22.12.1939
Neðri deild: 90. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 999 í B-deild Alþingistíðinda. (1966)

149. mál, héraðsskólar

*Ísleifur Högnason:

Ef litið er á grg. þessa frv., verður ekki annað séð en að í þessum skólum verði um hálfgerða fúskkennslu að ræða. Ef á að fara yfir öll þau fög, sem ætlazt er til, að kennd verði, getur ekki orðið um að ræða nema mjög ómerkilega yfirborðsfræðslu. Ég vil aðeins nefna sem dæmi, að það á að minnka bóklega námið, kenna mikið af íþróttum og allskonar vinnu, kenna járnsmiði og trésmíði, steinsmiði og að nota steinana til að gera ýmisskonar hús, smíði einfaldra húsgagna, að búa til stóla, bekki og borð og að mála. Stúlkum á að kenna hreinlega umgengni, matargerð, saumaskap og prjón, barnagæzlu og aðferðir við að kenna smábörnum. Í bóklegum fræðum á að kenna móðurmálið og íslenzkar bókmenntir, Íslandssögu og mannkynssögu, yfirlit um stjórnarhætti, landafræði, og í náttúrufræði um heimsbygginguna og þróunarfræðina, að bera kennsl á jurtir og dýr. Þá á að kenna frumdrætti úr stjörnufræði, jarðfræði, efnafræði, eðlisfræði, líffræði og sálarfræði. Auk þess á að kenna reikning, bókfærslu og söng. Loks á að kenna íslenzka glímu, en þó þannig, að menn glími í buxum, eins og í gamla daga, það á að kasta burtu glímubeltinu. Í grg. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Íslenzk glíma var særð holundarsári, þegar beltin voru tekin upp af nokkrum sérstökum orkumönnum snemma á þessari öld. Með því gerbreyttist glíman. Í stað léttleikans, sem einkennt hafði þessa íþrótt í margar aldir, komu nú tröllaukin bolabrögð. Sterkir, harðæfðir menn tóku nú veikari leiknauta í fang sér, eins og þegar kolalyfta læsir nokkur vagnhlöss af eldsneyti í greipum sínum. Beltið er nálega búið að drepa íslenzka glímu. Nú á að kasta glímubeltinu út í yztu myrkur og sýna þann þjóðarmetnað að láta glímuna vera í öndvegi meðal íslenzkra íþrótta og kenna hana á þann hátt sem forfeðurnir hafa varðveitt íþróttina frá því á landnámsöld. Hinir endurbættu héraðsskólar munu fá þá skyldu lagða sér á herðar að hefja íslenzka glímu að nýju til vegs og virðingar“.

Eftir þessu er það ærið margt, sem þarna á að kenna. En til andsvara því, sem sagt hefir verið, að ekki eigi að útiloka kennslu í erlendum tungum, vil ég benda á þau skilyrði fyrir slíku námi, sem hv. flm. setur í grg. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Er ætlazt til, að þeir nemendur þekki aðalefni í Íslendingasögum, Sturlungu, Heimskringlu og hafi lesið það helzta, sem til er eftir skáld 19. og 20. aldarinnar“ (kannske bæði hérlend og erlend). „Auk þess verða þeir nemendur að kunna öll frumatriði íslenzkrar málfræði og skrifa ritvillulítið íslenzkt mál“.

Á því er nú enginn vafi, að mikill hluti æskulýðsins hefir meiri áhuga á því að nema erlend tungumál en flest annað, og ef það nám væri útilokað, gæti farið svo, að skólarnir yrðu lítið sem ekkert sóttir. Annars geri ég þá athugasemd við 11. gr., þar sem stendur: „Nú fækkar nemendum í héraðsskóla um þriðjung eða meira ... — að þar eru ekki sett nein takmörk fyrir því, hversu mjög nemendum má fækka til þess að ekki megi greiða þeim þennan tveggja ára styrk.

Ég get verið með því að láta fleiri héruð koma undir ákvæði 1. gr., eins og till. hafa komið fram um, þar sem hér er ekki um annað en heimild að ræða.

Svo ætla ég ekki að láta fleiri orð falla um þetta að sinni, en aðeins taka það fram, að ef á að kenna allar þessar námsgreinar í skólunum, þá getur það aldrei orðið annað en kák kennsla.