21.12.1939
Efri deild: 90. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 907 í B-deild Alþingistíðinda. (1795)

77. mál, berklavarnalög

*Frsm. (Ingvar Pálmason) ; Þetta frv. er komið frá hv. Nd. og er samið af landlækni, í samráði við berklalækna landsins, og vil ég geta þess, að þær breyt., sem frv. gerir á gildandi l. um berklavarnir, eru að miklu leyti aðeins staðfesting á því, sem þegar hefir verið framkvæmt og reynslan hefir sýnt, að nauðsynlegt var að framkvæma. Að vísu eru hér nokkur ákvæði, sem ekki hafa ennþá verið tekin til framkvæmda, en þau eru þó öll í beinu framhaldi af þeirri þróun, sem orðið hefir í þessum málum að undanförnu.

Kostnaður sá, sem af þessu frv. leiðir fyrir ríkissjóð, er nálega enginn umfram það, sem fé er veitt til á fjárl. á hverjum tíma. Hinsvegar er því ekki að neita, að ef gert er ráð fyrir því, að ráðstafanir frv. eigi að koma að fullum notum, verða nokkur framlög nauðsynleg, þó ekki mikil. Má ef til vill benda á eitt atriði, ákvæði síðari málsgr. 14. gr., sem er til að auka útgjöldin. Það hefir verið svo ákveðið í l., að ef starfandi ljósmóðir sýkist af berklum, þá skal hún halda launum sínum, en í frv. hefir verið bætt því ákvæði, að sömu kjara skuli hjúkrunarkonur njóta. Er þetta sanngjarnt atriði, og held ég, að í því felist eina útgjaldaaukningin. Frá leikmannssjónarmiði sýnist þessi breyting á l. vera mjög til bóta, sérstaklega að því er snertir það að koma í veg fyrir smitun. Munurinn á þessu frv. og núgildandi l. er aðallega sá, að hér er lögð mest áherzlan á varnirnar, en í l. er lögð aðaláherzlan á lækningar. Þar með er þó hvergi dregið úr gildi núverandi lagaákvæða um lækningar.

N. mælir með því, að frv. verði samþ. eins og það liggur hér fyrir.