05.12.1939
Neðri deild: 75. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 850 í B-deild Alþingistíðinda. (1679)

27. mál, íþróttalög

*Jón Pálmason:

Við 2. umr. þessa máls verði ég nokkrar aths. við frv. frá fjárhagslegu sjónarmiði. Ég sagði þá, að ef frv. ætti að ná fram að ganga, myndi það leiða af sér mikinn kostnað fyrir ríkissjóð. Framkoma frv. og öll aðferðin í sambandi við það er glöggt dæmi um þau vinnubrögð, sem tíðkast nú hér á Alþingi. Þetta víðtæka mál er lagt fram af milliþn., sem lætur enga áætlun um kostnað fylgja því, og svo á að lauma frv. gegnum þingið á þeim forsendum, að íþróttir séu vinsælt mál, sem menn vilja gjarnan rétta hjálparhönd. Má því búast við, að þegar á næsta ári verði kostnaður af þessu nokkur þúsund króna, sem svo vex upp í tugi þúsunda, þegar fram í sækir. Þetta er sagan um fjölda stofnana, sem hér hefir verið komið á fót. Þær verða dýrari í rekstri með hverju ári, sem liður, og það reynist ógerningur síðar að fá þennan kostnað út af fjárl.

Hv. flm., 1. þm. Skagf., svaraði gagnrýni minni um kostnaðarhlið málsins. Hann sagði, að þetta myndi hafa mjög lítinn kostnað í för með sér. Það er ætlazt til þess, að annar fulltrúinn í fræðslumálaskrifstofunni annist þetta. Það kann að vera, að ókunnugir menn taki þetta trúanlegt, en það þýðir ekki að segja þeim þetta, er þekkja til, hvernig þar hagar til. Það hefir ekki verið nema einn fulltrúi hjá fræðslumálastjóra, sem að vísu er duglegur maður, en hann hefir haft þar nóg að gera, og í fræðslumálaskrifstofunni hefir þurft að bæta við starfskröftum til ígripa, en það eru ekki menn á föstum launum, og er það vegna þess, að í þeirri skrifstofu er svo miklum störfum að sinna, að ekki hefir verið hægt að komast af með þennan eina fulltrúa. En myndi þá nokkrum, sem þekkir til, detta í hug, að hægt sé að ætlast til, að fulltrúi í fræðslumálaskrifstofunni hafi með þetta allt að gera?

Í grg., sem fylgir þessu frv. frá hv. menntmn., er þessi regla hv. 1. þm. Skagf. alveg slegin niður. Þar er tekið fram eftirfarandi, ef ég má lesa upp svolítinn kafla, með leyfi hæstv. forseta.

„Íþróttafulltrúi verður hinn fastlaunaði, sístarfandi framkvæmdastjóri íþróttamála landsins og hefir umsjón með öllum íþróttamálum í skólum og félögum. Á forystu hans og framtaki hlýtur mjög að byggjast framgangur íþróttamála landsins og gagnsemi þeirra. Veltur því mjög á mannkostum hans og kunnáttu. Verður að ætlast til, að hann hafi verklega þekkingu á sem flestum þeirra íþróttagreina, sem iðkaðar eru í landinu, og helzt mikla í einni eða fleirum. Auk þess er nauðsynlegt, að hann hafi fræðilega þekkingu um íþróttir, byggingu mannslíkamans og almenna sálarfræði, einkum þau svið hennar, sem íþróttir snertu. Vegna afskipta hans af skólunum, stjórnar hans á og eftirliti með íþróttakennslu þeirra og íþróttastarfsemi er nauðsýnlegt, að hann hafi töluverða þekkingu á uppeldisfræði og kunnugleika og skilning á starfsháttum skóla og kennslutækni. Meðan ekki er völ á manni, sem stundað hefir íþróttir og íþróttafræði sem sérgrein, mætti t. d. hugsa sér, að íþróttafulltrúi væri íþróttamaður með læknisprófi, en hefði aflað sér framhaldsmenntunar um íþróttafræði og uppeldismál. Eða að það væri vel menntaður íþróttakennari með sérstökum undirbúningi undir starf þetta.“

En svo ætlar hv. 1. þm. Skagf. eftir þessa lýsingu hans sjálfs í grg. frv. að telja þm. trú um, að þetta geti verið aukastarf hjá fulltrúa í fræðslumálaskrifstofunni. Það er alveg gefið eftir þeim kröfum, sem undanfarið hafa verið gerðar um launakjör, að hér myndi verða um allhátt launaspursmál að ræða. Þessi íþróttafulltrúi myndi fljótlega þurfa að hafa töluvert starfslið til stjórnar á þessu sviði.

En svo maður sleppi þeirri hlið málsins, þá er auk þess samkv. frv. ætlazt til, að stofnaður verði íþróttasjóður, en ekki vikið að því einu orði, hvernig eigi að afla honum tekna, nema getið er um, að ríkissjóður eigi að leggja honum til fé. Nú hefir það að vísu verið svo, eins og hv. 1. þm. Skagf. benti á við 2. umr. þessa máls, að nokkurri fjárhæð hefir verið varið úr ríkissjóði til íþróttamála á undanförnum árum. En það hefir verið svo um þá hluti eins og um margt annað, að hv. fjvn. Alþ. hefir verið í vandræðum, vegna þess hve sú fjárhæð hefir verið tiltölulega lág, sem unnt var að veita. Á fjárl. fyrir árið 1939 voru veittar 6 þús. kr. í þessu skyni, og skiptist sú upphæð milli ýmsra félaga, sem starfa á íþróttasviðinu, og styrkurinn til hvers þeirra er mjög lítill, borinn saman við þá starfsemi, sem þau munu hafa rekið. Það hefir verið veitt talsvert fé úr ríkissjóði til Skíðafélags Reykjavíkur, en í fjárl. hefir þetta íþróttafélag verið tekið mjög út úr, af hvaða ástæðu sem það er. Vegna þess, hvernig þessu er varið, þá sýnist fullkomin ástæða til að fresta þessu máli, eins og sakir standa, þó ekki sé nema vegna fjárhagsástæðna. En svo koma ýmsar aðrar ástæður, sem valda því, að ég tel lítinn hagnað að samþ. þetta frv. Þar kemur fyrst til greina það, sem hv. 4. þm. Reykv. (PHalld) minntist á, að það væri mjög óheppilegt, ef ætti að koma því til leiðar, að hér á landi væru tvö íþróttasambönd, annarsvegar Íþróttasamband Íslands og hinsvegar Íþróttasamband ungmennafélaganna.

Það er síður en svo, að ég ætli mér að draga skóinn niður af ungmennafélögunum, sem ég hefi jafnan haft gott anga á og mér þykir vænt um, heldur tel ég í alla staði heppilegra, að ekki sé nema eitt íþróttasamband til í landinu, sem sé Íþróttasamband Íslands. Enda er það svo, að það eru ekki nema 33 ungmennafélög, sem eru í íþróttasambandi þeirra og hafa haft forgöngu þessa máls á undanförnum árum. Bæði í Noregi, Danmörku og Svíþjóð hefir sú skipun komizt á íþróttamál, að þar hafa verið tvö íþróttasambönd, en slíkt hefir valdið deilum og orðið heldur til óhappa en hitt.

Ef á að fara að setja löggjöf um þessi efni, tel ég sjálfsagt að samþ. brtt. frá hv. 4. þm. Reykv., sem hér liggur fyrir.

Eitt meginatriði, sem orkar því, að ég tel ákaflega hæpið að samþ. löggjöf, sem byggist á þeim grundvelli, að taka íþróttamálin undir ríkisvaldið og láta stjórn þeirra verða rekna af því, er, að slíkt myndi verða til að bægja burtu ýmsum áhugamönnum, sem annazt hafa slíka starfsemi. Hún er að langmestu leyti að þakka þeim áhugamönnum, sem lagt hafa mikið á sig til að koma íþróttastarfseminni í gott horf.

Það er óheppileg leið fyrir ríkisvaldið, að láta slíka menn ekki starfa áfram og rannsaka starfsemina, heldur taka öll íþróttamál landsins undir ríkið. Slíkt yrði til þess, að áhugamennirnir fyndu minni hvöt hjá sér til að starfa að þeim málum, því að þeir álitu, að ríkisvaldið tæki þetta allt í sínar hendur.

Af þessum orsökum, sem ég nú hefi drepið á, vil ég leyfa mér að leggja fram skriflega, rökstudda dagskrá, svo hljóðandi:

Þar sem augljóst er, að frv., ef að 1. verður, hefir stór útgjöld í för með sér fyrir ríkið, og þar sem engin kostnaðaráætlun fylgir frv., þá telur d. ekki rétt að samþ. það eins og nú stendur, og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.