22.12.1939
Neðri deild: 90. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 950 í B-deild Alþingistíðinda. (1908)

130. mál, lögreglumenn

*Héðinn Valdimarsson:

Hæstv. dómsmrh. fór aftur með í þessari síðustu ræðu sinni nokkrar rangfærslur. Hann vill gera mér upp orð, sem ég hefi alls ekki sagt, sem sé, að hann myndi ekki fara eftir dómum félagsdóms. Það sagði ég ekki, en ég sagði, að hann mundi ekki þurfa þess, en að því valdi, sem hann hefði í sinni ríkislögreglu, mundi hann geta beitt áður en dómur gengi um það, hvort vinnudeila væri lögleg eða ekki. Það mundi hafa verið gert áður, t. d. í Hafnarfjarðardeilunni. Eftir þá yfirlýsingu, sem hæstv. dómsmrh. hefir gefið, þá mætti auðvitað bæta því við, að hann myndi ekki frekar fara eftir dómum félagsdóms en eftir landslögum, ef hann dæmdi ekki eftir vilja þeirra, sem fara með völdin.

Það er athugandi, hve mikið kapp er lagt á að setja þessi l. nú fyrir jólin, og sé ég ekki betur en að það sé í beinu sambandi við það, sem ég hefi áður skýrt frá. Með vinnul., sem dómsmrh. vísar alltaf til, að tryggi verkamönnum svo mikil réttindi, er yfirleitt mikill réttur tekinn af verkalýðsfélögunum í mörgum atriðum, og verkalýðsfélögin voru líka öll á móti þeim. Nú á að fara að gera greinarmun á löglegum og ólöglegum vinnudeilum, einmitt þegar gengisl. eru í gildi, sem banna verkalýðnum að reyna að hækka kaup sitt um lengri tíma. Nú þegar kaupgjaldshækkunin er ólögleg, er einmitt ágætt tækifæri fyrir hæstv. dómsmrh. að skakka leikinn eftir því, sem atvinnurekendurnir óska, en til þess þarf hann að hafa meira vald en hann hefir haft hingað til, og hann má ekki þurfa að sækja aukningu lögreglunnar undir þær bæjarstjórnir, sem hann hefir algerlega á móti sér. Því kemur þetta frv. nú, þegar til er sterkur þingmeirihluti, sem hefir þó lítið kjósendafylgi, enda er verkalýðurinn þessari ríkisstjórn og flokkum hennar sérstaklega andstæður vegna þeirra bragða, sem hún hefir beitt hann.

Það sýnir glögglega, hve slæma samvizku þeir menn hafa, sem standa að þessu frv., að enginn þeirra hefir tekið til máls nema hv. flm. og faðir þessa frv.