21.12.1939
Neðri deild: 89. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 990 í B-deild Alþingistíðinda. (1948)

149. mál, héraðsskólar

*Einar Olgeirsson:

Ég stend upp til þess að lýsa yfir því, að ég mun taka brtt., sem ég flyt, aftur til 3. umr.

En út af því, sem hv. frsm. menntmn. sagði um erlenda tungumálanámið í héraðsskólunum, þá finnst mér, að það þurfi mikillar íhugunar áður en farið er að bægja mönnum frá slíku, og mér er alls ekki ljóst, hvert stefna á með slíku. Hvað þýðir það að banna mönnum, sem orðnir eru yfir 18 ára gamlir, að læra undirstöðuatriði í erlendum málum, nema þeir standist próf í íslenzkri málfræði? Hvað er erlend tungumálakunnátta fyrir okkur yfirleitt? Hún er aðeins lykill að ákveðnum fræðum, sem ekki er unnt að kynnast með móðurmálskunnáttunni einni saman nema að litlu leyti. Við skulum athuga, hve margt af því bezta, sem til er í íslenzkri sveitamenningu, er einmitt því að þakka, að íslenzkir bændur hafa aflað sér nokkurrar þekkingar á erlendum málum og getað tileinkað sér það bezta í erlendri samtíðarmenningu. Af því að hv. þm. S.-Þ. er flm. þessa frv., þá skulum við athuga, hvernig ástandið er hjá Þingeyingum í þessu efni. Við getum t. d. tekið Benedikt á Auðnum. Hann vann að því að útbreiða meðal Þingeyinga þekkingu á erlendum félagsmálefnum, þegar hann var ungur. Ég vil benda mönnum á það, að í bókasafninu á Húsavík er að finna bezta safn félagsfræðibókmennta á Íslandi. Þar eru næstum því allar bækur um þetta efni á erlendum málum. En þær hafa eigi að síður verið lesnar úti um alla Þingeyjarsýslu. Ég skal viðurkenna, að e. t. v. hefir þetta átt sinn þátt í að skapa þá róttækni, sem þar hefir legið í landi og hv. þm. S.-Þ. þykir nú orðið nóg um. Ég vil ennfremur benda á það, að bændur, sem hafa áhuga fyrir sinni starfsgrein og vilja afla sér þekkingar í efnafræði, verkfræði og ýmsu fleiru, sem þýðingu hefir fyrir okkar landbúnað, þurfa að kunna undirstöðuatriði erlendra mála til þess að geta kynnt sér bækur, sem um þessi efni fjalla. En með því móti geta þeir e. t. v. gert uppgötvanir, sem gagnlegar eru starfi þeirra. Í grg. frv. er talað um þessa „lítilfjörlegu byrjun á erlendum málum“, sem hafi ill áhrif á nám í íslenzku. Ég get viðurkennt, að það geti verið hagkvæmt fyrir nemendurna að beina huga sínum aðeins að einu erlendu máli, en byrja ekki samtímis á t. d. ensku, dönsku og þýzku. En það er hinsvegar vitanlegt, að eftir tveggja vetra tilsögn t. d. í dönsku og þýzku hafa menn öðlazt þá þekkingu, sem nauðsynleg er til þess að þeir geti stundað sjálfsnám í þessum greinum og aflað sér frekari þekkingar tilsagnarlaust, og notfært sér það, sem á þessum málum er ritað. Menn geta verið skussar í íslenzku, þótt þeir séu fullfærir um að læra eitt erlent mál.

Ég held, að menn ættu mjög að athuga þetta atriði áður en það er gert að lögum. Það eru t. d. engar skýrslur um það, hve margt fólk í sveitum landsins getur yfirleitt hagnýtt sér erlendar bækur, t. d. hve margir Þingeyingar geta lesið dönsku. Þar, sem ég hefi farið um Þingeyjarsýslu, hefi ég séð á heimilum engu minna af erlendum bókum en inniendum. Ég vil ennfremur minna á það, að erlendir ferðamenn, sem hingað koma, eru yfirleitt undrandi, á því, hve margir alþýðumenn geta lesið eitthvert erlent tungumál. Það ætti síst að gera leik að því að leggja stein í götu þessarar menningar. Það er enginn efi, eins og ég áðan sagði, að eftir tveggja vetra nám í dönsku eða þýzku geta menn haft not af lestri bóka á þessum málum. Ég viðurkenni, að enskan er þyngri; og margir nemendur myndu ugglaust vilja leggja á sig nokkra aukavinnu til þess að geta fengið tilsögn í einhverju af þessum málum. Hitt tel ég rétt, að erlendu málin eigi að vera valgreinar, þ. e. nemendunum eigi sjálfum að heimilast að velja, hvaða algengt tungumál þeir vilja stunda, eða hvort þeir yfirleitt kæra sig um það. Ég vil eindregið skora á hv. þm. að athuga þetta atriði fyrir 3. umr. — Fleira er það þá ekki, sem ég þarf að ræða að þessu sinni. Þær brtt., sem ég tók aftur, munu koma til umr. síðar.