06.12.1939
Neðri deild: 76. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 864 í B-deild Alþingistíðinda. (1690)

27. mál, íþróttalög

*Jón Pálmason:

Ég kvaddi mér hljóðs í gær í sambandi við þann ágreining, sem risinn var og enn helzt. Hv. 1. hm. Skagf. hóf ræðu sína á því að segja, að þetta frv. hefði komið illa við sparnaðarhug minn, það væri mitt fag að fást um þá hluti, sem til útgjalda horfðu, o. fl. í sama tón. Ég get skilið, að hann hneykslist á því að hugsa um slíkt. En s. l. viku höfum við verið að því í fjvn. að leita uppi hverja fjárhæð, sem nokkur möguleiki er til að spara á, og hvarvetna rekizt á ófærar hindranir. Þetta var lögbundin greiðsla, þessu var búið að lofa fyrir mörg ár, þessu varð ekki undan komizt vegna þess að venja eða hliðstæð fordæmi voru fyrir því o. s. frv. Þá höfum við orðið að ráðast á fjárveitingar, sem okkur var mjög sárt um, svo sem til ýmissa verklegra framkvæmda. Þá er það ekki rétt hjá hv. 1. þm. Skagf. að vera með háðglósur um það, að þetta sparnaðartal sé bara persónuleg ástríða hjá mér, allsendis óþarft.

Önnur hlið málsins er skipulagið, sem ráðgert er. Það þýðir og ekki að leyna því, að þarna er verið að stofna alldýrt embætti. Auk þess er stofnuð íþróttanefnd, sem að vísu á að vera ólaunuð fyrst, en verður það ekki lengi. Þá er ferðakostnaðurinn. Þetta vil ég aðeins benda á. Hitt er ágætt, ef menn verða svo á eftir sammála um að veita miklu meira til þessara mála en að undanförnu og búa svo um, að það mikla fé verði virkilega til íþróttaeflingar. Sízt verð ég til þess að neita gildi íþróttanna, þótt ég telji ekki heppilegt að knýja þetta frv. gegnum Alþingi í þeirri mynd, sem það er. Aðaldeilan um skipulagið snertir það, hvort hér eigi að vera eitt eða tvö íþróttasambönd. Um það mál get ég svarað sameiginlega þeim hv. 4. þm. Reykv., hv. 1. þm. Rang. og hæstv. forsrh.

Þó að sá félagsskapur eigi í hlut, sem ég gerði mér ungur miklar vonir um og hefi gert mér far um að sýna alla þá hjálpsemi, sem ég taldi mér fært, verð ég að segja það um ungmennafélögin, að þau hafa tapað úr höndum sér aðalmarkmiðinu, sem þau höfðu í íþróttum í fyrstu, en það var að tryggja, að íslenzk glíma héldi áfram að vera þjóðaríþrótt. Henni hefir hrakað ákaflega í sveitunum á síðari árum. Sökin er sú, eins og hv. 1. þm. Rang. talaði um áðan, að fólki hefir fækkað á bæjunum og erfiðleikarnir á íþróttaiðkunum orðið svo miklir, að ungmennafélögin reisa ekki rönd við þeim. Nú kemur það ekki máli við, hvort menn halda, að ungmennafélögunum sé einhver stoð eða ekki í því að heita sjálfstæður aðili við hlið Í. S. Í. í þessum málum, þegar aðalatriðið er jafnóleyst eftir sem áður, hvernig íþróttir verði bezt efldar innan sjálfra félaganna. Engin rök hafa verið færð fyrir því, að eðlilegra sé að hafa samböndin tvö en eitt eða að ungmennafélögin biði tjón af þátttöku sinni í Í. S. Í., þar sem mikill hluti þeirra hefir nú verið um skeið.

Þá vil ég svara því, sem hæstv. ráðh. endaði ræðu sína á. Hann taldi það fjarstæðu, að ætti að rýra frelsi íþróttastarfseminnar í landinu. Þarna er ég alveg sammála og vil benda honum á, að þessi yfirlýsing fellur ekki alveg við ákvæði frv. Það er gert ráð fyrir að setja a. n. l. stjórnskipaða nefnd til yfirstjórnar í þessum málum á öllu landinu og stjórnskipaðan fulltrúa. Noti þeir menn vald sitt, geta þeir rýrt frelsi félaganna ákaflega mikið. Ég vil því hvorki nefndina né hinn stjórnskipaða fulltrúa. Ég tel það heppilegast, að hin frjálsa starfsemi sé styrkt af ríkisvaldinu eins og fjárhagur leyfir. Það er eðlilegt, að stofnanir eins og íþróttaskólarnir, sem við eigum á Laugarvatni, í Haukadal, á Álafossi og íþróttaskóli Jóns Þorsteinssonar í Rvík, séu styrktir af ríkinu, þótt þeim hafi verið komið upp af einstökum mönnum. Á sama hátt tel ég eðlilegt, að Í. S. Í. njóti styrks frá ríkinu, með því skipulagi, sem verið hefir. Það er sambærilegt við höfuðfélagsskap okkar bænda, búnaðarfélögin. Þau eru öll í einu sambandi, er nýtur sem heild þess styrks, sem Alþingi þykir fært að veita, og deilir síðan milli smáfélaganna. Það er affarasælast, að félögin séu sem allra frjálsust, en fái gegnum samband sitt þá aðstoð og þau áhrif, sem hverju þeirra um sig hentar bezt og þau óska eftir á hverjum tíma. Ég ber sízt móti því, að þörf sé á einskonar fulltrúa til leiðbeininga innan Í. S. Í., en það mál á að vera á þess valdi, en ekki setja upp ríkislaunað embætti til þess. — Yfirleitt er ég hræddur um, að „hlunnindin“, sem frv. á að veita Í. S. Í., verði hefndargjöf.