18.12.1939
Efri deild: 87. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 969 í B-deild Alþingistíðinda. (1930)

149. mál, héraðsskólar

*Frsm. (Jónas Jónsson):

Ég ætla að segja nokkur orð út af ræðu hv. síðasta ræðumanns. Hann hélt því fram, að það væri ósamkvæmni hjá mér að gera ráð fyrir því, að létt verði af héruðunum nokkru af þeim byrðum, sem lagðar voru á þau með héraðsskólal. 1929, en vera svo með því, vegna yfirstandandi ástands, að taka að ýmsu leyti öðruvísi á hlutunum en gert hefir verið. Við erum auðvitað báðir fylgjandi því, að byggðar séu stórar brýr, en þar koma ekki aðeins til sparnaðarástæður, heldur einnig efnislegar ástæður. Það er fjarstæða hjá hv. þm., að þó við getum ekki byggt mikið af húsum eða brúm, eða þó við verðum að hætta við hið fyrirhugaða skip Eimskipafélags Íslands, af því það er of dýrt að byggja skip, að þá höfum við ekki efni á að haga kennslu fyrir um 600 unglinga þannig, að hún samsvari kröfum þeim, sem landið og þjóðin gerir til þeirra.

Ég vil benda hv. þm. á, að ég hygg, að hann hafi fyrir nokkru samþ. hér í hv. d., að ríkið gangi í ábyrgð fyrir vanskilaskuldum milli sveitarfélaga. Ég vil segja hv. þm., að af glöggum mönnum er talið, að þetta geti orðið um 300 þús. kr. á ári. Ég get skilið afstöðu hv. þm. í þessu máli. Hann greiðir atkv. með þessu, ekki af því, að hann sé ekki sparnaðarmaður, heldur af því, að hann telur þetta nauðsynlegt. Mér finnst aftur á móti, að það ætti að vera tilvinnandi að leggja á sig einhverja byrði til þess, að 600 ungmenni, sem eru að byrja lífið, geti fengið hagnýta fræðslu, svo þau geti síðar starfað eins og þörf er á, til þess að geta verið sjálfbjarga lýður.

Þetta kemur einmitt inn á það svið, þar sem ég vil spara. Hv. þm. hefir verið með í því að gera merkilega tilraun viðvíkjandi framfærslumálunum, sem gerir það mögulegt, að menn, sem ekki vinna, en geta unnið, fái að vinna. Ég skal ekki segja, hvað úr þessu verður, en þetta er tilraun.

Ég vil, til þess að fyrirbyggja misskilning hjá hv. þm., segja honum, að héraðsskólafrv. er einmitt í samræmi við hina lífrænn stefnu, sem ég hygg, að ríkisstj. öll og meiri hl. þingsins vilji styðja, að leggja fé í gagnlegar framkvæmdir í landinn, en vera á móti eyðslu eins og kemur fram í því, að ríkið gangi í ábyrgð út af vanskilaskuldum vegna niðursetninga.

Ég vil minna hv. þm. á, ef honum er umhugað um að auka sparnaðinn, að fyrst voru veittar í jöfnunarsjóð 250 þús. kr., en svo var það aukið upp í 700 þús. kr. Ofan á það kemur svo þessi ábyrgð. Þetta er fé landsmanna. Þetta er kannske nauðsynleg fjárveiting, en hún er ekki ánægjuleg, því hún er í sambandi við vinnuleysi og það, að hlutirnir bera sig ekki.

Ég hygg, að það sé langt frá því, að með þessu frv. sé verið að styðja eyðslu. Hér er verið að gera þá stórfelldustu tilraun, sem gerð hefir verið á Alþ., til þess að búa æsku landsins í stórum undir þá lífsbaráttu, sem tímarnir krefjast af okkur.

Ég sýndi fram á það við 2. umr., hvaða ástæður lægju til þess, að hinn fjárhagslegi léttir á skólunum og hinar auknu byrðar yrðu að fara saman. Hvers vegna á t. d. Árnessýsla að taka á sig helming kostnaðar á Laugarvatni, þar sem eru 110 nemendur úr öðrum sýslum, af 150 nemendum alls?

Af því að þetta hús var byggt af nokkurri þekkingu og fyrirhyggju, þá hefir það orðið landinu til mikils sóma, á meðan sumar þær byggingar, sem byggðar hafa verið af mönnum, sem standa hv. þm. nærri, hafa staðið auðar á sumrin. Ég vil víkja því til hv. þm., að reynslan hefir sýnt, að sú tilraun fátækra manna í héruðunum og annara forgöngumanna, að byggja héraðsskóla, stendur mjög hátt fyrir ofan megnið af þeim framkvæmdum, sem gerðar hafa verið hér á landi á síðari árum. Þeir menn, sem lögðu á móti skólunum og ofsóttu þá, standa nú illa að vígi, þegar það kemur í ljós, að þessar stofnanir standast málið miklu betur en margar aðrar, sem meir hefir verið gumað af í byrjun. Ég vil með fullri alvöru víkja því til hv. þm., að þeir menn, sem stóðu að héraðsskólunum, þurfa ekki að bera kinnroða fyrir verk sín, því þetta eru þær einu skólastofnanir, sem lífið heimtar til notkunar svo að segja allt árið.

Hv. þm. hefir tekið það ráð að vera á móti því, að þessari auknu verklegu kennslu væri komið á þar sem hún hefir í för með sér aukinn tilkostnað. Ég vil taka það fram, að þessir skólar eru þeir einu af slíkum skólum, þar sem borguð eru skólagjöld, 60 kr. fyrir hvern nemanda. Í skólanum á Akureyri leggur ríkið til heimavist fyrir ekki neitt. Er það vöntun á ráðdeild, að héraðsskólarnir eru byggðir þannig upp, að gert er ráð fyrir, að nemendurnir verði að borga nokkuð fyrir húsnæði og kennslu? Ég segi nei. Ég segi, að þessir skólar séu byggðir upp með fullkominni ráðdeild, og það mun vera erfitt fyrir hv. þm. að etja kappi um það, ef þessir skólar eru bornir saman við ýmsar aðrar stofnanir.

Í síðustu ræðu hv. þm. kom fram góðvilji hans í garð þessa máls, þar sem honum fannst mikil fyrirhyggja koma fram í skeyti, sem nokkrir kennarar á Laugarvatni hafa sent hingað, en það skeyti er byggt á vanþekkingu frá þeirra hálfu. Þau, sem gert er ráð fyrir í frv., er nýbreytni, sem þessir góðu menn kæra sig ekki um. Það eru ekki kennararnir á Laugarvatni, sem byggt hafa upp skólann. Það er einn maður, sem unnið hefir mest að því, en það er Bjarni Bjarnason skólastjóri. Ég vil skýra frá því, að í sumar, sem leið, vann Bjarni Bjarnason hvern einasta dag fyrir skólann. Hann vann þar moldarverk með piltum sínum, stækkaði fjósið, svo það tekur nú 40 kýr í staðinn fyrir 14. Hann stækkaði hlöðuna og heyjaði bæði heima og niðri í Ölfusi.

Það, sem við meinum með þessu frv., er, að við viljum hafa slíka menn við skólann. Við viljum ekki hafa menn, sem þurfa að hafa margra mánaða sumarfrí. Hv. þm. veit, að í frv. er gert ráð fyrir 6 mánaða uppsagnarfresti, og ef það verður deila milli þessara kennara og skólanefndarinnar út af þessu, þá verður auðvitað niðurstaðan sú, að þessir kennarar verða að fara.

Ég vil segja hv. þm. það, að þetta frv. er byggt á því, að til séu í landinn menn, sem þora að vinna og vilja leggja það á sig að vinna. Hitt gegnir furðu, ef hv. 9. landsk. álítur, að inn í svona kerfi, sem snertir 600 ungmenni í landinn, eigi að koma duttlungar frá einstökum mönnum, eins og t. d. um langt sumarfrí. Við skulum taka hv. 9. landsk. sem starfsmann hjá fisksölusamlaginu. Hann fær þar ekki 4–6 mánaða sumarfrí. Ég hygg, að hann fái ekki nema hálfan mánuð. Prófessorarnir við landsspítalann hafa einn mánuð, en hjúkrunarkonurnar þar hafa hálfan mánuð.

Það, sem hefir gripið þessa menn, er það, að þeir halda, að það sé einhver goðgá, ef þessar stofnanir eiga að tengja við sig starfsemi allt sumarið.

Það mun ekki hafa áhrif á þetta mál, hvað kennararnir á Laugarvatni segja. Ef það kemur í ljós, að þeir geta ekki unnið eins og skólastjórinn þar, þá verða þeir að fara. Skólastjórinn vinnur alltaf fyrir skólann, ekki aðeins við það að kenna, heldur er hann líka fremsti maður í moldarvinnu, steypuvinnu og öðrum slíkum störfum, og þegar gestir koma að Laugarvatni, bæði útlendir og innlendir, þá finna þeir, að hann er þar fremsti maður í öllu.

Mér er engin ánægja í því að fá þetta frv. fram, ef það á að vera einhver tuskuskapur í því, sem tryggir það, að sumir kennararnir, áhugamennirnir, eins og t. d. Bjarni Bjarnason, megi vinna, en svo ætti að vera sérstakur letigarður fyrir aðra menn, sem ekki nenntu að vinna.

Hv. 9. landsk. verður að skilja, að þetta frv. er ávöxtur af langri reynslu. Í þessu frv. er byggt á sumu af því, sem ég skrifaði um fyrir 20 árum. Það er byggt á viðræðum við Jón í Deildartungu og aðra slíka menn, sem barizt hafa fyrir því að halda uppi hinum erfiða fjárhag skólanna. Mér hefir ekki dottið í hug að tala við þá menn, sem standa í þeirri meiningu, að þeir eigi aðeins að vinna þarna fyrir vissu dagkaupi. Þetta geta verið beztu menn, en ég hefi ekki áhuga fyrir því að tala við þá um þessi mál, því það er svo mikið til af slíkum mönnum, en slíkir menn hafa ekki þýðingu fyrir hin stóru átök.

Ég skil það vel, að hv. 9. landsk. er á móti málinu. Hann vill vinna því tjón. Hann var líka á móti því við 2. umr., og nú notar hann skeyti frá mönnum, sem virðast vera á allt annari bylgjulengd en sá maður, sem stjórnar skólanum, sem þeir kenna við. Ég óska hv. þm. til hamingju með þennan félagsskap. Þeir vilja hafa langt sumarfrí.

Ég ætla að segja nokkur orð út af ræðu hv. 2. landsk. Hans gagnrýni er af öðrum toga en hv. 9. landsk. Ég er á móti 1. till., en ég vil að nokkru leyti fallast á till. hans, þar sem hann vill ekki, að það sé gert að föstu skilyrði, að engir piltar yngri en 17 ára og engar stúlkur yngri en 16 ára fái inngöngu í héraðsskólana. Það er rétt, að sumir óttast, að einhverjir unglingar, sem vilja komast í héraðsskóla, en fá ekki inngöngu vegna þess, hvað þeir eru ungir, komi þá ekki síðar. Ég er á móti þessari till. sem kennari, því ég veit, að það er bezt fyrir skólana, að hún verði ekki samþ. En þar sem nokkur stuðningur er á bak við hana frá því fólki, sem notar skólana, þá hefi ég ekkert á móti henni.