06.12.1939
Neðri deild: 76. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 873 í B-deild Alþingistíðinda. (1696)

27. mál, íþróttalög

*Þorsteinn Briem:

Það eru ekki fá atriði í þessu frv., sem menn virðast ósammála um. En eitt meginatriðið í þessu frv. er um það, að auka eigi íþróttakennslu í skólunum, og einnig eru ákvæði um það, hvort eigi að koma á sundskyldu. Ég skal ekki ræða mikið um þessi atriði, en ég skal aðeins minna á það, að það er þegar orðið þjóðinni til meins, hvað sundskyldan hefir dregizt lengi. Mér virðist ástæður manna til þess að vera á móti þessu frv. vera aðallega þrjár. Fyrsta ástæðan er sú, sem kom fram hjá einum hv. þm., að í þessu frv. væri fullt af hjámiðum. Ég hefi ekki komið auga á neitt dulið bak við bókstaf þessa frv. að ég þori að fullyrða neitt um þetta, en með því að lesa frv. yfir fæ ég ekki séð, að svo sé. En ef hér er um dulin hjámið að ræða, fæ ég ekki séð, að úr því verði á nokkurn hátt bætt með því að fella þetta frv.

Ýmsir hafa lagt áherzlu á það, að mikið þyrfti að vanda til um val íþróttafulltrúa, og hafa m. a. bent á það að íþróttafulltrúi eigi að gera till. um úthlutun fjár frá ríkissjóði. Ég vil benda á það, að í 4. gr. er skýrt ákvæði um það, að það sé ekki íþróttafulltrúi, heldur n., sem stjórnar íþróttasjóðnum. Það er tekið fram, að íþróttafulltrúi megi eiga sæti á fundum, en hafi ekki atkvæðisrétt.

Önnur mótbáran gegn frv. er sú, að Í. S. Í. sé ekki gert nógu hátt undir höfði með þessu frv. Það getur vel verið, að Í. S. Í. finnist sinn frumburðarréttur ekki nógu mikill. Samt sem áður vil ég mælast til þess við menn, sem á þetta benda, að þeir leyfi litla bróður, ungmennafélagsskapnum, að vera með. Ég hygg, að við nánari athugun muni Í. S. Í. sannfærast um það, að það öðlast hægari aðstöðu til þess að vinna að eflingu íþróttanna einmitt með ungmennafélagsskapinn sem millilið. Og ég hygg, að það geti verið gott fyrir báða að vinna saman. Ég get því ekki séð ástæðu til þess, að hlaupið sé í kapp um þetta atriði, heldur sé þarna opin leið til samkomulags á báðar hliðar.

Þriðja ástæðan, sem gaf mér tilefni til þess að standa upp, er sú mótbára, sem komið hefir fram gegn þessu máli, hvað mikla útgjaldaaukningu er farið fram á með þessu frv. Ég skal að vísu ekki bera á móti því, að eins og nú standa sakir í landinu, er ekki hægt að mæla með útgjöldum, sem ekki er hægt að finna fulla ástæðu fyrir. Ég hygg, að hér á landi sé þegar búið að glata miklum verðmætum með því regluleysi, sem átt hefir sér stað í þessum málum. Undanfarin ár hefir ríkissjóður veitt allmikið fé til þess að byggja sundlaugar víðsvegar um landið, og til leikfimishúsa. Ég hygg, að einmitt í þessu frv. sé verið að stefna að því að koma í framkvæmd slíkum mannvirkjum. Ég þekki dæmi þess, að skólan., sem vildi byggja leikfimishús, fékk frá teiknistofunni teikningu af leikfimishúsi, sem óhæf reyndist við nánari athugun, af því að skólan. leitaði upplýsinga hjá kunnáttumeiri aðilum, og kom þá í ljós, að hlutföllin reyndust algerlega röng. Þarna hefði a. m. k. verið kastað á glæ 6 þús. kr., ef farið hefði verið eftir teikningum frá teiknistofunni. Slík dæmi má einnig finna með sundlaugar, og einnig um ekki svo fá leikfimishús í landinu. Þessi eyðsla, þessi sóun hygg ég að borgi sig, að komi ekki fyrir framvegis.

Þetta frv. er að sjálfsögðu spor í rétta átt. Ég hygg því, að hér sé ekki verið að stofna til svo stórvægilegra útgjalda, að ekki séu fullar líkur til, að útgjöldin geri meira en að spara aðeins peninga fyrir ríkissjóð. Það verður að vænta þess, að ein sú hörmulegasta eyðsla, sem gerzt hefir með vorri þjóð, taki bráðlega enda. Einnig í þessum efnum eru mörg dæmi þess, að ég hygg, að það sé vel kostandi til þess að koma í veg fyrir það að fá krónu í eyris stað hvað þetta snertir. Á þetta atriði vildi ég benda sem eitt af mörgum; ég man ekki eftir, að aðrir hafi gert það. Hér hefir áreiðanlega verið mikil eyðsla úr ríkissjóði.