06.12.1939
Neðri deild: 76. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 866 í B-deild Alþingistíðinda. (1691)

27. mál, íþróttalög

*Frsm. minni hl. (Pétur Halldórsson) :

Ég vil benda hv. þdm. á, að það er fjarstæða, sem hv. 1. þm. Rang. hélt fram, að við, sem í fjölmenninu búum, viljum ná yfirráðum allrar íþróttastarfsemi undir okkur, þótt við viljum hafa þá yfirstjórn alla á einum stað, en ekki tveim. Enginn hefir borið móti því, að eitt íþróttasamband sé eðlilegra og heppilegra en tvö. Og það er aðeins deila um nafn, ef það samband má ekki heita Í. S. Í. Er þá nokkuð undarlegt, þótt stj. þessa sambands sé ætlað að vera í höfuðstað landsins? Þarf það að spretta af sérdrægni okkar Reykvíkinga, þótt við teljum það réttast? — Nei, ég held ekki. Það eru miklu minni rök fyrir því að hafa stjórnina t. d. austur í Rangárvallasýslu.

Auðvitað verður Í. S. Í. að vera opið öllum félögum, sem við íþróttir fást, hvar sem er á landinu, og þannig um hnúta búið, að þau geti haft þar sín áhrif. Ungmennafélögin eiga að vera þar, að því leyti sem þau eru íþróttasamtök, þótt þau hafi annars eins óskyld viðfangsefni og jarðrækt, skógrækt og unglingafræðslu, bindindi o. s. frv. og ýms mál sinnar sveitar eða héraðs, sem ekkert eiga að grípa inn í íþróttastjórn landsins og gera það mjög óheppilegt að fela þeim félögum hana, hversu virðingarverð sem íþróttastarfsemi þeirra er. Mig grunar, að við skipun þeirrar nefndar, sem undirbjó frv., hafi verið reynt að sjá til þess, að forgönguréttur Í. S. Í. til yfirstjórnar íþróttamála yrði þar ekki viðurkenndur. Hún var einkennilega skipuð, eins og réttilega hefir verið átalið. Það er margt, sem bendir til, að það hafi frá öndverðu þótt hæpinn málstaður að ætla ungmennafél. yfirstjórnina við hlið Í. S. Í. — Nefna má ýmiskonar félagsskap, sem einnig ætti að vera í Í. S. Í. með sama fyrirkomulagi og ungmennafélögin eru þar, svo sem skátafélögin eða sum verklýðsfélögin.

Það er alger fjarstæða, sem hv. 1. þm. Rang. segir, að Í. S. Í. sé að vekja sundrung í þessu máli, þótt það óski þess, að réttur þess sé ekki skertur. Annars hirði ég ekki að deila á ummæli hans eða annara, sem eiga erfitt með að líta hlutlaust á þessi atriði. Aðalatriðið ætti þó að verða hv. þm. ljóst að lokum, að úr því að rökst. dagskráin var felld, á að samþ. brtt. mínar um, að yfirstjórnin sé ein.