22.12.1939
Neðri deild: 90. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 942 í B-deild Alþingistíðinda. (1902)

130. mál, lögreglumenn

*Einar Olgeirsson:

Ég ætla aðeins að lýsa eftir því við þessa umr., hvort nokkur hv. þm. hefir nokkur rök fram að færa fyrir því, að þetta mál sé nauðsynlegt, eða hvort nokkur vildi sýna fram á, hvað það væri, eins og nú er ástatt í þjóðfélaginu, sem réttlætti það, að fjárveitinga valdið sé að miklu leyti afhent einum manni í ríkisstj. og stofnað til þeirra vandræða, sem fyrirsjáanlegt er, að þetta mál muni leiða af sér. Þetta mál hefir verið pískað gegnum allar umr. hér í hv. d. með afbrigðum, án þess að nokkur hv. þm. hafi treyst sér til að mæla með því á nokkurn hátt. Ég vil því enn skora á þá hv. þm., sem ætla sér að samþ. þetta frv., að gert grein fyrir því, af hvaða ástæðum þeir gera það.