23.03.1939
Neðri deild: 25. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í B-deild Alþingistíðinda. (199)

46. mál, vátryggingarfélög fyrir vélbáta

*Frsm. (Finnur Jónsson):

Þetta frv. miðar að því að fella niður tryggingarskyldu á opnum vélbátum, sem lögfest var á síðasta Alþingi. Við framkvæmd laganna hefir það komið í ljós, að mjög margir af þessum bátum eru eigi notaðir nema lítill hluta úr árinu, og ýmsir eigenda þeirra treysta sér ekki til að greiða af þeim vátryggingargjald. Við flm. þykjumst því flytja með þessu frv. óskir mjög margra vélbátaeigenda mjög víða um land. Hinsvegar hefir okkur þótt rétt að halda því ákvæði, að vátryggingarfélög væru skyld til þess að vátryggja litla vélbáta, ef þess væri óskað af eigendum þeirra.

Við væntum þess, að þetta frv. fái góðar undirtektir hér í hv. d., og óskum eftir, að frv. verði, að lokinni þessari umr., vísað til 2. umr. og sjútvn.