12.12.1939
Efri deild: 82. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 932 í B-deild Alþingistíðinda. (1883)

130. mál, lögreglumenn

*Brynjólfur Bjarnason:

Ég vildi byrja á því að gera þá fyrirspurn til hv. allshn., hvort hún væri sömu skoðunar og hæstv. ráðh., að það hefði engin áhrif á l., þó síðari málsgr. b-liðs falli burt, sem hljóðar á þá leið, að ráðh. sé heimilt að leggja lögreglunni til ákveðinn útbúnað, og ef n. er þeirrar skoðunar, að það hafi engin áhrif, hvort þetta stendur í frv. eða ekki, hver sé þá tilgangur meiri hl. n. með því að gera þessa brtt., að láta þessi orð falla niður. Eftir því, sem hæstv. ráðh. hefir nú sagt, þá er það augljóst, að það er rétt hjá honum, að það er nákvæmlega sama í praksis, hvort þessi brtt. n. verður samþ. eða ekki, þar sem hann hefir lýst því yfir, að hann muni alls ekki fara eftir henni.

Það var annars furðuleg ræða, sem hæstv. ráðh. hélt. Hann lýsti því yfir, að það væri alveg nákvæmlega sama, hvað l. segðu, hann færi ekki eftir þeim. Þetta er nauðsynlegt, hvað sem l. segja, segir hæstv. ráðh., og ég ákveð sjálfur, hvaða útbúnað lögreglan skuli hafa. Ég ákveð líka sjálfur, hvað mikinn kostnað skuli í þetta leggja. Ennfremur sagði hæstv. ráðh.: Það hefir engin áhrif á mig, hvort þessi takmörkun, sem n. leggur til, að verði á kostnaðinum við aukningu lögreglunnar, verður samþ. eða ekki. Ég fer ekki eftir henni, þó l. mæli svo fyrir, að kostnaðurinn megi ekki fara fram úr því, sem l. ákveða. — Þetta voru orð hæstv. ráðh. um þessi aðalatriði í till. n.

Þriðja atriðið, sem hæstv. ráðh. kom inn á, var það, að í núgildandi l. stendur, að ráðh. geti, að fengnum till. bæjarstjórna, aukið lögregluliðið. Hæstv. ráðh. sagði, að það skipti engu máli, hvort þarna stæði að fengnum till. eða ekki, vegna þess, að hann færi yfirleitt ekkert eftir till., svo framarlega, sem þær væru á annan veg en hann áliti nauðsynlegt. Hann nefndi dæmi um það, að hann hefði ekki gert það í sinum embættisrekstri. Hæstv. ráðh. er hér að stæra sig af því, að hann fari ekki eftir l. Og hann lýsir því yfir, að hann muni ekki fara eftir þeim framvegis.

Það er alveg ástæðulaust að vera aftur að fara inn á allan þennan bægslagang hæstv. ráðh. út af því, að fólkið í landinu vill ekki, að honum sé gefin heimild til þess að auka kostnaðinn við lögregluliðið takmarkalaust og fá einræðisvald yfir henni. Það er ekki einungis ástæðulaust á þessum tímum, heldur er það beinlínis hnefahögg framan í almenning í landinu, að gefið sé slíkt leyfi til að auka lögregluliðið, þegar nauðsynlegt er, að allra ráða sé neytt til þess að hjálpa almenningi út úr þeim þrengingum, sem fyrirsjáanlegar eru á þessum erfiðleika tímum. En út í það ætla ég ekki að fara lengra.

Hæstv. ráðh. hefir ekki komið með eina einustu frambærilega ástæðu fyrir því, að nauðsynlegt sé að setja slíka lögreglu. Hann hefir ekki komið með eina einustu ástæðu fyrir því, að lögreglulið það, sem fyrir hendi er, sé ekki nægilegt til þess að halda uppi öryggi í landinu. Hann hefir ekki komið með eina ástæðu fyrir því, að tímarnir væru svo breyttir, að þeir gerðu það nauðsynlegt, að slík breyt. verði gerð á lögreglunni og honum gefið slíkt einræðisvald, sem hér er farið fram á.