29.11.1939
Neðri deild: 71. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 845 í B-deild Alþingistíðinda. (1665)

27. mál, íþróttalög

*Jón Pálmason:

Mér þykir rétt að segja örfá orð um mína afstöðu til þessa máls.

Ég skal ekki mæla á móti því, sem hæstv. forsrh. sagði um nauðsyn íþróttanna. Þær eru mjög nauðsynlegt og gott mál, og sjálfsagt væri æskilegt að hafa ráð á að veita fé til þeirra.

Það þarf ekki mikla vitsmuni eða þroska til að semja l. eins og þetta frv. og segja: Það skal stofna íþróttasjóð og ríkið leggi fé til hans. En aðalatriðið er, að þessi l. eru þýðingarlaus, ef ekki er veitt stórfé vegna ákvæða þeirra af hinu opinbera. Og það er nokkurn veginn ljóst af þessu frv., að það yrði mjög dýrt mál. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir, að sett verði á stofn nýtt embætti, sem vafalaust yrði dýrt embætti, og það yrði launað af ríkisfé. Og af reynslu undanfarinna ára má gera ráð fyrir, að utan um það mundi rísa upp skrifstofa, sem kostaði nokkra tugi þús. kr. árlega. Það er gert ráð fyrir, að íþróttan., sem þarna er gert ráð fyrir að skipuð verði, sé ólaunuð, en að hún fái útlagðan kostnað greiddan úr ríkissjóði. Þetta ákvæði mun koma til með að kosta mikið fé, ef að l. verður. Íþróttasjóður verður líka enginn sjóður, nema hann hafi fé, og þess vegna verður að afla tekna fyrir bann, sem ekki er hægt öðruvísi en með því að leggja útgjöld á fólkið. Þess vegna hygg ég, að nú, eins og komið er í fjármálum þjóðarinnar og einstaklinganna, sé rétt að stilla sig um það yfirleitt að stofna ný embætti á þessu þingi, eins og svo mjög hefir tíðkast á undanförnum þingum.

Hitt er annað mál, sem hæstv. forsrh. talaði um, að það þarf að auka fræðslu á sviði íþrótta o. e. t. v. ákveða eitthvað nánar um, hvernig haga skuli íþróttasamböndum, sem frjálsa íþróttastarfsemi hafa með höndum. En ég tel, eins og sakir standa hér á landi nú, ekki tímabært að setja l. eins og frv. gerir ráð fyrir um íþróttir í skólum.

Af þessum ástæðum sé ég ekki ástæðu til að drífa þetta mál í gegn eins og nú standa sakir hér hjá okkur um allar aðstæður.