05.12.1939
Neðri deild: 75. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 854 í B-deild Alþingistíðinda. (1682)

27. mál, íþróttalög

Frsm. meiri hl. (Pálmi Hannesson):

Herra forseti! Hér liggur í fyrsta lagi fyrir brtt. á þskj. 378, sem borin er fram af hv. 4. þm. Reykv., og í öðru lagi rökst. dagskrá frá hv. þm. A.Húnv. Hv. þm. A.-Húnv. var nú á móti þessu frv. eins og við síðustu umr. þess, vegna þess að hann taldi það mundu hafa stórkostlegan kostnað í för með sér. Það er sýnilegt, að það hefir komið illa við sparsemdartaugar hans. Það er nú hans fag að fást um kostnaðinn, í orði kveðnu a. m. k., og skal honum ekki láð það. Hv. þm. A.-Húnv. vildi ekki fallast á, að kostnaður sá, sem af þessu frv. leiðir, ef að l. verður, væri lítill. Hann vildi ekki fallast á annað en að íþróttafulltrúi yrði að vera vel launaður og hafa stórkostlegt skrifstofubákn. Ég benti á það við 2. umr. þessa frv. hér í d., að eins og stendur skýrum orðum í frv., er ætlazt til þess, að. íþróttafulltrúinn verði starfsmaður hjá fræðslumálastjóra og vinni þar sín daglegu störf við afgreiðslu mála. Ég skal ekkert segja um það, hvort einn eða tveir fulltrúar með því nafni eru hjá fræðslumálastjóra, en þar vinna tveir slíkir menn.

Hitt veit ég, að þar, sem tveir menn starfa getur varla farið hjá því, að heppilegt væri, að annar þeirra gæfi sig sérstaklega við íþróttamálum, auk þess sem hann ynni að almennum skrifstofustörfum á þeim tíma, sem afgangs yrði. Fulltrúi fræðslumálastjóra þarf að fara um landið til þess að líta eftir skólamálum, og væri þá ákaflega vel til fallið, að sameina ferðir hans vegna íþróttamála við eftirlitið vegna skólamála. Hvernig snúa þessi mál við nú? Ég get viðurkennt það, að allt fram að þessum tíma hefir íþróttamálum skólanna verið sýnd mikil vanræksla. Hv. þm. A.-Húnv. las upp úr grg. frv. nokkuð langa rollu um þá kosti, sem íþróttafulltrúi ætti að hafa, og hneykslaðist á því, að þar væri m. a. heimtað, að hann ætti að hafa mannkosti og menntun. Maðurinn þarf menntun við sín störf, og það er ekki ósamrýmanlegt, þótt hann kunni aðeins skil á nokkrum gr. íþróttanna til hlítar. Hann á að gefa leiðbeiningar viðvíkjandi íþróttamálum skólanna og að sjálfsögðu gefa öðrum leiðbeiningar um þau mál, ef þeir óska þess.

Samkv. frv. skal stofna íþróttasjóð, og þá þarf náttúrlega að afla honum tekna, en ekki er unnt að fara varfærnislegar af stað en gert er í frv.. þar sem það er lagt algerlega á vald Alþ., hve mikið fé er veitt til íþróttamálanna á hverju ári. Þegar hv. þm. A.-Húnv. taldi, að það þyrfti að kosta miklu til, ef frv. yrði að l., datt mér ekki í hug, að nokkur þm. væri svo skyni skroppinn, að hann gæti ekki reiknað út, hvað helmingur eða e. t. v. 1/3 úr starfsmanni myndi kosta, auk dálítils ferðakostnaðar, sem hlýtur að koma til. Hv. þm. þótti það einkennilegt, að í frv. væri ekki tekið neitt fram um ferðakostnað.

Að öðru leyti er það vitanlegt og viðurkennt af hv. þm., að það þarf að verja allmiklu fé til ferðalaga vegna íþróttamála, en fram að þessu hefir fé til slíkra ferðalaga verið dreift út meðal ýmsra aðila, án þess að litið hafi verið eftir, hvort skipulags eða réttlætis væri gætt. Það, sem farið er fram á í þessu frv., — og hér í hv. Nd. hafa þau atriði verið rækilega rædd við 1. umr., — er að setja upp n. manna, sem við íþróttir fást, til þess að sjá um úthlutun á því fé, sem til íþróttamála er veitt. Þessi nefnd er hugsuð þannig, að Íþróttasamband Íslands og samband ungmennafélaganna velji sinn manninn hvort, og sá þriðji af ríkisins hálfu.

Ég veit ekki, hvort það er af þessum ástæðum, að hv. þm. A.-Húnv. og hv. 4. þm. Reykv. reyna að rökstyðja það, að þessu frv. sé ætlað að gera íþróttirnar að ríkisrekstri; tæplega geta þeir fundið í frv. annan stuðning fyrir ásökunum í þá átt. Í þessu frv. er aðeins farið fram á, að kennslumálaráðh. skipi íþróttanefnd til að úthluta því fé, sem ríkið leggur til íþróttamála í landinu. Það er hugsað svo, að einn fulltrúi verði frá ríkinu, sem kæmi fram af hálfu skólanna. einn frá Í. S. Í. og einn frá U. M. F. Í., því félagi, sem hv. þm. A.-Húnv. gaf ástarjátningu sína, um leið og hann vildi hrinda því af stalli.

Hv. þm. A.-Húnv. kom í sambandi við þetta inn á það mál, sem snertir brtt., sem liggur fyrir á þskj. 378, og get ég víkið að því síðar. — Þessi brtt. er að mestu leyti shlj. þeirri brtt., sem menntmn. hafði á sínum tíma borið fram, frá Í. S. Í. eða stjórn þess. Það er skemmst að segja, að menntmn. fór nákvæmlega yfir þessar till. þá og sá ekki ástæðu til að taka þær til greina að öðru leyti en því, sem gert var við 2. umr. þessa máls. Það, sem brtt. felur í sér eins og hún kom frá Í. S. Í., er að auka áhrif þess á úthlutun fjár til íþrótta. Mér þykir alls ekki undarlegt þó að stjórn Í. S. Í. telji sér rétt og skylt að halda fram hlut sambandsins og tefla þar framarlega á hlunn. Hitt er aftur annað mál, hve mikið tillit hv. deild telur rétt að taka til þess, sem sambandið heldur fram, og verður þar að líta á fleira en hagsmuni þess eins. Samkv. brtt. við 24. gr. er mælt svo fyrir, að Í. S. Í. komi í íþróttamálum fram gagnvart öðrum þjóðum, og öll íþróttakeppni fari fram eftir reglum, sem sambandið setur. Þetta er að vísu ekki bein viðurkenning, en þó sú viðurkenning, sem felur í sér allt, sem máli skiptir. Hún felur í sér það, að Í. S. Í. á að hafa brautargengi til þess að koma fram fyrir hönd þjóðarinnar út á við og setja reglur um íþróttakeppni inn á við. Hitt er annað mál, hvort Í. S. Í. á að vera eitt í ráði um úthlutun fjár, og allir hv. þm. sjá, að þar hljóta fleiri aðilar að koma til greina.

Mætti ég biðja hv. þdm. að athuga, hvert það fé hefir farið, sem veitt hefir verið til íþróttamála. Langmest af því hefir farið til sundlaugabygginga úti á landi. Í öðru lagi eru það skólarnir og starfsemi þeirra, sem koma til greina sem aðilar, þegar um er að ræða styrk til íþrótta. Það virðist ekki auðvelt að skapa réttlátari dómstól en einmitt þannig, að hann sé skipaður af Í. S. Í., kennslumálaráðherra, og U. M. F. Í.

Eins og högum er háttað í dreifbýlinu, orka menn ekki að standa undir sérstökum íþróttafélagsskap og sameinast um íþróttamálin á stórum svæðum. Þannig er þessu háttað, og það vita allir hv. þm., að svo hlýtur það að vera. Það er að vísu hægt að koma upp íþróttafélagi í sveitum, og þess eru dæmi, ef sérstakur atgervis- og áhugamaður heldur því uppi, en slíkt félag deyr, ef sá maður hverfur burt úr sveitinni. Þetta er staðreynd. Hinsvegar er það margviðurkennt að íþróttastarfsemi ungmennafélaganna hefir verið mjög gagnleg og náð í sveitum landsins þeim árangri, sem ég efast um, að Í. S. Í. hefði getað náð. Ég hefi hér allmikið af skýrslum frá ungmennafélögum um þetta efni, en sé ekki ástæðu til að fara lengra út í þetta mál, en vil aðeins minna á það, að meginhluti af íþróttahúsum, sundlaugum og íþróttavöllum, sem byggðir hafa verið um allt land, hafa verið reistir fyrir atbeina ungmennafélaganna með styrk af almennafé. Þessu starfi verður að halda áfram, og hér í frv. er lagður grundvöllur að því, að það verði gert á sem hagkvæmastan hátt, með því að láta úthlutunina í hendur n., skipaðri völdum mönnum. Eins og áður er sagt, eru í þessari n. aðilar frá U. M. F. Í., Í. S. Í. og skólunum. Ég hefi haldið því fram, að mörg íþróttafélög séu ekki í Í. S. Í, en tilheyra ungmennafélagsskapnum. Einnig eru mörg félög. sem eru í Í. S. Í, sem greiða ekki gjöld sín og því til lítils gagns fyrir sambandið. Nefnd sú, sem undirbjó frv., safnaði skýrslum frá hverju einasta ungmennafélagi og íþróttafélagi innan Í. S. Í. Þessar skýrslur hafa mikinn fróðleik inni að halda og sýna það svart á hvítu, að það er algerlega vonlaust, að Í. S. Í. geti náð með fullum styrk út um byggðir landsins. Til þess er aðeins sú ein leið, að hagnýta starf ungmennafélaganna í þágu íþróttanna, eins og gert er í þessu frv.

Ég vil nú víkja nokkru nánar að þeim brtt., sem hv. 4. þm. Reykv. gerði ráð fyrir, að fallizt yrði á. — Ég sé ástæðu til að ræða brtt. hverja fyrir sig. Brtt. við 1. gr. er sú. að bæta inn orðinu „hreysti“. Þetta er óþarft, því að í frvgr. er rætt um bæði heilbrigði og táp, en þessi orð til samans ná fullkomlega yfir þá tvöföldu merkingu, sem felst í orðinu hreysti.

Með 2. brtt. er farið fram á, að Í. S. Í. fái úrslitavald um skipun íþróttafulltrúa, sem, eins og frv. ber með sér, á að hafa á hendi yfirstjórn íþróttamála í skólum fyrst og fremst. Ef till. væri samþ., fengi Í. S. Í. þar yfirráð yfir íþróttastarfsemi skólanna, og það er alls ekki eðlilegt, að mínum dómi. Mér virðist miklu eðlilegra, að slík leiðbeiningarstarfsemi verði framkvæmd af fulltrúum fræðslumálastjórnar.

Við 3. gr. eru 2 breytingar. Þar er gert ráð fyrir, að íþróttafulltrúi geti orðið framkvæmdastjóri Í. S. Í, og er þar aftur seilzt inn á það svið, að blanda saman starfsemi skólanna og hinnar frjálsu íþróttastarfsemi. Með þessu virðist mér nokkur tilraun til þess gerð að koma Í. S. Í. undir áhrifavald fræðslumálastjórnar, enda þótt hv. 4. þm. Reykv. vilji af fremsta megni berjast gegn slíku, og vil ég vinsamlega benda honum á þetta.

Við 4. gr. er breyt. aðallega sú, að farið er fram á, að 2 fulltrúarnir í íþróttan. séu skipaðir samkv. till. Í. S. Í. og einn eftir ráði fræðslumálastjórnar og enginn frá öðrum aðilum. Þar með fengi sambandið fullkomin umráð yfir öllu því fé, sem íþróttasjóður fær af almannafé.

Við 7. gr. eru nokkrar breyt., sem hniga í sömu átt, að auka vald Í. S. Í. Við, sem undirbjuggum frv., fengum ekki umsögn U. M. F. Í. Að öðrum kosti gæti vel hugsazt, að sá félagsskapur hefði komið með till., sem veittu honum meiri íhlutun á gang íþróttamálanna, á sinn hátt eins og Í. S. Í. Þetta varð ekki, og þess vegna hallast hér stórkostlega á. Í brtt. við 9. gr. er farið fram á, að allar reglugerðir um. mannvirki, sem styrkt hafa verið af íþróttasjóði, skuli vera staðfestar af Í. S. Í., en fræðslumálastjórnin fær ekki að ráða neinu þar um. Ég get ekki látið hjá líða að taka fram, að þarna er vissulega of langt gengið. Við 14. gr. er breyt. um, að gert er ráð fyrir, að nemendur í skólum eigi kost á kennslu í glímu, og fari kennslan fram á líkan hátt og í glímufélögum Í. S. Í. og undir þess eftirliti. Það er alveg augljóst af 24. gr., að svo hlýtur að vera. Í. S. Í. setur reglur um alla íþróttakeppni, og þá er auðsætt, að einnig í þessu efni verði farið eftir reglum þess. Ákvæðum 16. gr. var nokkuð breytt við 2. umr. þessa máls, og ég býst við, að hv. þm. hafi ekki athugað það til fullnustu.

Brtt. hv. 4. þm. Reykv. við 17. gr. er ég sammála.

Við 20. gr. eru nokkrar breyt., en ég sé ekki, að nokkur þeirra skipti máli, vil aðeins minnast á eina þeirra. 20. gr. er um réttindi til að verða íþróttakennari, og kröfur þær, sem gerðar eru til slíks. Niðurlag gr. er á þessa leið: „Heimilt er fræðslumálastjórn að veita undanþágu frá ákvæðum þessarar gr., ef í hlut eiga kennarar, sem fengnir eru til þjálfunar um stundarsakir í einstökum íþróttagreinum, enda samþykki stjórn íþróttakennarafélags Íslands ráðningu þeirra.“ En hér vill hv. 4. þm. Reykv. skjóta inn orðunum: „að fengnu samþykki Í. S. Í“. Þannig á fyrst og fremst að spyrja Í. S. Í. ráða, en ekki íþróttakennara. Að öðru leyti eru breytingar engar við þessa gr., sem orð er á gerandi.

Þá er brtt. við 23. gr. Ég get fyrir mitt leyti fallizt á hana og tel það til bóta að samþ. brtt. við 23. og 26. gr., nema við 3. tölul. Þar er gerð breyt. í þessum sama anda og ég hefi talað um hér. Þá er 13. brtt., við 28. gr., sem hv. 4. þm. Reykv. gat um. Ég er honum sammála um, að það sé skýrara orðalag, að í stað orðanna „opinberan styrk“ komi: styrk úr íþróttasjóði.

Ég hefi nú rætt brtt. nokkuð og reynt að gera grein fyrir þeim, eftir því, sem ég hefi getað, og skal aðeins að síðustu lýsa því yfir, að ég fyrir mitt leyti er samþ. brtt., sem ég gat um, við 9. og 17. gr., 11. brtt., við 23. gr., og 13. brtt., við 28. gr. Ég hefi ekki fleira að taka fram að sinni, en vænti þess, að rökst. dagskrá hv. þm. A.-Húnv. verði felld, síðan meginhluti af öllum þeim brtt., sem eru á þskj. 378, eða allar nema þær, sem ég hefi tekið fram, að ég telji skaðlausar eða til bóta.