25.11.1939
Efri deild: 69. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 925 í B-deild Alþingistíðinda. (1873)

130. mál, lögreglumenn

Brynjólfur Bjarnason:

Ég vil byrja á því að biðja hæstv. forsrh. um að standa við orð sín gagnvart þessari fregn, sem hann sagðist hafa hlustað á frá Moskva.

Ég lagði áherzlu á það í ræðu minni áðan, að reyna að skýra það frá eigin sjónarmiði, hver væri ástæðan að þeim stórfelldu breytingum, sem hér er farið fram á með l. um lögreglumenn. Ég kom með mínar skýringar, og ég held, að þær hafi verið réttar. Aftur á móti gaf hæstv. forsrh. enga skýringu á þeirri nauðsyn. Jú, hann var að tala um það, að á ófriðartímum væri nauðsynlegt að vernda okkar hlutleysi.

Þá fór hann að rifja upp fyrir sér atferli nazista, þegar þeir réðust á menn á götunni og þar fram eftir götunum. Ég vil nú spyrja, í fyrsta lagi: Er lögreglan hér í bænum ekki nægilega öflug til þess að geta verndað menn fyrir árásum, hvort sem er á nótt eða degi? Í öðru lagi, ef lögreglan þarf aðstoð, er þá ekki nægileg heimild til þess í núgildandi l.? Svo er annað aðalatriðið. Þessir uppvöðslumenn, nazistaunglingarnir, sem hæstv. forsrh. var að tala um, eru ekki lengur til. Þetta á sér ekki lengur stað, –það er gersamlega horfið.

Svo er hæstv. forsrh. að nefna þetta sem rök fyrir því, að nú, vegna breyttrar aðstöðu, þurfi að auka lögregluna. Hæstv. forsrh. byrjaði ræðu sína á því að segja, að hér væri í raun og veru ekki um neina breyt. að ræða, eins og nú stæðu sakir, því að það væri svo um hnútana búið, að í gildi væru l. um lögreglumenn, svo hægt væri að auka varalögreglu ótakmarkað. Ég vil spyrja, hvaða þörf er þá á þessum breytingum, sem hér eru gerðari Í fyrsta lagi: Eins og hann tók fram, þarf nú samþykki bæjarstj. til slíkra aðgerða, en með þessum lagabreyt. fær dómsmrh. einræðisvald í þessum málum. Í öðru lagi verður bærinn að greiða 3/4 hluta þess kostnaðar, sem af aukningunni leiðir. Það er augljóst mál, að fyrir bæjarfélögin er ekki alllítil tálmun í vegi að leggja í kostnað, nema brýna nauðsyn beri til. Það er augljóst mál, að það á að nota lögregluna gegn fólkinu, án þess að fá þar til samþykki bæjarstj. Ef hæstv. forsrh. vill t. d. ná sér niðri á íbúum Siglufjarðar, mundi það verða örðugt fyrir hann eftir núgildandi löggjöf, vegna þess að til þess þarf samþykki bæjarstj., að lögreglan væri aukin eins og hann þættist þurfa á að halda. Þá sagði hæstv. forsrh., að þegar rætt hefði verið um varalögreglu árið 1925, þá hefðu verið tíðar kaupdeilur, og flm. þess frv. hefðu sérstaklega bent á þessar kaupdeilur sem nauðsyn til þess að löggjöf yrði sett. Þetta er algerlega rangt. Þegar umr. fóru fram um það frv., var því andmælt af flm., að það ætti að nota lögregluna gegn verkalýðnum. En andmælendur frv. héldu því fram, að einmitt þetta væri tilgangur þess, alveg eins og nú. Flm. frv. dirfast ekki að segja til um það, hvernig eigi að nota þetta lið. Þeir dirfðust ekki að segja til þess 1925, og ekki heldur nú. Nú er það Framsfl. og forsrh. hans, Hermann Jónasson, sem nú er kominn í föt forsrh. íhaldsins frá 1925. Hann sagði, að það hefðu þá verið viðkvæmir tímar. Vissulega er það ekki síður nú. Það er skemmst að minnast Hafnarfjarðardeilunnar, þegar hann sjálfur gerði tilraun til að safna liði móti verkalýðnum. Það má geta sér þess til, að þessari hugmynd hafi þá þegar skotið upp hjá hæstv. forsrh., að fá lagaheimild til að bæla niður allan mótþróa í slíkum tilfellum.

Hæstv. forsrh. var að tala um það, að ekki væri mikið um kaupdeilur nú. Af hverju stafar það? Það stafar af því, að það er bannað með l. að hækka kaup verkalýðsins. Hæstv. forsrh. veit það flestum betur, hvers má vænta á þeim tímum, sem nú fara í hönd. Hann veit vel, að hið raunverulega kaupgjald er að lækka svo stórkostlega, að það er að verða óbærilegt að lifa í landinu fyrir mikinn hluta landsmanna; það þýða ekki nein samtök, kauphækkun er bönnuð af ríkisvaldinu. Undir slíkum kringumstæðum veit hann, að hætta er á því, að risið verði upp á móti þessum þvingunum, þrátt fyrir öll þessi l. Þess vegna þykir nauðsynlegt að fá heimild til að beita lögregluvaldi.

Þá kem ég að þeim staðhæfingum hæstv. forsrh., að trygging væri fyrir því, að þetta lið yrði ekki notað í kaupdeilum. Ég hefi sýnt fram á það, að slíkt lið yrði notað í öllum svokölluðum ólöglegum kaupdeilum. Þegar óbærilegt verður að lifa í landinu vegna dýrtíðar og samtök verkamanna vilja ekki við það una og reyna að bjarga sér, þá er heimilt að beita lögreglunni, og það á að gera, viðurkennir hæstv. forsrh., og er sérstaklega á það bent. Þá kemur að þeim takmörkunum í l., sem eiga að vera sett fyrir því, að lögreglunni sé beitt, — en hvers virði eru þær takmarkanir? Í fyrsta lagi er það vinnulöggjöfin. Samkv. ákvæðum hennar eru verkföll ekki lögleg, nema samkvæmt úrskurði félagsdóms. Og þeir menn, sem sæti eiga í þeim dómstóli, sem með þessi mál fer, þora sig hvergi að hreyfa af ótta við „eilíft frí“, og því er treyst, að þeir dæmi þar af leiðandi eftir því, sem valdhöfunum þóknast. Þessir dómstólar verða látnir skera úr því, hvenær leyfilegt er að beita lögreglunni gegn verkamönnum. Er nokkur trygging fyrir því, að dómsmrh. myndi ekki nota lögregluna eins og honum sýndist, enda þótt verkfall sé tvímælalaust löglegt? Engan veginn. Í l. frá 19. júní 1937 segir í 4. gr., að ekki megi nota lögregluna til annara afskipta en til að afstýra meiðslum og vandræðum. En hver er það, sem má fyrirskipa lögreglunni að halda uppi friði? Er það ekki sjálfur dómsmrh.? Verkalýðurinn hefir ekki neina tryggingu fyrir því, að lögreglunni verði ekki beitt í öllum kaupdeilum, sem upp kunna að rísa og eru valdhöfunum móti skapi.

Ég held, að ég hafi með þessum orðum allnægilega hrakið þær röksemdir, sem hæstv. forsrh. reyndi að bera fram í máli sínu, og læt þetta nægja í bili.