19.12.1939
Efri deild: 88. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 883 í B-deild Alþingistíðinda. (1708)

27. mál, íþróttalög

*Frsm. (Árni Jónsson) :

Ég tel óþarft að halda hér langa framsöguræðu fyrir þessu máli og get í því efni vitnað til hinnar ýtarlegu framsögu hæstv. forsrh. við 1. umr. Þetta mál hefir fengið mikinn undirbúning. Það var skipuð sérstök n. í fyrravetur til að undirbúa það, og auk þess hafa þeir aðilar, sem sérstaklega vinna að íþróttamálum, einnig verið kvaddir til ráða.

Eins og menn muna, þá stóð svo á um mál þetta, þegar það kom frá Nd., að það var smávægileg togstreita á milli aðila, sem þetta mál snertir. Forsrh. get þess þá, að hann hefði skrifað þessum aðilum og lagt málið fyrir þá og reynt að koma þeim saman til sátta. Þetta hefir tekizt. Það hafa komizt á algerðar sættir um málið, og þær brtt. sem menntmn. ber fram, eru að sumu leyti sprottnar af þessum sáttafundi.

Brtt., sem n. ber fram, eru 3 og er að finna á þskj. 487.

1. brtt. er við 20. gr. Það er svo að orði komizt í gr., „að ef í hlut eiga kennarar, sem fengnir eru til þjálfunar“. Í staðinn fyrir þetta leggjum við til, að þarna standi: „ef í hlut eiga menn, sem fengnir eru til þjálfunar“. Við höfum lagt þetta til með tilliti til erlendra þjálfara, sem oft eru fengnir hingað.

2. brtt. er nánast orðabreyt. Það er um undaþágu frá íþróttanámi. Í frv. er talað um undanþágu frá íþróttakennslu, en það er vitanlega átt þarna við undanþágu frá íþróttanámi.

3. brtt. er við 24. gr. og snertir ágreininginn, sem ég gat um áðan. Með brtt. okkar er alveg skýrt ákveðið starfssvið Í. S. Í., þar sem ákveðið er, að það sé æðsti aðili um frjálsa íþróttastarfsemi áhugamanna í landinu og komi ennfremur fram erlendis af Íslands hálfu í íþróttamálum, nema að því leyti, sem ríkið kann að gera það sjálft. Nú vil ég geta þess, að mér hefir verið bent á, að niðurlag þessarar till. væri dálítið klaufalega orðað. Þess vegna ætla ég að leyfa mér að bera fram við þetta skrifl. brtt., þar sem þetta er orðað dálítið öðruvísi.

Þessar till., sem n. ber fram, urðu að samkomulagi á fundi, sem haldinn var að tilhlutun forsrh., sem ég áður hefi getið um, en hann sátu stjórn Í. S. Í., fulltrúi frá Ungmennafélagi Íslands og hin stjórnskipaða n., sem undirbjó frv. — Ég hefi lagt áherzlu á, að þessi ákvæði kæmu inn í frv., m. a. til þess að vinna bug á þeirri lítilfjörlegu togstreitu, sem hefir verið gerð um þetta, og orðið hefir milli íþróttamanna.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta, en vil leyfa mér að afhenda hæstv. forseta skrifl. brtt. mína, og vænti þess, að hv. dm. taki þeirri brtt. vel og leyfi málinu að ganga áfram.