15.12.1939
Efri deild: 85. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 963 í B-deild Alþingistíðinda. (1924)

149. mál, héraðsskólar

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Hæstv. forseti óskaði eftir, að þessar umr. færu að styttast. Ég skal hafa mína ræðu frekar stutta. Ég hefi skrifað undir nál., sem fylgir þessu frv., með fyrirvara, en hefði þó getað geymt þann fyrirvara til 3. umr., ef ég hefði ekki orðið að taka afstöðu til brtt., sem hér liggja fyrir. Áður en ég kem inn á efni þessa frv., vil ég geta þess, að ég hygg, að það sé í öllum aðalatriðum gott mál. Mér finnst, sem ég sjái þar hinn gamla mann. (ÁJ: Hinn unga mann). Já, eins og hann var ungur átti ég við, því að þá var afstaða hans til ýmsra mála svipuð og þetta. Ég hygg, að með þessu frv. sé algerlega stefnt að því rétta marki, sem sé að auka verklega kennslu í alþýðuskólum, og að manna æskulýðinn til þess að meta vinnuna öllu meira en hann kannske gerir nú. Ef það tekst, að gera ungu kynslóðina vinnufúsa, þá er það mikil framför, og þá væri ekki til einskis barizt með þessum skólum. Minn fyrirvari var ekki viðvíkjandi efni þessa frv., heldur aðeins um einstök atriði, sem ég skal greina frá við 3. umr. Það er ýmislegt, sem ég tel, að mætti fetta fingur út í, út af reglugerðarákvæðum þessa frv., svo sem við 3. gr.

Ég skal leiða hjá mér þann ágreining, sem komið hefir upp milli meðnm. minna, og víkja orðum mínum að þessari brtt. Ég hefi lýst því yfir í n., að ég gæti fylgt ákvæði frv. um það, að 3/4 hlutar af stofnkostnaði skuli lagðir úr ríkissjóði, og byggði ég það á tvennu eða þrennu. Í fyrsta lagi á því, að reynsla er fengin fyrir því, að skólarnir eiga margir við fjárhagsörðugleika að stríða. Í öðru lagi byggi ég það á því, að ég tel, að fræðslustarfsemin eigi eftir sem áður að vera að mestu leyti kostuð af ríkinu, en sem minnstar byrðar eigi að leggja á einstaklinginn, og allra sízt eigi að auka þær byrðar, sem bændurnir hafa af skólum landsins, heldur eigi að jafna það misræmi, sem er á kostnaðinum við skólana í sveitunum, en hann bera bændurnir að nokkru leyti, en í kaupstöðum og kauptúnum eru skólarnir kostaðir af ríkis- eða bæjarsjóði. Það samræmi næst ekki að mínu áliti nema með því, að ríkið taki meiri þátt í starfrækslu skólanna en verið hefir.

Þá er ætlazt til hér, að haldið verði uppi fleiri námsdeildum en nú er ætlazt til af starfandi ríkisskólum hér í höfuðstaðnum og víðar. Ég skal játa, að farið er hér fram á aukin framlög úr ríkissjóði, en ég tel, að það réttlætist af því, sem áður er greint.

Frv. ætlast til þess, að aukið verði verklegt nám í skólunum, en það leiðir af sér, að auka styrk ríkissjóðs til að koma þeim húsakynnum upp. Ég get því ekki fallizt á till. frá hv. 9. landsk., þar sem hann vill láta minnka þennan styrk. Ég varð var við, að ágreiningur var innan n. um þetta atriði. Það má segja, að það sé að fara aftan að siðunum, þegar menn tala svo mikið um allskonar sparnað, en ég ætla að sýna með mínu atkv. í þessu máli, að ég er ekki með sparnaði, sem getur orðið til þess að draga úr því, að þjóðin komist til meiri þroska og mennta, því ég tel, að öll menning, hvort sem hún er bókleg eða verkleg, sé undirstaðan undir giftu þjóðarinnar.

Ég vil skjóta því til hv. flm. um leið og hann fær þessar undirtektir frá mér, að ég vona, að hann líti sömu augum á þetta og ég, og að hann telji rétt og skilji það, að ekki þarf síður að búa menn undir starf sitt og líf, þótt þeir búi við sjó. Ég hefi farið fram á það, svo ekki sé tekin ein stétt þjóðfélagsins fram yfir aðra, að byggður verði myndarlegur skóli fyrir sjómennina. Að vísu hefir hv. flm. ekki lagt á móti því máli, en hann hefir ekki heldur lagt því verulegt lið.

Ég þarf svo ekki að tala um þetta frekar. Ég tel, að frv. stefni til umbóta á fræðslunni í landinu, og mun ég, með nokkrum breytingum, verða því fylgjandi.