29.11.1939
Neðri deild: 71. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 839 í B-deild Alþingistíðinda. (1662)

27. mál, íþróttalög

Frsm. meiri hl. (Pálmi Hannesson) :

Þær ræður, sem hér hafa verið fluttar, hefðu að mínu áliti átt betur heima við 1. umr. málsins, en þar sem hv. 4. þm. Reykv. sat þá ekki í d., er skiljanlegt, að hann drepi hér á grundvallaratriðin, sem vaka fyrir mönnum með flutningi þessa frv. Hv. 4. þm. Reykv. gat þess fyrst í ræðu sinni, að hér væri á ferð frv. til íþróttalaga. Það var eins og hann brigðist ókunnuglega við því, að íþróttir gætu átt sér málsvara á löggjafarsamkomu þjóðarinnar. Hann lét þess getið, að í einræðislöndunum myndu að vísu vera til íþróttalög, sem hefðu þann tilgang, að búa æskulýðinn undir herskyldu. Ég vil upplýsa hv. þm. um það, að í hverju einasta menningarlandi heimsins, meðal annars í öllum lýðræðislöndunum, eru íþróttalög, og þau mjög fullkomin. England er þar í fararbroddi, og má þó e. t. v. segja, að það hafi hernaðarlegra hagsmuna að gæta, en Norðurlöndin eru líka langt á veg komin um íþróttalöggjöf og íþróttastarfsemi, — ég legg áherzlu á íþróttalöggjöf. Það er því ekki fyrr en vænta mátti, að við Íslendingar hefjumst handa um slíka lagasetning. Hv. 4. þm. Reykv. vildi líta svo á, að með lögum þessum væri tilrann gerð til þess að draga íþróttastarfsemi undir ríkisvaldið úr höndum félaga og stofnana. sem hafa með þau mál farið. En nú er þess að gæta, að samkv. þessu frv. kallast bæði leikfimi og einstaklingsíþróttir, þ. e. svokallaðar útiíþróttir, íþróttir. Það er og kunnugt mál. að fimleikar hafa verið stundaðir í öllum skólum landsins um langt skeið. Og það er ennfremur vitanlegt, að íþróttir eru og geta verið stundaðar bæði til góðs og ills, og veltur það á þekkingu þess, er íþróttina iðkar, og leiðbeinandans, hvort verður. Ég vil leyfa mér að segja, að hvorutveggja muni vera mjög ábótavant. Hvort l. ráða bót á þessu, verður ekki sagt um nú, en með þeim er gerð tilraun til að bæta úr þessu, eins og hæstv. forsrh. gat um. — Hv. 4. þm. Reykv. virtist dálítið undrandi yfir því, að íþróttamál væru tekin til meðferðar á Alþ. Því ekki það? Höfum við ekki sett l. um heilbrigðisnefndir, heilbrigðisfulltrúa og barnaverndarráð? Höfum við ekki sett löggjöf um bindindi og hvað annað? Nú er vitað, að íþróttir teljast til þess, sem á að varðveita, auka og efla vinnuþrek þjóðarinnar og hreysti, og þar með hamingju unga fólksins. Hvers vegna skyldi Alþ. ekki beina starfsemi sinni að slíku, einkum þegar þess er gætt, að mistök eru á framkvæmd þessara mála nú? — Hv. 4. þm. Reykv. gat þess, að á 15 stöðum í frv. væri gert ráð fyrir reglugerðarákvæðum. Þetta mun sjálfsagt vera rétt hjá hv. þm., þótt ég hafi ekki talið það. En þar með er ekki sagt, að 15 reglugerðir þurfi, eins og hann virtist gefa í skyn. Allt þetta getur falizt í einni reglugerð, og það er ekki stórvægilegt, þótt sett yrði reglugerð í 15. gr., þegar þess er gætt, að undir hana falla allir skólar landsins. — Hv. 4. þm. Reykv. lét einnig í ljós undrun yfir ákvæði frv. um íþróttakennslu í kennaraskólanum. Mig undrar þessi afstaða hv. 4. þm. Reykv. Um leið og hann viðurkennir, að íþróttirnar eigi ekki að skipa þrengri sess í barnaskólunum en t. d. kennsla í enskri og danskri tungu, þá hlýtur hv. þm. að ætlast til þess, að kennararnir hafi fulla færni í þessari grein. Hvers vegna á alltaf að setja líkamsræktina skör lægra en bóklega námið, og það þótt við vitum, að íþróttirnar viðhalda vinnutápi þjóðarinnar? Til þess að kennarar séu vel færir um að kenna úti um land og annarstaðar, þá verða þeir að kunna þessa grein fullkomlega, eftir því sem unnt er að krefjast. Hv. 4. þm. Reykv. sagði, þegar kom að næstsíðasta kafla frv., að hin frjálsa íþróttastarfsemi hagnaðist ekki neitt á þessu. Hv. þm. viðurkenndi með því, að ekki væri reynt viljandi að þrengja kosti hins frjálsa íþróttaframtaks landsmanna, enda hefir það ekki verið gert af beim, sem sömdu frv. eða fóru höndum um það hér á þingi. Það er vitað, að áhugi íþróttamanna verður engu verði keyptur, hvorki dýru eða ódýru. Hann er undirstaðan, sem allt annað rís á. Ég fæ ekki séð, að frjáls íþróttastarfsemi geti ekki notið góðs af þessu frv., því að hvert er stefnt með íþróttasjóði? Að vísu er ekki gert ráð fyrir, að fastar tekjur renni í íþróttasjóð, en nú er veitt meira og minna fé til íþróttamála, og með því að leggja þetta fé undir nefndina, sem skipuð verður íþróttamönnum sjálfum, þá ætti að vera hægt að verja þessu fé betur til frjálsrar íþrótta starfsemi en gert hefir verið. Ég get bent á mörg ákvæði í þessu frv., sem gerð eru til þess að létta starfsemi Í. S. Í. og aðra íþróttastarfsemi, en þar eru alls ekki nein höft eða tilraunir til að draga þetta undir ríkisvaldið. Hv. 4. þm. Reykv. lætur þess getið í nál. sinu, að þetta mál beri að leysa með fullu samkomulagi við Í. S. Í. vissulega væri það mjög æskilegt, ég neita því ekki, og þegar verið var að vinna að frv., var Í. S. Í. skrifað og staðið í sambandi við það. Þá komu ekki fram neinar verulegar mótbárur, nema sú, að Í. S. Í., en ekki U. M. F. Í. skyldi eiga fulltrúa í íþróttanefnd, og einnig var Í. S. Í. andvígt því, að U. M. F. Í. yrði viðurkennt sem íþróttasamband. Nú er þess að geta, að Í. S. Í. er yngra en U. M. F. Í. U. M. F. Í. hóf fyrst íþróttastarfsemina hér og það stóð að fyrsta íþróttamótinu, sem Íslendingar tóku þátt í erlendis árið 1908. Hitt skiptir þó meira máli, að Í. S. Í. getur ekki með starfsemi sinni náð til nema nokkurs hluta fólksins, þess sem býr í þéttbýli og getur starfað innan íþróttafélaga. Unga fólkið í dreifbýlinu verður aftur á móti að slá sér saman um öll sín mál, einnig íþróttamál, og þar er U. M. F. Í. því réttari vettvangur fyrir íþróttastarfsemi heldur en Í. S. Í.

Ég læt þess að síðustu getið, að ég harma það, að hv. 4. þm. Reykv. sat ekki í d., þegar 1. umr. málsins fór fram, þar sem mál voru rakin og þess getið, hverjir skipuðu nefndina. Ég vona, að þetta mál hefði þá legið ljósar fyrir honum en það virðist nú gera.