06.12.1939
Neðri deild: 76. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 879 í B-deild Alþingistíðinda. (1699)

27. mál, íþróttalög

*Frsm. minni hl. (Pétur Halldórsson):

Herra forseti! Ég skal ekki vera langorður. Það er líklega skýringin á þeirri breyt., sem gerð hefir verið eftir till. og tilstuðlan meiri hl. menntmn. á þessu frv., að yfirstjórn íþróttamálanna er nú sett í hendur „fræðslumálastjórnar“ en ekki „ráðherra“, að n. hefir séð, að þegar búið væri að sverfa svo fast að íþróttastarfseminni í landinu, að íþróttamönnum fækkaði óðum, þá verði það þó aldrei svo aumt, að ekki verði eftir bæði ráðherrann og fræðslumálastjórinn til að mynda íþróttaklúbb.

Annars vil ég víkja að því, sem hv. þm. V.-Ísf. sagði um ungmennafélögin, að starfsemi þeirra, auk íþróttanna, væri ekki pólitísks eðlis. Ég man nú ekki betur en að 1938 gerði þessi félagsskapur eina meiri háttar samþykkt gegn stríði og fasisma, en þau orðatiltæki eru nú alkunn sem slagorð kommúnista. Sú fullyrðing, að U. M. F. Í. sinni á engan hátt pólitískri starfsemi, fellur alveg máttlaus niður, þegar hægt er að benda á svona atriði. Annars er þetta eitt versta atriðið í framsóknarmennskunni, að vera sífellt að rífa sjálfsögð verkefni úr böndum manna og leggja allt undir ríkisvaldið. Í þetta sinn er það Í. S. Í., sem verður fyrir þessari starfsemi. Ef á að taka tillit til ungmennafélaganna í þessu sambandi, þá má nefna fjölda af félögum, sem raunverulega á kröfu til hins sama. — Af því að forsrh. fór að vitna í það, að hann hefði ekki meiri áhuga fyrir framgangi þessa máls en það, að hann hefði ekki „agiterað“ í nokkrum manni, en sagði hinsvegar, að íþróttamenn myndu ganga um og spilla fyrir frv., og skildist mér á honum, að íþróttamenn rækju mig áfram til andstöðu við málið, skal ég taka það fram, að það er nú svo, að ég hefi ekki átt tal við nokkurn íþróttamann um þessa afstöðu mína, eða þeir við mig. Ég sá bara hjá menntmn. þessarar d. bréf frá Í. S. Í. um breyt. á frv., sem mér þykja eðlilegar og sjálfsagðar, og þess vegna tók ég þær upp. — Nú er það vitað, að íþróttamenn eru mjög andvígir þessu frv., og hafa verið allt frá því að n. sú var skipuð, er þetta mál hefir undirbúið, enda hefir ekki verið tekið tillit til íþróttafrömuða í þessum bæ við skipun nefndarinnar, og með þeim afleiðingum þá, að árangurinn af starfi n. er svo, að ekki er sanngjarnt að ætlazt til, að við hann verði unað.