22.12.1939
Neðri deild: 90. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 947 í B-deild Alþingistíðinda. (1907)

130. mál, lögreglumenn

*Einar Olgeirsson:

Hafi það verið tilgangur hæstv. dómsmrh. að færa rök fyrir sínum málstað í síðustu ræðum sínum, þá hefir það alveg mistekizt. Hann sagði, að menn hefðu aldrei neyðzt til að grípa til þeirra ákvæða, sem þegar væru í l. um lögreglu. Hvers vegna er þá nauðsynlegt að bera fram þessar till. hér, ef svo miklar heimildir eru til í núgildandi l., og menn hafa aldrei neyðzt til að grípa til þeirra? Hæstv. dómsmrh. komst í ákveðna andstöðu við sjálfan sig, þegar hann sagði fyrst, að dómsmrh. hefði haft svo mikið vald, að hann hefði aldrei þurft að nota það, en svo segir hann seinna, að þetta vald sé ekki nóg. Svo segir hæstv. ráðh., að vald hans hafi alls ekki verið aukið með þessum l. Ég vil spyrja hæstv. dómsmrh., hvort valdsvið dómsmrh. sé ekki aukið með því ákvæði þessa frv., þar sem dómsmrh. getur samkv. því aukið lögregluliðið án þess að spyrja bæjarstjórnirnar nokkuð að því? Hvers vegna er verið að koma með þessar till., ef ekki til þess, að koma undir vald ráðh. allri lögreglu í öllum bæjum á Íslandi, svo hann geti aukið hana án þess að spyrja bæjarstjórnirnar nokkuð um það? Það er beinlínis verið að auka vald ráðh. með þessu, en minnka vald bæjarstjórnanna.

Samkv. þessu frv. getur dómsmrh. flutt bæjalögregluna hvert á land sem hann vill, án þess að spyrja bæjarstjórn. Er það heldur ekki að auka vald ráðh.?

Er ekki með þessu frv. sett í l., að ráðh. einn skuli ákveða útbúnað lögreglunnar? Þótt ráðh. lýsi því yfir, að hann geti gert það nú með því að setja reglugerð, þá hefði það samt verið vald, sem hann hefði tekið sér í heimildarleysi, að setja slíka reglugerð, en nú á að lögfesta þetta. og er það beinlínis valdaaukning fyrir ráðh. Ef svo væri ekki, þá hefði hann ekkert átt að hafa á móti því, að þetta atriði væri fellt niður, en þegar till. kom um það í hv. Ed., þá brást hæstv. dómsmrh. reiður við og þótti sem væri verið að minnka hans vald.

Getur ráðh. ekki leyft sér að eyða meiru fé til lögreglunnar skv. þessu frv. en áður? Hann getur í fyrsta lagi aukið lögregluna eins og bann vill og skyldað ríkissjóð til að greiða af því allan kostnað. Hann getur líka skipað að flytja lögregluna hvert sem hann vill, án þess að spyrja bæjarstjórnirnar, og skyldað ríkissjóð til að greiða allan kostnað af þeim flutningum, og hann getur vopnað hana eins og honum þóknast. Það sjá allir, hvílík ráðþrot það eru hjá þeim mönnum, sem reyna að mæla þessu bót, og svo það, að hæstv. ráðh. skyldi viðurkenna, að skv. núgildandi l. sé honum veitt nægilegt vald til að halda uppi lögum og reglu, en svo segir hann líka, að ekki hafi verið aukið hans valdsvið með þessu frv.

Þegar verið var að deila um frv. um lögreglumenn 1933, þá hélt Framsfl. því fram, að hafa ætti bæjalögreglu, en Sjálfstfl. hélt því fram, að hafa ætti ríkislögreglu. Það, sem verið er að gera með frv. dómsmrh., er að breyta bæjalögreglunni í ríkislögreglu, færa það vald, sem bæjarstjórnirnar hafa haft samkv. núgildandi l. um lögreglumenn, yfir í hendur ríkisstj., og þá sérstaklega til dómsmrh., enda leggur hann slíkt ofurkapp á að fá frv. framgengt, eins og sézt af því, að meiri hl. þingsins fær ekki að láta álit sitt í ljós á frv. vegna þess, hvernig þeir eru handfjallaðir á bak við tjöldin. Hæstv. dómsmrh. hefir verið að reyna að breiða yfir, hvað verið er að gera þarna, en það er ekki annað en það, að Framsfl. beitir sér nú fyrir því, sem Sjálfstfl. hefir barizt fyrir í 15 ár hér á landi.

Það hefir áður komið fram hér í umr., að hæstv. dómsmrh. sagði, að ekki mætti beita lögreglunni í vinnudeilum. Ég vil benda á það, sem stendur í 4. gr. l., að það megi ekki beita lögreglunni til annars en að afstýra fjóni, vandræðum og meiðslum í vinnudeilum, en ég vil meina, að það sé nóg vald, sem þar er veitt, a. m. k. þegar það er í höndum manns, sem sýnir sig í að vilja halda eins strangt á sínu valdi og framfylgja því til hins ýtrasta, eins og núv. dómsmrh. Hann mun áreiðanlega ekki verða í vandræðum með að teygja 4. gr. svo, að hann geti komið lögreglunni þar við, sem honum þóknast.

Svo kemur hæstv. dómsmrh. með það, að það þurfi að vera eitthvert sterkara vald í landinu en honum er gefin heimild til að skapa með þessu frv., en hvorki hann eða aðrir hv. þm. hafa komið með nokkur rök fyrir því, að þessa sterkara valds sé hin minnsta þörf eða hafi verið nokkurn tíma áður.

Ég ætla að minna á og undirstrika það, sem Alþfl. lýsti yfir í 4 ára áætlun sinni 1934, að sú ríkisstjórn, sem ríkti með réttlæti, þyrfti ekki á því hernaðarofbeldi að halda, sem í ríkislögreglu fælist. Það sýnir sig nú, að það er vegna slæmrar samvizku ríkisstj., vegna þess að hún veit, að hún hefir svíkið þau loforð, sem hún hefir gefið þjóðinni, og hún veit, hvílík ólög hún er að leiða yfir þjóðina, — það er vegna þess, að hún veit, að hún hefir ekki stjórnað réttlátlega, sem hún kemur nú með ríkislögreglufrv., til að byrgja brunninn áður en barnið er dottið ofan í.

Ég hefi hér fyrir mér allálitlegan bunka af samþykktum, sem gerðar hafa verið í verklýðsfélögum víðsvegar um land til að mótmæla þessu frv. Ég ætla ekki að þreyta hv. þm. með því að lesa þær upp, en ég skora á þá, sem eru meðmælendur þessa frv., að athuga, hvort komið hefir ein einasta áskorun um að samþ. það, frá nokkrum fjöldasamtökum á Íslandi. Nei, það er einræðisvald dómsmrh., sem veldur því, að þetta frv. er fram komið og rekið í gegnum þingið á þann óviðfeldna hátt, sem gert er.

Viðvíkjandi því, sem hæstv. dómsmrh. lýsti yfir í einni ræðu sinni, að engin hætta væri á öðru en að hann færi eftir dómum, þá vildi ég minna á yfirlýsingu hans, sem hann gaf í hv. Ed. í umr. um þetta mál, þegar fyrst komu fram brtt. um að takmarka kostnaðinn af varalögreglunni, þannig, að hann mætti ekki verða meiri en 1/3 kostnaðarins af hinni reglulegu lögreglu. Þá lýsti hæstv. dómsmrh. því yfir, að hann myndi ekkert tillit taka til þess, þótt þessi brtt. yrði samþ. Hann mundi alls ekki breyta eftir þeim l., þótt Alþingi samþ. þau. Við 3. umr., þegar þessi brtt. var samþ., þá endurtók dómsmrh. þessa yfirlýsingu sína aftur, svo ég býst ekki við, að það séu margir menn í landinu. sem hafi mikið traust á, að dómsmrh., sem lýsir slíku yfir á Alþingi, muni breyta frekar eftir l. en honum þóknast, eða að hann fari þá mikið eftir dómum, sem ganga móti geðþótta hans.

Það liggur í augum uppi, að það, sem farið er fram á með þessu frv., er að auka vald dómsmrh. enda þótt hann sjálfur viðurkenni, að aldrei hafi verið þörf fyrir að beita því valdi, sem hann hefir nú. Samt heimtar hann, að valdið verði ekki einasta aukið, heldur eytt þeim hömlum, sem verið hafa á því fram að þessu, að því valdi yrði misbeitt, þær hömlur, sem bæjarstjórnirnar í landinu hafa getað sett á dómsmrh. með því að neita honum um að fjölga lögreglunni, og einnig með því að setja kostnaðinum engin takmörk. Ég held, að þá sé eins hyggilegt að breyta til um dómsmrh., en hafa ekki þann, sem lýst hefir því yfir, að hann muni ekki breyta eftir l. í þessu landi.

Það sýnir bezt skoðun þm. á þessu frv., að enginn einasti þm. utan stjórnarandstæðinga skuli hafa tekið til máls, ekki einu sinni til að reyna að verja það, að undanteknum dómsmrh., og sýnir það á hryggilegan hátt þá niðurníðslu, sem Alþingi er komið í fyrir spillinguna, sem er í núv. stjórnarflokkum, sem nú eru valdhafarnir í þjóðfélaginu. Vegna þess að þessi spilling viðgengst í óvilja allra landsmanna, þá hraða flokkarnir sér nú sem mest að skapa slíkt vald sem ríkislögregluna. Það er ekki, eins og hæstv. dómsmrh. hélt fram, stofnað til þess að vernda sjálfstæði landsins, heldur er með þessu stofnað í hættu því frelsi, sem landsmenn hafa notið fram að þessu. Það kemur glöggt fram af frv. Með því er mönnum, sem fara gerræðislega með valdið, veitt meira vald en nokkrum manni hefir verið gefið hér á landi, að undanteknum Danakonungum, meðan þeir voru hér einvaldir. Þetta er sannleikurinn um þetta mál.

Ég ætla ekki að sinni að orðlengja þetta frekar. Það er sýnt, ef ætti að dæma um það eftir þeim rökum, sem fram hafa komið í sambandi við þetta frv., hvaða afgreiðslu það ætti að hlíta, en vegna þess, að um þetta mál, eins og fleiri ill mál á þessu þingi, hefir verið samið bak við tjöldin, þá býst ég við, að það komi til með að fá sína afgreiðslu. Það verður til þess, að einstakir menn sölsa nú enn frekar undir sig völdin í þessu landi og til að auka á það gerræði, sem fólkið hefir orðið að búa við undanfarið, og breyta þessum málum yfir höfuð að öllu leyti til hins verra.