli þess máls og hvað eiga slík íþróttal. að fela í sér?

Ef farið er yfir frv., þá sést, að mikill hluti þess er um íþróttir í skólum landsins. Frv. skiptist í kafla, og er I. kaflinn um stjórn íþróttamála, og er efni hans það, að íþróttamálin eru lögð undir vald ráðh. Það er með öðrum orðum verið að koma á ríkisrekstri á íþróttum að meira eða minna leyti. Þessi rekstur er látinn heyra undir einn af ráðh. landsins til eftirlits og afskipta, eins og segir í frv. Ég hefi talið það lauslega, að á 15 stöðum er gert ráð fyrir fyrirmælum ráðh. í reglugerðarformi eða öðru formi til afskipta af íþróttastarfseminni í landinu. Hann á að hafa sér við hlið mann, sem heitir íþróttafulltrúi, og einnig íþróttanefnd.

Þetta er það, sem snýr að yfirstjórn íþróttamálanna.

II. kaflinn er um íþróttasjóð. Mér þykir það skiljanlegt, að það geti þótt hentugt, að koma á einhvers konar skipun um úthlutun þess fjár, sem ríkið veitir á fjárl., til þess að tryggja það, að fé því, sem veitt er úr ríkissjóði, sé varið á sem skynsamlegastan hátt. Eins og nú er, má kannske gera ráð fyrir, að það sé duttlungum háð, hvað mikla fjárveitingu Alþ. samþ. til íþrótta. Það má þess vegna teljast gagnlegt, að þingið komi upp einhverri stofnun, og þá helzt nefnd manna, sem taki að sér að úthluta því fé, sem árlega er veitt til íþróttastarfsemi í landinu. Ég er ekki frá því, að það sé góð hugmynd og til þess löguð að taka af Alþ. óþægindi og tryggja, að fé því, sem Alþ. veitir, sé betur varið en nú er.

III. kafli er um íþróttir í skólum. Þann kafla á ég fyrir mitt leyti erfitt með að skilja, því öll íþróttastarfsemi í skólum er nú þegar háð fyrirmælum fræðslumálastjórnarinnar. Ef einhverjar breyt. eða bætur eru gerðar á íþróttakennslunni í skólum, þá má gera það með fyrirmælum kennslumálastj. Að því leyti er þessu ofaukið í þessu frv., því fræðslulögin segja fyrir um höfuðdrættina í því, hvernig íþróttakennslu í skólum eigi að haga. Það ætti að vera fullnægjandi, nema svo sé, að ekki hafi tekizt að haga íþróttastarfseminni í skólum svo sem æskilegt mætti þykja.

IV. kaflinn er um íþróttakennslu. Ég hélt í fyrstu, að þar væri verið að stofna til 2 nýrra skóla. En það hefir verið upplýst, að svo er ekki. Það fer nú þegar fram kennsla í íþróttakennslu í landinu. En það mun eitthvað eiga að auka hana. Í frv. er svo fyrir mælt, að í kennaraskólanum skuli kenna öllum körlum og konum íþróttakennslu. Í grg. frv. segir um þetta, að það kunni að koma illa við ýmsa, sem vilja stunda kennaranám, en séu kannske ekki líkamlega hraustir eða svo af guði gerðir, að þeir geti ekki tekið slíka kennslu að sér. Um þetta segir ennfremur í grg., að þeir, sem ekki geti tekið að sér íþróttakennslu, ættu yfirleitt ekki að ganga á kennaraskólann. Mér finnst þarna vera gengið nokkuð langt, enda er það gert í fleiri stöðum í frv.

V. kafli frv. er um frjálsa íþróttastarfsemi. Hún hefir nú verið rekin hér á landi í langan tíma, og nú má spyrja: Er þessi frjálsa íþróttastarfsemi, sem haldið er uppi í landinu þess eðlis, að hún finni til þarfar á löggjöf um þessi atriði? Mér hefir ekki skilizt af þessu frv., að hin frjálsa íþróttastarfsemi í landinu muni með þessari löggjöf njóta sérstakra fríðinda umfram það, sem hún nú hefir, en það eru styrkveitingar úr ríkissjóði til hinnar frjálsu íþróttastarfsemi. Ég fæ ekki séð, að hin frjálsa íþróttastarfsemi hagnist á nokkurn hátt af þessari löggjöf. Það liggur að minnsta kosti ekki í augum uppi.

Þetta er efni íþróttalöggjafarinnar. Ég verð að segja, að ég sé ekki í fljótu bragði nauðsynina á að setja svona íþróttalög, nema ef vera skyldi að ríkið eða ríkisvaldið hefði eitthvert takmark fyrir augum, sem það teldi, að það myndi frekar ná með því að leggja íþróttastarfsemina í landinu undir beint eftirlit ríkisvaldsins. Ég efast um, að benda megi á nauðsynina á því, að svo miklu leyti sem lesa má af þessu frv. Við skulum nú samt segja, að það þyki rétt að setja íþróttalög, og ég heyri sagt, að íþróttafólk í landinu muni að einhverju leyti standa bak við þetta frv., eins og líka má sjá af því, að einhverjir íþróttamenn hafa verið í þeirri nefnd, sem samdi frv., en þá er annað atriði, sem mér þykir máli skipta í þessu sambandi, og það er, að í landinu hefir til þessa verið félagsskapur, sem haft hefir forgöngu um íþróttamál og er sameiginlegur félagsskapur allra þeirra, sem stunda íþróttir, en það er íþróttasamband Íslands. Ég verð að líta svo á, að í slíkri lagasetningu teljist það eðlilegt, að Í. S. Í. sé falið að hafa forystuna, svo sem verið hefir, um öll íþróttamál og það eitt væri talið fulltrúi íþróttanna, en þá jafnframt ætlazt til, að öllum íþróttafélögum í landinu væri gert jafnt undir höfði um þátttöku í Í. S. Í., enda væri það talið til forsvars öllum íþróttamálum gagnvart ríkisvaldinu þar, sem gert er ráð fyrir, að ríkið taki til sinna mála um afskipti af þessum málum.

Þetta er í samræmi við óskir Í. S. Í., eins og hv. þm. sjá af bréfi þess, sem prentað er með minni hl. áliti mínu, en þar fer Í. S. Í. fram á. að það sé talið fulltrúi hinnar frjálsu íþróttastarfsemi í landinu. Mér þykir það varla fært að setja löggjöf um íþróttamál, sem fer að miklu leyti á móti óskum Í. S. Í., og ég hygg, að það sé óráðlegt að gera það. Ég tel þess vegna rétt að fresta málinu um sinn og reyna á meðan að fá fullkomið samkomulag við Í. S. Í. um afgreiðslu málsins. Ég hefi því leyft mér að leggja fyrir hv. d. svofellda rökst. dagskrá:

Í trausti þess, að ríkisstj. takist að ná fullu samkomulagi við Íþróttasamband Íslands um íþróttalöggjöf, telur deildin rétt að fresta lagasetningu um þetta efni og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.

Þessi frestur yrði þá fyrst og fremst og frá minni hálfu eingöngu ætlaður í því skyni að ná fullu samkomulagi um slíka íþróttalöggjöf við Í. S. Í.