08.11.1939
Efri deild: 56. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1022 í B-deild Alþingistíðinda. (2011)

22. mál, tollskrá

*Frsm. (Magnús Jónsson) :

Fyrir þingfrestun hafði fjhn. þetta mál, sem hér liggur fyrir, til meðferðar og ræddi það og athugaði á allmörgum fundum. Þá var frv. allt gegnumgengið og sömuleiðis mikið af bréfum og till., sem komið höfðu til þingsins. Einnig átti nefndin þá viðtal við allmarga menn og vann yfirleitt töluvert að þessu máli. Það varð þá að samkomulagi að fresta allmiklu af afgreiðslu frv. þar til eftir þingfrestun. En brtt., sem n. hafði borið fram á þskj. 139, voru allar samþ. Og frv., sem nú liggur fyrir, er því hið upphaflega frv. með þeim breyt., sem felast í brtt. á þskj. 139. Að öðru leyti var afgreiðslu á öllum brtt. frestað þá, af því að sýnt þótti, að málið yrði ekki afgr. fyrir þingfrestun. Og það þótti heppilegra, að milliþn. fengi þessar till. til meðferðar ásamt öðru, sem kæmi fram um málið á milli þinga.

Milliþn. í skatta- og tollamálum hefir starfað töluvert að málinu, fengið afarmikið af bréfum og till., sérstaklega að því er snertir iðnaðinn, og hefir hún nú sent þinginu þessar till. allar og svo sínar eigin till., sem flestar ganga út á það að hliðra til um toll á efnivörum til iðnaðar.

Fjhn. hefir nú hnigið að því ráði að afgreiða þetta mál tiltölulega fljótt. Það var um tvennt að velja fyrir n. Annað að taka málið allt nú til nýrrar yfirvegunar og eiga tal við marga menn og ganga í gegnum allan þann sæg af till., sem sérstaklega komu frá iðnaðarmönnum. Þetta mundi hafa tekið mikinn tíma. Hinsvegar er málið stórt og á eftir að koma fyrir hina hv. þd. Ennfremur er ætlazt til, að þingið verði ekki langt, og er þá hæpið, að hægt hefði verið að afgreiða málið frá þinginu nú, ef fjhn. hefði haldið málinu lengi. Fjhn. tók því þann kostinn að bera fram brtt. milliþn. Eina þeirra tók n. ekki upp. En brtt., sem prentaðar eru á þskj. 271, eru þær brtt. milliþn., sem fjhn. ber fram.

Um þessar brtt. verð ég annars að segja það, að enda þótt mér sé ekki kunnugt um, að ágreiningur sé um þær, þá voru þær ekki bornar undir atkv. í n. hver um sig, og hafa nm. því óbundnar hendur um atkv. sín um einstakar till. af þeim. Hygg ég þó, að n. sé þeim yfirleitt meðmælt.

Með þessari aðferð, sem ég hefi getið um viðvíkjandi afgreiðslu þessa máls, ætti að vera flýtt töluvert fyrir afgreiðslu þess. En hinsvegar er ekki neinum möguleikum til lagfæringar á málinu glatað, þó að þessi aðferð sé höfð. Því að vitanlega má ganga að því sem gefnu, að einhverjar brtt. komi fram við frv. frá fjhn. Nd., meðan málið er þar, þannig að þessi hv. d. fær málið vafalaust aftur. Ég get ekki hugsað mér, að hv. Nd. afgreiði málið nokkru sinni alveg óbreytt. Og þá kemur málið til fjhn. aftur, og getur n. þá athugað það betur.

Ég vil benda á eitt fyrirkomulagsatriði, sem mælir með þessari aðferð. Það er það, að þetta langa og stóra frv. kostar mikið fé í prentun, ef á að prenta það oft upp á milli umr. Á hinn bóginn verður málið fremur óaðgengilegt með því að prenta það oft upp.

Þá vil ég aðeins minnast á brtt. á þskj. 271, og get þó verið tiltölulega stuttorður og miklu fáorðari um þær brtt. en vænta mætti eftir fjölda þeirra. En það er vegna þess, að þær eru langflestar eða meginþorri þeirra í raun og veru ein og sama brtt. Þ. e. a. s. þetta eru brtt. um lækkun á tolli vegna þess að milliþn. sannfærðist um það, að þar væri um hráefni til iðnaðar að ræða. Við auknar skýrslur og upplýsingar frá ýmsum fyrirtækjum kom það upp, að þessi efni voru allmiklu fleiri en n. gerði ráð fyrir í fyrstu. Og n. færði þetta í vörumagnstoll 7 og verðtoll 8. Og hv. þm. munu sjá, að h. u. b. allar brtt. á þessu þskj. ganga út á að taka vörutegundir og færa þær í þessa tollaflokka, 7 og 8. Flest af þessum vörum er efni, sem ég held, að við séum litlu nær þó að lesin séu upp. Ég sé því ekki ástæðu til að ræða um, hvort þau séu réttilega talin hráefni eða ekki. Mun ég láta nægja, að milliþn. og þeir fagmenn, sem hún hafði sérstaklega til aðstoðar, hafa sannfærzt um, að hér væri um hráefni að ræða. Þær fáu brtt., sem víkja frá þessu, eru t. d. fyrsta brtt., um hunang og hunangslíki, sem gerð er í samræmi við ákvæði frv. um aðrar sykurvörur.

17. brtt., sem er um að lækka verulega toll af vítissóda, er fram komin út frá því, að þetta efni er mjög mikið notað við lýsisvinnslu, og liggur hér fyrir brtt. frá hv. þm. Vestm. (JJós) á þskj. 156 um að endurgreiða skuli lýsisframleiðendum aðflutningsgjöld af þessu efni. N. vildi koma á móti þessum óskum hv. þm. í þessu efni.

Þá er 43. brtt. um lækkun tolls á sólaleðri og bindsólaleðri að töluvert miklum mun, vegna þess að þetta leður er ekki hægt að framleiða í landinu, og því er ástæða til þess að taka það út úr og hafa á því lægri toll. Það gætu sjálfsagt komið fram fleiri brtt. viðvíkjandi skófatnaði. T. d. er tilfinnanlega hár tollur á gúmmístígvélum. En engar till. liggja fyrir um það frá n.

44. brtt. er um vaxbornar umbúðir um frystan fisk til útflutnings. Þessi brtt. er gerð vegna þess, að hér er um útflutning að ræða og til þess að létta undir með útflutningnum.

45. og 46. brtt. eru skyldar og um það, að lækka verulega toll á ullargarni og bómullargarni, og fram komnar út frá því, að klæðaverksmiðjur og þeir, sem vinna úr þessum vörum á heimilum sínum, kvarta mjög undan því, að hár tollur sé á þessum vörum, sem ómögulegt er að komast hjá að flytja inn. Bómullargarn er ekki framleitt hér á landi. Vefjartvist er ekki hægt að hafa án þess að flytja hann inn. Og mörgum kemur saman um, að ómögulegt sé að vinna þá dúka, sem kambgarn er haft í, nema með því að flytja það garn inn. Það mætti virðast svo, að skilgreina mætti þetta nánar og taka t. d. út úr vefjartvist í lækkun á tollinum. En þeir, sem með tollmálin fara, segja, að ómögulegt sé í innheimtu tolls að greina hann frá öðru bómullargarni.

Brtt. 47, b er smálagfæring til samræmingar. 48. brtt. er leiðrétting.

49. brtt. er um það að taka stýrisvélar undir liðinn þar sem talað er um akkerisvindur, lóðarvindur, togvindur og aðrar skipavindur og setja þær í toll þar með.

Loks eru svo þrjár síðustu brtt. Þær eru allar ákvæði viðvíkjandi framkvæmd tollinnheimt

unnar. T. d. brtt. við 7. gr., að lágmarksgjald af vörum eins og í þeirri brtt. er tiltekið skuli vera kr. 0,50. Því að með þeim tolli, sem ákveðinn er, gæti annars komið út sem tollur mjög lágt gjald, sem varla tæki að innheimta.

Eins er brtt. III. við 13 gr. Það er fyrirkomulagsatriði um það, hvernig tilgreina skuli verð vöru o. fl.

Brtt. IV. kemur út af því, að ef maður getur ekki lagt fram reikning um verð vörunnar, sem tolla á, þá kostar það mjög mikla fyrirhöfn að taka upp úr umbúðum hvern hlut og virða hann og meta, og því þótti rétt að ákveða, að sá, sem ekki gæti lagt fram skýra reikninga yfir vörur, sem hann flytur inn og tolla á, greiði aukagjald fyrir tollskoðun af því að hann hefir ekki full skilríki í höndum. Hygg ég, að þetta geti ekki orkað tvímælis að rétt sé að samþ., og sama hygg ég um allar brtt. n.

Hér liggja svo fyrir brtt. á öðrum þskj. Skal ég ekki fara út í þær að svo komnu. Það er ekki búið að mæla fyrir þeim, nema ég held ég fari rétt með það, að flm. brtt. á þskj. 144 og 158 hafi verið búinn að mæla nokkuð fyrir sínum brtt. Hann mun og sjá á till. n. nú, að það er komið nokkuð á móti honum í þessu máli. M. a. er einn liður í hans brtt. um lækkun á tolli á sumum efnivörum til iðnaðar, og brtt. n. koma til móts við þær brtt., svo langt sem það nær.

Að öðru leyti vil ég segja það um þær brtt., sem miða mikið til lækkunar á tolli, að það væri náttúrlega gleðilegt að geta samþ. þær. Því að það er ekki gleðilegt að þurfa að tolla fjölda af vörum svo og svo hátt. En ranghverfan á því máli verður að skoðast líka, þ. e. þörf ríkissjóðs fyrir að fá tekjur. Og þó að það sé sjálfsagt eftir flokksstefnu þessa hv. þm. (BrB) að hafa tolla og óbein gjöld ekki mjög há, þá hlýtur það líka að vera í samræmi við stefnu hans flokks, að hið opinbera hafi yfir miklu fé að ráða. Því að það er stefna hans flokks, að draga mjög margt frá einstaklingunum í þjóðfélaginu og leggja undir hið opinbera, með allri þeirri tekjuþörf, sem af því hlýzt. Og þegar komið er svo, að það má heita, að gjöldin séu farin að reka sig upp undir, bæði þegar talað er um gjöld til ríkis og bæjarfélaga, þá er ekki gott að sjá, hvar ríkið á að taka tekjur til framkvæmda, ef ekki með tolli af þessum innfluttu vörum. Það hljómar náttúrlega fallega, að það eigi að tolla sem allra minnst nauðsynjavörur. En þegar komið er svo eins og hjá okkur, að bægja verður frá landinu innflutningi af öðrum vörum en þeim, sem eru meira eða minna nauðsynlegar, hvar á þá að taka tolla af vörum annarstaðar en af þeim vörum, sem eru meira eða minna nauðsynlegar? Annars er reynt að láta tollinn koma mest niður á þeim vörum, sem menn án hættu fyrir lif og heilsu geta frekast dregið við sig.

Ég hefi áður minnzt á það, að ein brtt. n. kemur mjög á móts við brtt. á þskj. 156, frá hv. þm. Vestm. Og hann á nokkrar till. einnig hér á þskj. 160. Ég get sagt það sama um þær brtt. eins og brtt. hv. 1. landsk. (BrB), að það er töluvert komið til móts við þær með lækkun á tolli á ýmsum efnivörum til iðnaðar. Skal ég að öðru leyti ekki fara út í að ræða um þær brtt., nema sérstaklegt tilefni gefist til þess.

Um till. hv. 10. landsk, (ErlÞ) á þskj. 151 má segja það, að þar er alveg um grundvallaratriði að ræða. Og vil ég í því sambandi lýsa því áliti milliþn., að atriði nákvæmlega samhljóða var gert að ágreiningsatriði í milliþn. af einum meðlimi þeirrar n. og rætt af honum þar. Og ég held bara, að atkvæði verði að skera úr um það efni, sem sé það, að hafa tollinn yfirleitt töluvert lægri til að byrja með, og hafa svo heimild til þess að hækka hann um ¼ hluta hans með einföldu lagaákvæði.

Um brtt. sama hv. þm. á þskj. 155, þar sem hann tekur mjög margt af nauðsynlegum matvörum og gerir till. um, að þær verði alveg tollfrjálsar, vil ég bara segja það, að það væri náttúrlega mjög gott að geta farið þannig að. Ég get verið sammála hv. þm. um það, að það væri bezt að geta flutt þetta allt inn tollfrjálst, en þá verður að haga störfum ríkissjóðs öðruvísi en nú.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, en vil aðeins óska þess, að hv. d. vildi feta í fótspor n. og afgr. málið fljótt til Nd., svo að það geti fengið sína meðferð þar. Ég vil svo bara segja það, að hv. þm. má öllum vera það ljóst, að það væri alveg sama, hvað lengi við hefðum þetta mál til meðferðar, þá myndu alltaf koma fram brtt. við það. Þetta er mál, sem grípur svo inn í hagsmuni fjöldans. Ég held þess vegna, ef þingið vill í grundvallaratriðum aðhyllast þetta, þá sé bezt að afgr. málið fljótt og láta reynsluna síðan skera úr um einstök atriði.