27.03.1939
Neðri deild: 27. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í B-deild Alþingistíðinda. (177)

28. mál, dýralæknar

*Frsm. (Bjarni Ásgeirsson) :

Nefndin hefir fengið til meðferðar tvö frv. um breyt. á l. um dýralækna. Annað frv. var frá hv. þm. N.-Ísf., og er það eingöngu um að fjölga dýralæknum um einn, en honum átti að bæta við í Vestfirðingafjórðungi. Var hugsunin sú, að hann hefði aðsetur á Ísafirði. Hitt frv. er frá hv. þm. Ak., og liggur það hér fyrir til umr. Þetta frv. felur að öllu leyti í sér það efni, sem var í frv. hv. þm. N.-Ísf., en auk þess eru þar ákvæði um nokkur fleiri atriði, svo sem um það, að samin skuli verða gjaldskrá fyrir dýralækna til að fara eftir o. fl. Að þessu athuguðu hefir nefndin talið rétt að fara þá leið, að taka þetta frv. fyrst til meðferðar og sjá afdrif þess, en ef þetta frv. nær fram að ganga, þá er frv. hv. þm. N.-Ísf. þar með afgr. N. mælir öll með því, að frv. verði samþ., en 2 þm., þeir hv. þm. Borgf. og hv. þm. A.-Húnv., hafa gert ágreining um eitt atriði þess, sem sé þann, að dýralæknunum verði fjölgað.

Það, sem olli því, að meiri hl. n. vildi mæla með því, að frv. yrði samþ. óbreytt, er það, hvað Vestfirðingafjórðungur er afskorinn frá öðrum hlutum landsins og að þar með er útilokað fyrir þennan landshluta að vera aðnjótandi hjálpar þeirra dýralækna, sem þegar eru starfandi hér á landi. Einnig er það vitað, að mjólkurframleiðsla hefir upp á síðkastið farið mjög í vöxt í kringum Ísafjörð, og er það veigamikil röksemd fyrir því, að nauðsyn er, að dýralæknir sé þarna starfandi. Nefndin hefir því ekki séð sér fært annað en mæla með því, að frv. verði samþ. Enda er það svo, að þótt þetta virðist í fljótu bragði vera talsverður kostnaðarauki fyrir ríkissjóð, þá er það ekki eins mikið og ætla mætti fljótt á litið. Það eru nú þegar greidd nokkur laun fyrir dýralækningar á Vestfjörðum til ólærðra manna, en það mundi auðvitað leggjast niður um leið og þangað kæmi lærður dýralæknir.

Ég skal að lokum geta þess, að mál þetta lá fyrir búnaðarþingi, og það mælti eindregið með því, að frv. um fjölgun dýralækna næði fram að ganga.