23.12.1939
Efri deild: 92. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1003 í B-deild Alþingistíðinda. (1973)

149. mál, héraðsskólar

*Frsm. (Jónas Jónsson) :

Það er aðeins örstutt aths. Það er ekki alveg rétt athugað hjá hv. þm., að af því að Laugarvatnsskólinn fær 150 nemendur og af þeim eru ekki nema 40 úr Árnessýslu, þá sé hann of stór. Hann er að því leyti of lítill, að aðsóknin hefir verið meiri en svo, að hægt væri að taka við öllum. Ef hv. þm. athugar þetta nánar, þá mun hann komast að raun um, að skipulal. þessara skóla er ekki þannig, að þeir séu lokaðir fyrir nemendum úr öðrum héruðum en þeim, sem skólarnir eru í. Þetta er líkt og með háskólana í Þýzkalandi, sem eru þannig, að stúdentar geta gengið úr einum háskóla í annan. Þetta frjálslega skipulag gerir það að verkum, að margir nemendur geta verið einn vetur í þessum skóla og annan vetur í hinum. Í skólann á Laugarvatni koma nemendur alstaðar að af landinu, og með þessum nemendum verður Árnessýsla í raun og veru að borga. Nemendurnir vilja nú einu sinni vera þarna. en það hefir kostnað í för með sér. Þessi æskilegi hlutur, að taka upp verklega kennslu, er ekki tóm ánægja, heldur hefir það aukinn kostnað í för með sér. Jarðhitinn hjálpar að vísu mikið til, svo þar er hægt að koma upp mjög sómasamlegum vinnuskálum, sem ekki þurfa að vera mjög dýrir.

Ef þetta frv. verður að l., þá er með mikilli sparsemi hægt að koma því þannig fyrir, að skólarnir hafi minni skuldir að dragast með. Ég get því ekki fallizt á lækkunartill. hv. þm. Hans till. er ekki miðuð við hag skólanna, heldur aðeins það, að spara. Þegar verið er að hugsa um að spara, þá líta menn auðvitað mismunandi augum á, hvað eigi að spara. Ég greiði atkv. með þessu. Hann hefir greitt atkv. með því, að ríkið taki á sig ábyrgð á vanskilaskuldum milli sveitarfélaga, sem búizt er við, að geti orðið há upphæð. Hann hefir gert það með það fyrir augum, að hann álítur, að bæjar- og sveitarfélög geti ekki staðið undir þessu. Í þessu kemur því ýmiskonar sannfæring manna til greina.

Hv. þm. var að tala um útlendingana. Ég geri ekki ráð fyrir mörgum útlendingum hingað á næstu árum. Ef við tökum Hótel Borg, sem er nú aðalhótelið hér á landi, þá er ástandið svo, að henni er ekki haldið við fyrir fátæktar sakir. Og ef það er svo með hið græna tréð, hvað má þá segja um hið visna?

Það mun ekki veita af fyrir þessa skóla að koma sér upp rúmum, borðum og stólum, sem þeir þurfa að hafa, ef þar eiga að vera sumargistihús. Þó ekki komi útlendingar hingað á næstu árum, þá munum við bæjarmennirnir hafa þörf fyrir að nota þessa staði á sumrin.

Ég álít, að það eigi einmitt að vinna að þessu nú. Ég geri ekki ráð fyrir skammvinnu stríði. Ég veit, að þessar fátæku stofnanir verða mörg ár að koma fjárhag sínum í gott lag, þó þær verði studdar þannig. Ef frv. verður samþ. óbreytt, þá munu þessar stofnanir eftir nokkur ár vera orðnar þannig, að þær geti á viðunandi hátt starfað vetur og sumar, svo að þær geti bætt úr þörfum nemendanna á veturna, en því, sem hægt er að kalla þörf landsins, á sumrin.