13.12.1939
Efri deild: 83. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 897 í B-deild Alþingistíðinda. (1738)

48. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Atvmrh. (Ólafur Thors) :

Það er misskilningur hjá hv. frsm. n., að ég hafi sagt, að vegna fjarveru hv. þm. Vestm. væri þingið ekki fært um að afgreiða þetta mál. Ég sagði, að ef menn, vegna skorts á þekkingu væru í vafa um, hvort ætti að afgreiða þetta mál, — eins og hv. frsm. sagði vera um sig —, þá skyldu menn frekar taka þann kost að bíða þess manns, sem þarna þarf að verja rétt kjósenda sinna, og láta þá ráðast að fresta málinu. En hv. þm. Vestm. er einn þeirra hv. dm., sem og hv. frsm. n., sem hefir gert sér far um að kynna sér sjávarútvegsmál. Hann hefir sagt eins og aðrir, að afarerfitt sé að ákveða, hvað af landhelginni eigi að opna fyrir dragnótaveiðar, en við erum sammála um, að það væri gott að loka landhelginni alveg fyrir þeim, en ekki þótt fært að ganga svo á þarfir landsmanna. Ég sagði, að ef menn væru í vafa um réttlætið í þessum efnum, þá mætti um það taka til greina þann mann, sem nú er fjarverandi, og ekki getur við notið á þinginu vegna þess, að hann dvelur erlendis í þjónustu ríkisins. Hv. frsm. n. lýsti sig akorta þekkingu á þessum efnum.

Út af ummælum hæstv. fjmrh og háttv. frsm. n. um bannið í niðurlagi frv., þá hafði hæstv. ráðherra eðlileg rök að mæla, en það raskar þó ekki þeirri staðreynd, að með því verður Dönum bægt frá því að vera hér. Það eru Danir, sem verða fyrir því, ef ákvæðið verður samþ., því að ég heyri það sagt af kunnugum mönnum, að ekki muni vera nokkur íslenzkur bátur, er láti sér detta í hug að stunda þessar veiðar úr Reykjavík. Því þá að vera með þessa smámunasemi? Og þótt íslenzkir bátar ættu hér jafnan hlut að máli sem danskir, þá vildi ég samt heldur troða í bág við okkar eigin hagsmuni en að sambandsþjóð okkar fengi ástæðu til að láta sér finnast, að við brjótum lög á henni. En við brjótum lög á henni, við. brjótum 6. gr. sambandslaganna, ef við samþ. ákvæði þessa frv. Hitt er annað mál, að ég hefi jafnan talið 6. gr. sambandslaganna mjög varhugaverða. Ég hefi jafnan álitið það hættulegt, að 30 sinnum fjölmennari þjóð en Íslendingar hefðu jafnan rétt til atvinnurekstrar hér á landi sem landsmenn sjálfir. En þetta eru lög nú sem stendur, og þeim verður ekki haggað þessa stundina. Og því tel ég það ekki eftirbreytnisvert að ganga fast fram gagnvart Dönum rétt áður en sambandslögin ganga úr gildi. Ég tel það óhyggilegt að ganga á rétt Dana og samþ. lagaákvæði, sem eru til að bægja Dönum frá atvinnurekstri hér við land, sem þeim er heimilað að lögum.

Hv. frsm. talaði um það, að menn í Danmörku væru ekki á einu máli um gagnsemi þessara veiða Dana hér við land. En því vil ég svara, að mig varðar ekkert um, hvort danskir sjómenn vilji þetta eða hitt, hvort þessi veiði eða önnur borgi sig betur fyrir þá, hvort þeir fullnægi þeim kvótaskilyrðum, sem sett hafa verið á sölu fiskjar þeirra í Englandi, eða ekki. Afstaða mín er eingöngu sú, að við höldum virðingu okkar óskertri, að við höldum orð okkar rekistefnulaust, hiklaust og án eftirgangsmuna. Rök þau, er hæstv. fjmrh. og hv. frsm. hafa fært fram sínu máli til stuðnings, eru að vísu frambærileg, en raska í engu því, sem ég hefi sagt. Það er Íslendinga sjálfra vegna, en ekki Dana, að ég vil leyfa þeim að stunda þessar veiðar. Ég þjóna ekki dönskum mönnum eða dönskum yfirvöldum, heldur ber ég virðingu Íslendinga fyrir brjósti. Rök hæstv. fjmrh. og hv. frsm. liggja því fyrir utan þann ramma, sem ég hefi rætt málið á. Spursmálið er þetta: Hvort eiga Íslendingar að verða til þess að útiloka Dani frá veiðum við landið eða standa við gerða samninga?

Á hinn bóginn þykir mér málið ekki svo mikilvægt, að hv. Alþingi eyði miklum tíma í að ræða það. Ég er í vafa um það, hvort danskir bátar stundi veiðar hér við land í sumar. En ef tilhneiging kemur fram til að meina Dönum að neyta þess réttar, sem 6. gr. sambandslaganna heimilar þeim, þá álít ég, að slíkar skoðanir eigi að hverfa af Alþingi Íslendinga. Danir hafa til þessa ekki fært sér jafnréttisákvæði sambandslaganna í nyt að neinu ráði. Þeir hafa gert það í miklu minna mæli en aðrar þjóðir hefðu gert í þeirra sporum. Það er því enn minni ástæða til að liggja undir því ámæli, að við gerum ráðstafanir til að rýra rétt þeirra.