05.12.1939
Neðri deild: 75. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 858 í B-deild Alþingistíðinda. (1683)

27. mál, íþróttalög

*Frsm. minni hl. (Pétur Halldórsson):

Mig langar til að fara nokkrum orðum um ýms atriði þessa máls. Þá eru fyrst nokkur orð út af því, sem hæstv. forsrh. sagði. Hann hafði orð á því, að frv. eins og það hefði verið væri samið af n. íþróttamanna og fulltrúa fyrir íþróttafélög og gat þess, að fulltrúar íþróttafélaga í Rvík hefðu gengizt inn á, að U. M. F. Í. nyti allra þeirra réttinda, sem frv. áskilji. Ég skal ekki fara langt í hugleiðingum um þetta orðalag hæstv. ráðh. Ég trúi því, að þetta sé rétt orðað og að hann hafi lagt mikið kapp á af sinni hálfu að fá fulltrúana, sem annars áttu að halda fram rétti Í. S. Í. vegna íþróttanna í landinu, til að gangast inn á annað en það, sem bezt er fyrir íþróttalífið. En það eru ekki allir skyldugir til að taka tillit til þess hér, þó að honum þyki betur fara, að í l. verði atriði, sem þeir hafi gengizt inn á að hafa í frv. Þess vegna dugar ekki að svara því til, að hér hafi verið gengizt inn á nokkurn skapaðan hlut í þessa átt. Ef það er rétt, seni ég held, að fleira þessu líkt eigi að koma fram í málinu, þá er alveg óþarfi fyrir hv. þdm. að taka tillit til þess, þó að einhverjir hafi gengizt inn á eitthvað í sambandi við það. Hæstv. ráðh. sagði ennfremur, að þetta frv. almennt séð ætlaðist ekki til þess á nokkurn hátt, að afskipta ríkisins gætti verulega í íþróttamálum landsins. Það myndi aðeins vilja sjá um, að því fé, sem ríkið legði til íþróttastarfsemi, yrði varið á réttan hátt, og þá sérstaklega til upplýsingastarfsemi vegna íþrótta. Ég man, að hæstv. ráðh. talaði um, að nýlega hefði verið gefin út íþróttabók að tilhlutun einhvers manns. Mér er kunnugt um, að hæstv. ráðh. hefir mikinn áhuga fyrir skíðaíþróttinni, og við því er ekki nema gott eitt að segja. En útgáfa þessarar bókar mun ekki hafa neina þýðingu fyrir eflingu skíðaiðkana hér á landi, enda tel ég hana gagnslitla.

Í sambandi við þetta sagði hæstv. ráðh., að það væri eitt af verkefnum ríkisins að taka í sínar hendur að sjá um upplýsingastarfsemi og útgáfu bóka til leiðbeininga við íþróttir. Ég kem með hér til viðbótar bréf frá Í. S. Í. (sem prentað er á þskj. 351) til menntmn. Ed. Þar eru upplýsingar um það meðal annars, hvað bókaútgáfa Í. S. Í. hefir verið mikil. Að tilhlutun þess hafa fjöldamargar bækur komið út frá árunum 1921–1936. Ég vil ekki þreyta hv. þdm. með því að lesa þann langa lista, en hann sýnir það, að eftir getu hafa íþróttamenn staðið að því að gefa út bækur til gagns fyrir þá, sem íþróttir vilja stunda. Ég má bæta því við, að við höfum ekki mikið fé til útgáfu íþróttabóka í íþróttasjóði, og eftir upplýsingum hv. þm. A.-Húnv. um örlæti ríkisstj. veitti hún fjárhagsárið 1939 6000 kr. til íþróttamála. Þessu fé átti svo að skipta milli allra íþróttafélaga, en þessi upphæð nægði rétt fyrir launum íþróttafulltrúa, svo að lítið yrði eftir til bókaútgáfu með sama örlæti.

Það var að heyra á hæstv. forsrh., að hann legði mjög mikla áherzlu á það, að meiningin með þessu frv. væri langt frá að vera sú, að taka íþróttir undir ríkisrekstur. Honum er auðsjáanlega illa við að bendla þessu frv. við ríkisrekstur, en maður getur ekki varizt þeirri hugsun, að svo sé, þar sem ráðh. fengi einræðisvald í íþróttamálum. Það eru hvorki meira né minna en 15 reglugerðartilefni í frv., sem sjást á yfirborðinu, og er því ekki óeðlilegt, þó svo sé tekið til orða, að nú eigi að taka íþróttirnar til ríkisrekstrar. Skal ég svo ekki segja meira um ræðu hæstv. forsrh. Hann sagði þó, að hann gæti séð, að það gæti orðið meiningamunur um það hér í hv. d., hvort fara ætti þá leið, sem ég legg til að farin verði, að fela Í. S. Í. meðferð þessara mála, eða taka hana úr höndum þess og fá það einhverjum öðrum.

Hv. 1. þm. Skagf. þarf ekkert að verða hissa á því, að mínar fyrstu till. ganga í þá átt, að gera Í. S. Í. hér aðalaðilann. Hann þarf ekki heldur að taka það nærri sér fyrir hönd ungmennafélaganna, þótt þau þurfi að ganga í Í. S. Í, því eftir því, sem ég bezt veit, mun árgjaldið þar vera 10 kr. fyrir hvert félag. Mínar till. ganga beinlínis út á það að auka áhrif Í. S. Í. á íþróttalíf í landinu, og get ég ekki séð, að það sé á nokkurn hátt óeðlilegt, en úr því verður aðeins skorið með atkvgr. hér í d., hvort svo verður, eða fela skal það öðrum aðila.

Ég held, að ekki þurfi heldur að óttast áhrif Í. S. Í. á úthlutun þess fjár, sem ríkissjóður veitir til íþrótta, en ég skal verða manna fyrstur með því að taka það vald af því aftur, verði því misbeitt. Samkv. frv. á að taka fullt tillit til allra aðila með úthlutunina, enda mundu ungmennafélögin og íþróttafélögin, sem öll yrðu að vera í sambandinu, hafa þar aðstöðu til að hafa áhrif á úthlutunina. Nú þegar munu 35 ungmennafélög vera í Í. S. Í, svo það er ekki verið að hrinda þeim af neinum stalli, þótt sambandinu væri falin yfirstjórn íþróttamálanna. Ég fæ ekki betur séð en að allt styðji mitt mál og að sú leið sé rétt, sem ég hefi bent á með minni brtt. Ég skil ekki annað en að hv. þm. sjái, að fullt tillit er tekið til ungmennafélaganna með minni till., þótt farið sé fram á, að íþróttamálin falli öll undir áhrif Í. S. Í.

Það gladdi mig að heyra á ræðu hv. samnefndarmanns míns í menntmn., að hann er farinn að linast á þeirri fullyrðingu, sem hann ber fram í grg. frv., að ekki sé rétt að taka þau réttindi af mönnum, sem þeir nú hafa, að þeir megi ekki stunda nám í kennaraskólanum, ef þeir hafa ekki fullan færleik til að læra íþróttakennslu. Virðist hv. samnm. minn vera að fallast á brtt. mína þessu viðvíkjandi. En með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa það, sem hann segir í grg. við 23. gr.: „Virðist því óhjákvæmilegt, að íþróttakennsla sé jafnan ein grein kennaraprófs. Þetta hlýtur að vísu að útiloka líkamsgallaða menn frá kennaranámi, en við því er ekkert að gera. Enda verður að teljast vafasamt, að menn, sem ekki geta stundað og kennt íþróttir vegna heilsubilunar eða líkamsgalla, séu heppilegir til að vera kennarar.“ Þetta verð ég að segja, að mér finnst ranglátt og ósanngjarnt, og þykir mér gott að heyra, að hv. þm. fellst á lagfæringar á þessu atriði, svo að menn geti verið í kennaraskólanum, þótt þeir geti ekki stundað leikfimi, því ég tel vafasamt, að ákvæði 14. og 15. gr. nái til þessa, þar sem þær fjalla um íþróttakennslu í skólum, en ekki íþróttanám.

Skal ég svo ekki tala meira um þetta mál að sinni.