29.11.1939
Neðri deild: 71. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 841 í B-deild Alþingistíðinda. (1663)

27. mál, íþróttalög

*Frsm. minni hl. (Pétur Halldórsson) :

Ég vil biðja velvirðingar á því, að ég hefi ekki næga þekkingu á því, sem fram kom við 1. umr. þessa máls, en ég hefi samt enga trú á því, að það hefði breytt grundvallarskoðun minni á málinu að hlýða á þá umr., jafnvel ekki að heyra, hverjir voru í þessari n. En nú má ég með sorg játa, að eftir ræðu hæstv. forsrh. þykir mér frv. eiginlega ennþá ískyggilegra en áður, því að mér fannst það svo áberandi hjá honum, að eiginlega teldi hann, að aldrei hefðu neinir menn með viti komið nálægt íþróttamálum, og nú þyrfti að kippa þessu öllu í lag á þann hátt, að hann sjálfur, sem yfirmaður þessara mála, gæti skarkað með þau eftir vild. Að svo miklu leyti sem ræða hæstv. ráðh. gekk út á það, að lýsa þekkingarleysinu í þessum málum og hve ástandið væri óviðunandi, þá gerði það frv. enn skuggalegra í mínum augum. Það er um þetta eins og svo margt annað, sem ríkisvaldinu þykir miður fara hjá borgurunum og finnst þurfa að skipta sér af, að því fylgir mikil hætta, ef hinar opinberu aðgerðir beinast ekki alveg að takmörkuðum atriðum, sem ekki er hægt að leysa á annan hátt. Hæstv. forsrh. sagði, að aðaltilgangur þessa frv. væri sá, að nú skyldi hafin leiðbeiningarstarfsemi, — bókaútgáfa, skildist mér á orðum hans um nýja bók, sem komið hefði út og hæstv. ráðh. virtist halda, að væri fyrsta bókin, sem út hefði komið á íslenzku um íþróttir. En þetta er misskilningur hjá ráðh. Það hefir töluvert af íþróttabókum verið gefið út hér á landi fyrir tilstilli Í. S. Í, þar á meðal vil ég nefna bók eftir heilsufræðinginn dr. Knud Secher, sem ég má segja, að Guðmundur Björnsson landlæknir þýddi. Og þótt hefja eigi bókaútgáfu í stórum stíl, eins og mér skilst á auglýsingum frá menntamálaráði, þá kippir það út af fyrir sig ekki öllu í lag. En í þessari löggjöf er ekkert um þetta atriði. Þar er minnzt á að skipa íþróttafulltrúa, sem á að hafa tillögurétt um íþróttir og reyna að stuðla að því í starfi sínu, að umbótum verði komið á. En ég held, að það hljóti að vera hægt að fá menn með góðri þekkingu til að aðstoða íþróttafélögin í þessum málum án þess að gera íþróttafélögin í landinu að ríkisrekstri. Það, sem snertir mig einna verst í frv., er það, sem frá sjónarmiði forsrh. og hv. 1. þm. Skagf. eru hlunnindi fyrir íþróttafélögin, og það er, að í einni gr. frv. stendur „viðurkennd íþróttafélög“ og „íþróttastarfsemin utan skóla er falin frjálsu framtaki landsmanna og viðurkenndum landssamböndum íþróttafélaga“. Ef þetta bendir ekki til þess, að ríkið hafi tekið þessa starfsemi í sinar hendur að fullu og þurfi að viðurkenna íþróttasamhönd, þá veit ég ekki, hvernig ber að skilja þetta orðalag. Eftir frv. virðist ríkið taka alla íþróttastarfsemi í sínar hendur, en vilji svo aftur af náð sinni „fela hana frjálsu framtaki landsmanna“. Ekki getur ríkið „falið“ neinum það, sem það hefir engin umráð yfir. Það þarf fyrst að taka málin í sínar hendur, áður en það getur falið þau öðrum. — Þá á að skipa ýmsum atriðum þessara mála í 15 reglugerðum eða 15 ákvæða reglugerð. Vitanlega eru þessi l. aðeins rammi um starfsemina, en svo einkennilega vill til, að þau tala miklu meira um allt annað en íþróttastarfsemi, — því að ekki kalla ég skólakennslu íþróttastarfsemi. (PHann: Má ég benda hv. þm. á „definition“-ina eða skilgreininguna á orðinu „íþróttir“ í 1. gr. frv.) Já, já, velkomið. — Ég get líka ímyndað mér, að leggja mætti til grundvallar annað atriði, sem fram kom hjá forsrh. og mér þótti ískyggilegt. Hann sagði, að íþróttir væru svo stórhættulegar, ef ekki væri rétt með þær farið, jafnvel skólaíþróttir líka, og gætu valdið heilsutjóni o. s. frv.,. að þess vegna þyrfti ríkið nú að taka allt saman undir sitt eftirlit. Að öllu því leyti, sem skólana snertir, er þessi löggjöf óþörf, vegna þess að ráðh. og kennslumálastjórnin hefir í sinni hendi, án þessarar löggjafar, heimild til að fá sér íþróttafulltrúa fyrir skólana og koma þar á því „lagi“, sem henni þurfa þykir. Um önnur atriði frv. verður heldur ekki sagt, að nauðsyn hafi borið þar til löggjafar. Maður getur vel hugsað sér, að ríkissjóður hefði hjálpað Í. S. Í. til þess að kosta íþróttafulltrúa. — Hv. þm. Skagf. kom að því líka í sinni ræðu, að upplýsingum um íþróttamál væri mjög ábótavant hér á landi, og úr því yrði að bæta. Hvað er það í þessum l., sem bætir úr í því efni? Það má segja, að íþróttanefnd, sem á að ráða íþróttasjóði — sem þó enginn sjóður er, því að tekjur hans eru ekkert annað en fé, sem veitt er til íþróttamála, og má e. t. v. kalla það sjóð, meðan úthlutun þess hefir ekki farið fram, — gæti tekið af þessu fé til bókaútgáfu. En ekki þarf nefnd til þessa finnst mér. Íþróttasamband Íslands myndi áreiðanlega fúst að taka þetta að sér.

Að lokum vil ég aðeins geta þess, að það eru ýmsar aðrar nýjungar í þessu frv., en nefndar hafa verið, sem geta orðið sveitar- og bæjarfélögum svo þungbærar, að ég er alls ekki viss um, að þau atriði frv. verði yfirleitt framkvæmanleg. Þar segir, að nokkur frestur skuli gefinn á því að koma upp íþróttahúsum o. s. frv., m. ö. o. þessir aðilar eru þó um síðir skyldaðir til að koma þessum byggingum upp. Einnig að eignast lóðir og svæði, sem hentug þykja til íþróttaiðkana. Þá eiga og öll barnaskólabörn að læra sund, o. s. frv. Þetta eru atriði, skilst mér, sem ættu fremur heima í fræðslul. Sundlaugar eru ekki til alstaðar á landinu við skólana, þannig að það er ekki hægt að koma þessu við, nema með ærnum kostnaði, sem löggjafanum er ljóst að vísu. Náttúrlega getur ríkið tekið þátt í að flytja börn að þeim stöðum, þar sem á að kenna þeim að synda. Þessi l. taka ákaflega mikið inn á svið fræðslul. Af þeim ástæðum skal ég játa, að það hefir staðið töluvert í mér að mæla með því, að slíkt frv. sem þetta nái fram að ganga, þó að samþykki og samvinna fáist við Í. S. Í. um efni þess.

Að síðustu skal ég svo segja í sambandi við það, sem hv. 1. þm. Skagf. (PHann) sagði, að það væri „bezti vilji“ á að „reyna að leysa“ „þessi mál“ með samvinnu við Í. S. Í, að það er að mínu áliti afleitt, þegar íþróttastarfsemin verður að „máli“, og þá náttúrlega að máli, sem kemur til afskipta þess opinbera. (PHann: Vill hv. þm. þá heldur kalla það hlut?). Ef það er svo, að tilraun hafi verið gerð til þess hér á Alþ., að reyna að fá því framgengt, að náð yrði samkomulagi við Í. S. Í. um að koma á þessum l., þá virðist það hafa strandað á því, að talið hafi verið, að Í. S. Í. geti ekki náð til dreifbýlisins og þess vegna hafi þótt eðlilegt, að samband ungmennafél. Ísl. væri sá aðili, sem koma ætti fram fyrir Íslands hönd gagnvart öðrum þjóðum í íþróttamálum. En ég álít það fyrirkomulag önugt og óþarft, því að ef ungmennafélög stunda íþróttir sem slík, sem þau munu yfirleitt ekki gera, a. m. k. fá þeirra, þá stendur þeim opin leið að Í. S. Í. og geta náð fyrirhafnarlaust sambandi við þá miðstöð íþróttamálanna í landinu.

Ég álít það alls ekki rétt á litið, að Í. S. Í. geti ekki verið fulltrúi frjálsrar íþróttastarfsemi í landinu, heldur þvert á móti, að Í. S. Í sé sá rétti og eini rétti aðili til að vera fulltrúi landsins í íþróttamálum gagnvart öðrum þjóðum.