17.11.1939
Neðri deild: 62. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 886 í B-deild Alþingistíðinda. (1721)

48. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Frsm. (Sigurður E. Hlíðar):

Herra forseti! Eins og hv. dm. mun kunnugt, þá felur þetta frv. þá breyt. í sér frá núgildandi l., að í staðinn fyrir að leyfa, að veiðin hefjist 15. maí, þá skuli hún hefjast mánuði seinna. Norðlenzkir sjómenn, sem þessa veiði hafa stundað, hafa farið fram á þessa skipun. Fiskimálanefnd hefir fengið mörg tilmæli, sem hafa hnigið í sömu átt, einkum frá sjómönnum við Faxaflóa, aðallega byggð á því, að menn héldu í byrjun, að hrygningartímanum væri fyrr lokið fyrir sunnan land en norðan, en síðari ára athuganir hafa bent til þess, að mikið af afla dragnótabátanna sé hrygningarfiskur, og sé þetta því ekki aðeins til skaða fyrir stofninn, heldur hefir líka heildaraflinn verið miklu mínna virði fyrir það, að hrygningarfiskur hefir verið í honum.

Þegar ég flutti þetta mál á fyrri hluta þingsins, vantaði umsögn sérfræðinga um það. Síðan hefir fengizt umsögn Árna Friðríkssonar fiskifræðings, og hnígur hans umsögn í þá átt, að mæla með frv., að það nái fram að ganga. Nú hefir sjútvn. haft þetta frv. til meðferðar, og er hún á einu máli um að mæla með, að frv. verði samþ., en leggur til, að á 18. gr. l. verði gerð sú breyt., að á eftir orðunum „möskvastærð dragnóta“ komi: lengd dráttarlína. — Á síðari árum hafa komið umkvartanir um það frá ýmsum veiðibátum, hvað óhæfilega langar dráttarlínur hafi verið notaðar, jafnvel upp í 1800 faðma, svo að þeir geta dregið fyrir á fjörðum, þar sem það getur truflað göngu inn á firðina, en brtt. felur það í sér, að lengd dráttarlínanna megi ákveða með reglugerð.

Ég sé svo ekki ástæðu til að segja meira um þetta mál.