16.12.1939
Neðri deild: 85. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 934 í B-deild Alþingistíðinda. (1893)

130. mál, lögreglumenn

*Einar Olgeirsson:

Ég hafði búizt við því, að hæstv. dómsmrh. myndi hafa hér framsögu þegar frv. þetta væri flutt í Nd., en þar sem sýnt er, að það muni ekki verða, hygg ég, að þm. verði sjálfir að rekja málið. Fyrir þá hv. þm., sem vilja um þetta mál hugsa, þarf ekki að leiða að því mörg rök, hvert stefnir með því.

Með frv. er stefnt að því, að gefa dómsmrh. meira vald yfir mönnum og fé en nokkur einstakur maður hefir haft hér á landi. Samkv. því hefir dómsmrh. rétt til þess að fjölga lögreglumönnum — þótt í frv. sé það nefnt varalögregla — eins og honum þóknast; hann getur útnefnt lögreglumenn þar, sem þeir hafa ekki verið áður, hann má flytja lögregluliðið til á landinu eftir vild sinni, hann ákveður útbúnað þessarar lögreglu, og í síðasta lagi má hann verja til þessa fé úr ríkissjóði svo að segja ótakmarkað. Að vísu hefir sú breyt. verið gerð á frv. í Ed., að kostnaður megi ekki vera hærri en sem nemur 1/3 af kostnaði við hina reglulegu lögreglu, en hinsvegar hefir hæstv. dómsmrh. lýst yfir því, að hann muni ekki að neinu leyti taka tillit til þessa ákvæðis, en verja til þessa fé ríkissjóðs eins og honum þóknist. Hann hefir ennfremur lýst yfir því í Ed., að hann muni ekki taka tillit til þeirra breytinga, er gerðar kunni að verða á l., heldur muni hann útbúa lögregluna eins og honum þóknist, hvað sem Alþ. kynni að samþ. í því efni. Er því auðséð, á hvern hátt ráðh. býst til að nota þetta vald, sem honum er fengið í hendur með frv. Með frv. virðist að því stefnt að gera einn mann hér að nokkurskonar einræðisherra, sem hefir vald til þess að auka lögregluna að eigin geðþótta, vald til þess að útbúa hana hverjum þeim tækjum, er honum þóknast, — og er þá ekki einnig hætta á, að þetta vald kunni að verða misnotað?

Með því að ég sé, að deildin er svo velskipuð, að hægt er að ræða við menn af skynsemi um þetta mál, þar sem flest það lið, er ekki tekur á móti rökum, er farið út, vil ég rekja málið ýtarlega og deilur þær, er orðið hafa í sambandi við það áður. — Það er þó ekki sérstök þörf að fara inn á umr. um varalögreglu á Alþ. 1925, þar sem hv. 1. landsk. (BrB) hefir gert það mjög ýtarlega í Ed., er frv. var þar til umr. En í því sambandi kom greinilega í ljós afstaða Framsfl. og Alþfl., sem frá upphafi voru mótfallnir slíkri varalögreglu. En eftir að þessi tilraun mistókst 1925, að efla vald burgeisastéttarinnar með varalögreglu, er beita mætti gegn verkalýðnum í vinnudeilum, tókst sameinaðri ríkisstjórn framsóknar og íhalds árið 1932, þegar kreppan var hvað tilfinnanlegust, að koma á varalögreglu, og þessi varalögregla kostaði, svo sem menn muna, á einu ári um 400 þús. kr.

Þetta þótti þá af hinum. svokölluðu vinstri flokkum í landinu ósvífni í garð Alþingis, og hæstv. núv. dómsmrh. (HermJ) afhjúpaði við síðustu kosningar gerræði, er þáv. dómsmrh. (ÓTh) ætlaði að hafa í frammi, sem sé fyrirhugaða fangelsun helztu forvígismanna verkamanna í Reykjavík.

Fyrir kosningarnar 1934 var það eitt aðaláhugamál vinstri flokkanna, sérstaklega Alþfl., að fá varalögregluna afnumda, og í 4 ára áætluninni, sem gefin var út af Alþfl. og leggja átti til grundvallar, ef sá flokkur hefði aðstöðu til þess að hafa áhrif á ríkisstjórn, var eitt af atriðunum að fá varalögregluna afnumda. Vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa 36. gr. áætlunarinnar, og er hún svo hljóðandi: „Að afnema ríkislögregluna í vísu trausti þess, að unnt sé að stjórna þessari friðsömu þjóð með þeirri mannúð og því réttlæti, að úr engum deilum þurfi að skera með hernaði og ofbeldi.“

Þetta voru þá rök Alþfl. fyrir því, að afnema bæri varalögregluna; þau rök voru mjög rétt og standast enn í dag. Ég geng út frá því, að með flutningi þessa frv. á Alþingi hafi þeir, sem að því standa, og þá fyrst og fremst hæstv. dómsmrh., viðurkennt, að nú sé ekki lengur meiningin að stjórna þessari friðsömu þjóð með mannúð og réttlæti, og því þurfi nú að stofna ríkislögreglu. Enda er það auðséð á þeim lögum, sem samþ. hafa verið á síðustu þingum, og frumvörpum þeim, sem fyrir þessu þingi liggja, að meiningin er að þurrka út það, sem á undanförnum áratugum hefir komizt inn í íslenzku löggjöfina af mannúð og réttlæti. Þetta hafa valdhafarnir gert sér ljóst, og fyrir því þurfa þeir á ríkislögreglu að halda.

Ég ætla ekki að rekja í löngu máli það, sem gert hefir verið í þessu efni undanfarið; ég vil aðeins minna á, að búið er að svipta verkalýðinn á Íslandi rétti til þess að ráða kaupgjaldinu sjálfur, að búið er að draga stórkostlega úr því öryggi, sem sjómenn, er atvinnu hafa við siglingar, áttu að hafa, og að ráðgert er með nýju frv. að draga enn meira úr þessu öryggi. Á sama tíma hafa togaraeigendur, þessir voldugustu menn í landinu, verið gerðir skattfrjálsir eins og aðallinn í Frakklandi í gamla daga. Með lögum er nú stefnt að því, að innleiða sveitarflutninga á ný, en samtímis gera valdhafarnir ráðstafanir til þess að hindra alþýðu manna í því að skapa sér atvinnu, svo sem í bæjarfélagi, þar sem alþýðuflokksmenn eru í meiri hluta, þar sem bannað hefir verið að reisa verksmiðju til aukningar atvinnunni.

Þannig er lögum ríkisins beitt til þess að hindra alþýðuna í því að bjarga sér, svipta hana mannréttindum, og kúga hana svo, þegar búið er að svipta hana öllum bjargráðum, til þess að þola það, að menn séu fluttir eins og gripir hvert á land sem þriggja manna nefnd þóknast að vera láta, vinna hverja þá vinnu, er hún velur þeim, og fyrir hvaða kaupgjald, sem henni þóknast.

Það er því ekki nema eðlilegt, þegar svona frv. eins og „höggormurinn“, framfærslulögin og gengislögin eru fram komin, að ríkislögreglan komi á eftir.

Ég geri ekki ráð fyrir, að núv. þm. Alþfl. hafi rænu á því að taka til máls, og vil ég því minna á ummæli Haralds Guðmundssonar, er hann viðhafði, þegar flokkur hans dró ráðh. úr ríkisstj., — að ef svona ætti að halda áfram, yrðu valdhafarnir að koma upp ríkislögreglu. Nú hefir verið haldið áfram á þeirri sömu braut, sem gengið var inn á 20. mars 1938, þegar gerðardómur í sjómannadeilum var barinn í gegn, og rökrétt afleiðing af því er framkoma þessa frv. Það er fram komið vegna þess, að valdaklíkan óttast um álit sitt hjá þjóðinni, vegna þess að hún hefir svikið allt, er hún lofaði henni við síðustu kosningar, og þorir ekki að leggja málin undir dóm þjóðarinnar. Þessi valdaklíka, sem veit á sig sökina, gripur nú til ofbeldis til þess að halda völdum. Enda er þetta auðséð, þar sem dómsmrh. gengur út frá að misnota það vald, sem honum væri fengið, ef frv. yrði að lögum, þar sem hann hefir lýst yfir því, að hann myndi beita ákvæðum þess eins og honum þóknast. Það eru líka hæg heimatökin fyrir hann að fara að dæmi annars ráðh., er með honum situr í stj., að gefa út bráðabirgðalög til þess að geta beitt ofbeldi. Það er ekki nóg, að mannúð og réttlæti eigi að víkja úr íslenzkri löggjöf, að svo miklu leyti sem það hefir verið þar til. Í 4 ára áætlun Alþfl. er tekið fram, að það ætti að vera hægt að stjórna þessari friðsömu þjóð. Á þeim tímum bar á nokkrum óróa, og skarst þá í odda milli hinni kúguðu stétta þjóðfél. og valdhafanna. Nú hefir hinsvegar að undanförnu verið alveg sérstaklega rólegt og ekki komið til neinna átaka, sem jafnast á við þá baráttu, sem var 1932, 1933 og 1934. Þess vegna er engin átylla til fyrir þá menn, sem flytja þetta frv., lík þeirri, sem burgeisastéttin kom með 1933. Nú geta þeir menn, sem með þessu frv. standa, ekki fært neitt annað fram en það, að þeir ætli sér að fremja ódæðisverk gagnvart íslenzkri alþýðu — sem sagt, það á að byrgja brunninn áður en barnið er dottið niður í hann. Um leið og samúðin er þurrkuð burtu á að stofna til ódæðisverka og tryggja ríkisstj., að hún geti undirbúið sig þannig, að henni sé fært að brjóta á bak aftur, með hvaða tækjum, sem þykir við þurfa, þó það séu byssur eða eiturgas eða annað slíkt, hvaða mótspyrnu, sem kynni að koma frá íslenzkri alþýðu. Það er þess vegna vitanlegt, að með þessu frv. er beinlínis stefnt að því, að koma á hér á landi meira einræðisvaldi heldur en hér hefir þekkzt frá því Danakonungar fóru hér með völd.

Það hafa verið flutt hér á Alþingi frv. um að bæta kjör alþýðunnar, en þau hafa venjulega verið svæfð í n. strax og þau komu þangað, og ef þau hafa komizt lengra, þá hafa þau mætt þeirri mótbáru, að engir peningar væru til til þess að gera svona lagað fyrir fólkið, eins og farið er fram á í slíkum frv. Þegar hinsvegar þetta frv. um aukningu lögreglunnar er flutt, er ekki einn einasti þm., að undanteknum sósíalistum, sem malda í móinn um það, að hér sé verið að ausa fé ríkissjóðs takmarkalaust. Enginn talar á móti slíku, — ekki einu sinni þeir, sem vilja spara, hreyfa legg eða lið, hvað þá opna munninn, þegar farið er fram á það, að dómsmrh. fari með fé ríkisins eins og honum þóknast, til þess að undirbúa lögregluna eins og hann vill og fjölga henni eins og honum þóknast. Svo bundnir eru flestir þm. orðnir á klafa þeirrar ríkisstj., sem nú situr við völd, að þeir þora ekki á móti að mæla, af ótta við það, að dómsmrh. fari sínu fram, hvað sem þingið samþ., og þessir menn, sem svona standa í stöðu sinni, þykjast vera að halda uppi lýðræðinu í landinu. Það er þess vegna auðséð, að með þessu frv. er stefnt að því, að gera ofbeldistækin nægilega sterk til þess, að hægt sé að meðhöndla alþýðuna eins og þá langar til. Í þessu frv. kemur fram hin slæma samvizka þjóðstj., þeirrar stj. sem veit, að hún hefir svikizt að þjóðinni og notað það vald, sem henni er gefið, til þess að rýja þau réttindi af þjóðinni, sem hún hefir haft.

Þjóðstj. er nú að vakna til meðvitundar um rað, að það er svo mikið manntak í íslenzku þjóðinni, að hún ætlar ekki að þola slíkt óréttlæti. Þess vegna á nú að útbúa ríkislögreglu, og hún er sprottin af hinni slæmu samvizku þeirra manna, sem beita sér móti vilja þjóðarinnar og ætla að kúga hana með ofbeldi.