22.12.1939
Neðri deild: 90. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 993 í B-deild Alþingistíðinda. (1952)

149. mál, héraðsskólar

*Helgi Jónasson:

Ég á hér, ásamt hv. þm. V.Sk., brtt. á þskj. 550, við 1. gr. frv. Er hún um það, að á eftir orðunum „Reykholti í Borgarfirði“, þar sem taldir eru upp skólastaðirnir, komi: „og á hentugum stað innan Rangár- og Skaftárþinga“.

Við athugun sjáum við, að þessi tvö héruð eru mjög afskipt hvað skóla snertir, þar sem á þessum slóðum eru hvorki héraðsskólar eða aðrir skólar. Þessu unum við mjög illa, og er nú vaknaður almennur áhugi í Rangárvalla- og V.-Skaftafellssýslu fyrir stofnun héraðsskóla. Enn er málið ekki komið svo langt, að staður hafi verið ákveðinn fyrir skólann, en áhugi er mikill, og vænti ég, að við verðum látnir njóta sama réttar og aðrir í þessum efnum, og að okkar skóli komist á sínum tíma undir ákvæði laga þessara. Ég hefi borið efni þessarar brtt. undir hv. flm. þessa frv., hv. þm. S.-Þ., og er hann því ekki mótfallinn, að hún verði samþ. Skólastjórinn á Laugarvatni, hv. 2. þm. Árn., er einnig hlynntur því, að till. þessi verði samþ. Það má segja, að Laugarvatnsskólinn sé stór skóli, en hann er meira landsskóli en héraðsskóli, því að vegna sinna góðu skilyrða er hann mjög sóttur af mönnum úr öllum landshlutum. Er hann því ekki frekar fyrir Rangæinga og Skaftfellinga en aðra landsmenn.

Ég orðlengi ekki frekar um þetta, en vona, að hv. þm. sjái sér fært að samþ. þessa brtt.