12.12.1939
Efri deild: 82. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 930 í B-deild Alþingistíðinda. (1881)

130. mál, lögreglumenn

*Magnús Gíslason:

Eins og hv. frsm. tók fram, fór það svo, að mér vannst ekki tími til að mynda mér til hlítar skoðun á brtt. á þskj. 417, áður en meiri hl. óskaði að bera þær fram. En frv. sjálft höfðum við rætt á mörgum fundum og vorum því allir fylgjandi í aðalatriðum. Um það, hvort lögreglan hafi verið eða sé nógu öflug, hvort framkvæmdarvald þessa lands eigi þar nægan styrk að baki sér, hefir talsvert verið deilt og stundum staðið styr um. En það er alviðurkennt, að ekkert þjóðfélag getur talið sig réttarríki án þess að hafa svo sterkt framkvæmdarvald, að það geti haldið uppi lögum í landinu, og að það sé stórhættulegt að vanrækja þau mál. Önnur ríki hafa her að grípa til, ef nauðsyn krefur. Hér er ekki aðeins herlaust, heldur er hér hlutfallslega færra af lögreglumönnum en með öllum nálægum þjóðum. Það er því ekki að ófyrirsynju, sem nú er stofnað til fjölgunar á þeim.

Brtt. á þskj. 417 get ég að vísu ekki talið stórvægilegar. Aðalbreytingin er að takmarka svo viðbót lögregluliðs, að útgjöld hennar vegna nemi ekki meira en ¼ kostnaðar af hinu reglulega lögregluliði. Ég tel þetta ekki heppilegt ákvæði, því að það getur hæglega komið fyrir, að hlutaðeigandi ráðh. þurfi að ganga lengra, þurfi að fá meira lið og meira fé til þess að tryggja rétt og reglu í landinu. Mér skildist hv. frsm. viðurkenna þetta og að ríkissjóður hlyti þá að greiða það, sem með þyrfti. Þá er slíkt ákvæði tilgangslaust; tíminn einn verður að skera úr því, hve mikið fé verður að nota á hverjum tíma. — 2. brtt., um að í staðinn fyrir „laun“ komi „þóknun“ til varalögreglumanna, skiptir e. t. v. ekki máli efnislega, en málvenja og réttara er að kalla slíkt laun, en ekki þóknun, þegar um fast starf er að ræða. — Þá er 3. brtt. um að fella niður ákvæðið, að ráðh. sé heimilt að leggja lögreglunni til nauðsynlegan útbúnað, en aftur tekið fram, að í reglugerð um framkvæmd laganna megi ráðh. setja nánari ákvæði. Nú er það svo sjálfsagt mál, að án útbúnaðar getur lögreglan ekki starfað og í reglugerð yrði að taka þetta ákvæði upp, að brtt. er tilgangslaus og á þá varla rétt á sér. Eins er um það, að fella niður, að ráðh. setji reglur um réttindi og skyldur lögreglumanna. Þeim verður vitanlega að setja erindisbréf. Loks er 4. brtt., um að fella 4. gr. niður. Það er ljóst af eðli málsins og viðurkennt af öllum, sem um það hafa talað, að kostnaður hljóti að greiðast úr ríkissjóði. Það á því að standa beint í lögunum. — Ég get verið samþykkur hv. meðnm. mínum um það, að frv. eigi að samþ., en ekki hitt, að brtt. séu til bóta, eins og málið liggur nú fyrir.