16.12.1939
Efri deild: 86. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 899 í B-deild Alþingistíðinda. (1743)

48. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Magnús Jónsson:

Þegar ég bar fram brtt. á þskj. 452, var mér ekki kunnugt um, að brtt. kæmi frá þessum þremur hv. þm. á þskj. 456. Mér sýnist við fljótlegan yfirlestur, að till. þeirra fari í þá átt að færa frv. í sama form og það upphaflega var, að bátar yfir 35 smál. hafi veiðileyfi frá 30. sept. til áramóta. Í sambandslaganefndinni var veiðileyfistíminn talinn ófullnægjandi, og mér datt því í hug að bæta úr öllu þessu með því, að atvmrh. yrði veitt heimild til, þegar sérstaklega stæði á, að veita bátum yfir 35 smál. veiðileyfi frá 1. sept. til áramóta.

Till. mín kemur heim við skoðanir hæstv. fjmrh. um að hafa heimild til að veita slíkum bátum veiðileyfi, ef ekkert mælir í móti því, eða neita þeim um það, ef of margir bátar stunda dragnótaveiðar. Till. mín kemur einnig heim við ummæli hv. 1. þm. S.-M, sem gengu út á, að ákvæði yrðu sett um það, að bátar, er hefðu upp úr síldveiðum, yrðu útilokaðir frá dragnótaveiðum. Ef bátar stunda ekki síldveiðar, þá getur ráðh. veitt þeim heimild til dragnótaveiða. Og ennfremur gerir till. mín okkur mögulegt að halda gerða samninga við sambandsþjóð okkar og veitir bátum hennar leyfi til að stunda þessar veiðar þann stutta tíma, sem eftir er unz þessum samningum verður breytt. Ég held því, að ég hafi fundið púðrið í þessu máli, og vil mæla með brtt. minni. Mér finnst hún vera radikalari en hin brtt., og ætti því kannske að koma fyrst til atkv., en auðvitað ræður hæstv. forseti því.