21.12.1939
Neðri deild: 89. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 981 í B-deild Alþingistíðinda. (1941)

149. mál, héraðsskólar

*Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Það er mjög nauðsynlegt að athuga dálítið í sambandi við þetta frv., enda þótt brtt. frá menntmn. séu að mörgu leyti til bóta. Í fyrsta lagi er það athugavert viðvíkjandi 6. gr., hvernig skólastjórar og kennarar við héraðsskóla eru ráðnir. Af hverju ættu skólastjórar og kennarar við héraðsskólana að hafa allmiklu ótryggari stöður heldur en skólastjórar og kennarar við aðra skóla landsins? Hvaða ástæða er til þess fyrir ríkið, úr því að á annað borð er viðurkennt, að héraðsskólarnir séu hagnýtur og mjög nauðsynlegur liður í uppeldi landsmanna, að láta kennara og skólastjóra við þá skóla hafa lakari kjör en aðra? Það er alveg gefið, að það er jafnmikil þörf á því fyrir þessa kennara sem aðra að vera sæmilega öruggir með sitt starf, en að öðru leyti er það vitanlegt, að ríkið fær því aðeins beztu mennina til að starfa þar, að þeir hafi vissu fyrir því, að sitja þar áfram, ef þeir standa vel í stöðu sinni og verða ekki sekir um neitt, sem þarf til þess að verða víkið frá embætti.

Þá brtt., sem menntmn. flytur við 6. gr. frv., tel ég dálítið til bóta, en þó enganveginn fullnægjandi. Ég álít, að þar ætti að standa: Skólastjórar og kennarar við héraðsskólana hafi sömu réttindi sem almennt tíðkast við skóla, — og vildi ég mælast til þess, að hvatamenn frv. athuguðu, hvort þetta ákvæði mætti ekki vera þannig.

Í sambandi við 7. gr. frv. vildi ég sérstaklega gera að umtalsefni ákvæði síðari málsgr.: „Skólanefnd ákveður árlega, í samráði við skólastjóra, hverskonar störf kennaralið skólans skuli inna af hendi við andlega eða líkamlega vinnu hvert vor og sumar, þegar kennsla fer ekki fram í skólanum.“ Þetta álit ég bókstaflega mjög varasamt atriði, og ákvæði, sem í raun og veru beri að fella burt. Að vísu gerir brtt. við þessa gr. þetta að samningsatriði, en eftir því, sem mér skilst, mun ætlazt til þess með þeirri till., eftir því, sem hv. 2. þm. .Árn. sagði, að kennarar héraðsskólanna eigi að inna þessa vinnu af hendi, en skólanefnd semji við kennarana um, hverskonar störf þeir skuli vinna, og geti þeir því að nokkru leyti valið um, hverskonar störf þeir taka að sér. Kjör héraðsskólakennara eins og annara kennara eru yfirleitt þannig, að þeim veitir alls ekki af því að hafa það frí, sem þeir fá nú á sumrin. Nokkrir hv. þm. munu sjálfsagt hafa fengizt við kennslustörf, og munu manna bezt geta dæmt um, hvort mönnum, sem hafa starfað að kennslu í 7–8 mánuði á ári, og eru yfirleitt tiltölulega mjög illa launaðir, eins og kennarar hér á landi eru almennt, muni veita af að verja sumarmánuðunum til þess að þroska sig andlega og búa sig betur undir kennslustarfið og ef laun þeirra eru fram úr hófi lág, verða þeir oft að vinna einhverja vinnu um svo sem tveggja mánaða tíma, til þess að bæta ofurlítið sín kjör.

Hv. 2. þm. Árn. var að tala um, að kennarar við héraðsskólana ættu að vinna við þá sjálfa. Ég held, að þetta sé mjög þröngur skilningur á hlutverki kennara, að ætlast til þess, að þeim yrði falið að vinna í görðum eða önnur líkamleg störf í þágu skólastofnananna. Það, sem fyrst ber að gera, er að sjá um, að þeir, sem færir eru og geta sinnt líkamlegri atvinnu, geri það, ef þeir þurfa og vilja, en þeir verði við andleg störf, sem færastir eru þar, og þeir hafi til þess þann tíma, sem þeir hafa frí frá kennslustörfum.

Kennslustörfin eru venjulega harla þreytandi störf, og kennurum veitir ekki af að hafa frí á sumrin, til þess að geta hlúð að andlegum hæfileikum sínum og staðið betur í stöðu sinni við kennsluna. Ég býst við, að flestir, sem hafa fengizt við kennslu, þreytist á því starfi til lengdar, og fjöldinn allur af kennurum verður „stagneraður“. Þeir vinna sitt verk næstum eins og vélar, og verða leiðinlegir, í stað þess að kennslan á að vera lifandi. Sá maður, sem sljóvgast svo andlega, er glataður kennari. Ég tel, að með þeirri stefnu væri að mörgu leyti gefið slæmt fordæmi, ef farið yrði að heimta af kennurum við héraðsskólana, að þeir vinni líkamlega vinnu að meira eða minna leyti, og þá má ósköp vel ganga út frá því, að þeir yrðu valdir eftir öðru en andlegum hæfileikum.

Mér virðist, að ef ber að skilja þetta ákvæði þannig, eins og það liggur hér fyrir, megi alveg eins ganga út frá því, að með þeirri stefnu, sem uppi er hjá Alþ., yrði bráðlega farið fram á hið sama við kennara við barnaskóla landsins og aðra skóla. Ég held, að þessu athuguðu, að þvert á móti beri að hlynna að því, að þeir geti sjálfir ráðstafað tíma sínum yfir sumarið, hvort sem er til að bæta hag sinn eða til að þroska sjálfa sig til þess að geta betur innt af hendi sitt starf.

Því miður er raunin sú, að hætt er við, ef þetta yrði að 1., að hið sama yrði leitt yfir barnakennarana, að þeir yrðu skyldaðir til að vinna ókeypis t. d. vegavinnu fyrir ríkið yfir sumartímann. Ég ætla mér að bera fram brtt. um, að síðasti liður i. gr. falli niður.

Einnig er athugavert ákvæði í 2. málsgr. 3. gr. um nám erlendra mála í héraðsskólunum, en ég skal taka það fram, að ég veit ekki, hvernig það er í hinum eldri l. um héraðssk. En í þessu frv. stendur þessi setning, sem ég ætla að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta: „Erlend tungumál má ekki kenna í héraðsskólum öðrum nemendum en þeim, sem staðizt hafa sérstakt próf í íslenzkum fræðum, eftir reglum, sem fræðslumálastjórnin setur.“ Ég álít, að þetta nái ekki nokkurri átt eins og það stendur, og ekki batnar við þær lítt uppfyllanlegu kröfur, sem neðst á 5. bls. grg. eru fyrirhugaðar við þessi próf.

Hvað þýðir þetta fyrir þjóð, sem eins er ástatt fyrir sem okkar þjóð, að afarmiklir erfiðleikar eru á því að gefa út bækur, þrátt fyrir allt tal menntamálaráðs um að gefa út margar og ódýrar bækur? Hvað þýðir það, að banna mönnum sérstaklega að læra erlend tungumál, nema þeir standist sérstakt próf í ísl. fræðum, eftir reglum, sem fræðslumálastjórnin setur? Okkar tunga er svo skyld Norðurlandamálunum, að það er afar auðvelt fyrir unglinga 12–13 ára að aldri að læra dönsku með góðri kennslu. Ég skil ekki, að hægt sé að benda á, að slík dönskukennsla þurfi að spilla okkar íslenzka máli. Þess vegna álít ég, að ekki nái nokkurri átt að setja svona ákvæði í l. Það ákvæði væri beinlínis ráð til þess að draga úr menningu okkar þjóðar. Það er vitanlegt, að fjöldinn allur af þeim ritum, sem við Íslendingar þurfum þjóðmenningar okkar vegna að lesa, er skrifaður á erlendum málum. Ég vil minna á, að jafnvel rit um Ísland, sögu þess og íslenzkar bókmenntir, einkum bókmenntir 19. aldar, eru til ýtarlegri á erlendum málum, einkum á þýzku (t. d. eftir Poestion og Herrmann) en íslenzk rit, sem til eru um íslenzkar bókmenntir á sama tíma. Ég álít því, að ákvæði þetta myndi í reyndinni verða til þess að bægja efnilegum nemendum beinlínis frá því að læra nokkurt erlent mál. Þetta er hættulegt, og ég tel, að slíkt ákvæði ætti ekki þarna heima, og þetta sé engum hentugt og síður en svo til fyrirmyndar.

Ég vil ennfremur benda á það, að í upphafi 3. gr., þar sem stendur: „Héraðsskólar skulu vera samskólar pilta og stúlkna“, væri réttast að bæta við orðunum: „að jafnaði“. Ég sé ekki að nein ástæða sé til að fyrirskipa slíkt, enda þótt alveg sjálfsagt sé, að stúlkur hafi jafnan aðgang að héraðsskólunum sem piltar. En ef engin stúlkur væri í viðkomandi héraði, sem vildi ganga á slíkan skóla, virðist það alls ekki skynsamlegt að setja ákvæði í 1., er skylduðu einhverja stúlku til þess.

Um 9. gr. frv. er það að segja, að það hefir komið fram brtt. við hana frá hv. 2. landsk. (SÁÓ) hvað snertir ákvæðið um sérnám í húsagerð, og er ég henni að vissu leyti sammála. Það má telja vonlaust, að nemendur, sem ekki hafa aðra sérmenntun eða æfingu en þessi námskeið, geti staðið fyrir að reisa hús. — Ég held, að það sé rétt fyrir okkur að ganga þannig frá þessu máli, að ekki verði farið óþarflega langt inn á það svið, að gera húsabyggingar í sveitum landsins að meira eða minna leyti að fúski. Ég sé ekki, hvernig slík lagafyrirmæli ættu að geta náð tilgangi sínum. En hinsvegar gæti það komið að gagni, að nemendur lærðu þar að smíða húsgögn í sveitaheimilin. Ég vil því taka undir brtt. hv. 2. landsk. um það, að í stað orðanna: „svo fullkomnu sérnámi í húsagerð geti staðið fyrir að reisa venjulegar byggingar og smíða innanstokksmuni fyrir heimili í sveitum landsins“. komi: „geti smíðað innanstokksmuni fyrir heimili í sveitum landsins“.

Ég vil svo um leið og ég segi álit mitt viðvíkjandi frv. til l. um héraðsskóla, taka það fram, að ég tel, að nauðsynlegt sé, til þess að þessir skólar verði sem bezt úr garði gerðir, að ríkið skeri ekki of mikið við neglur sér framlög til stofnkostnaðar eða rekstrar þeirra. Ég tel, að það sé ekki nema eðlileg krafa af hálfu þjóðarinnar, að þessum skólum sé stjórnað þannig, að landsmenn allir hafi þar jafnan rétt, og þar verði ekki beitt neinu ranglæti eða ofsóknum gagnvart einstökum nemendum, og ekki reynt að koma burtu þeim, er hafa einhverja skoðun, sem valdhöfnnum er ekki þóknanleg. Þær tilhneigingar, sem fram hafa komið í slíka átt, hafa mætt ákveðinni mótspyrnu hjá þjóðinni, og ég vænti þess, að svo verði framvegis.