08.11.1939
Efri deild: 56. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1026 í B-deild Alþingistíðinda. (2013)

22. mál, tollskrá

*Frsm. (Magnús Jónsson) :

Ég skal ekki lengja umr. mikið.

Hv. 1. landsk. talaði um, að stríðið hefði raskað mjög grundvelli tollskrárinnar. — Mér finnst nú, að stríðsástandið hafi ekki raskað að neinu leyti grundvelli tollskrárinnar. Hitt er annað mál náttúrlega, að stríðsástandið leiðir það af sér, að tollar á ýmsum vörutegundum hækka að verulegu leyti. En ég álít, að hjá því sé ekki hægt að sneiða. Ég vil bara benda hv. þm. á það, að ef till. þessa hv. þm. yrði samþ., þá myndi það hafa slíka röskun í för með sér, að það yrði eintómur ruglingur á tollskránni, af því að þær eru alls ekki tæmandi. Ég er ekkert að setja út á þetta. Ég veit ósköp vel, að það er ekki á nokkurs manns færi um þingtímann að vinna úr þessum málum. Það verður að vera verkefni mþn. Það er ófær málsmeðferð, ef þingið á að fara að krukka í tollskrána bara svona af handahófi. Með því móti yrði einlægt ósamræmi í henni. Einnig er á það að líta, að ef till. þessa hv. þm. yrði allar samþ., myndi það hafa í för með sér stórkostlega lækkun á tekjum, en það er vissulega einn af stærstu erfiðleikunum, sem við nú horfum fram á, hvernig við getum á þessum erfiðu tímum aflað nægilegra tekna til að standast útgjöld ríkisins. Ég hefði gaman af að leita um það álits fjármálayfirvaldanna, hvort þau byggjust við, að nokkrar afskaplegar tekjur muni flæða inn í ríkissjóðinn á þessum tímum. Mér virðist, að það muni vera alveg þvert á móti. Mér virðist menn líta svo á, að það verði að framkvæma stórkostlegan niðurskurð á útgjöldum ríkisins á móti hallanum á tekjunum, sem verður vegna styrjaldarinnar. Þetta leiðir af sjálfu sér í landi, sem byggir tekjur sínar svo mjög á tollum af innfluttum vörum. Ég held þess vegna, að tollskráin með cif-verðinu geti einmitt orðið til þess, að ríkissjóður haldi svo miklum tekjum, að niðurskurður verði framkvæmanlegur á móti hallanum, sem sennilega verður.

Ég fyrir mitt leyti álít það hina réttu aðferð. að reikna toll af vörunni miðað við cif-verð. Mér finnst það eigi að leggja tollinn á vöruna með því verði, sem hún hefir, þegar hún fer yfir tollmörkin. Menn athugi, að ef miðað er við fob-verð, þá verður tollurinn mismunandi, eftir því, hvar vörunni er skipað út. Það er ekkert réttlæti í því að þurfa að borga hærri toll af vöru, sem keypt er í Indlandi, heldur en t. d. í Englandi. Það eina, sem hér er hægt að miða við, eru tollmörkin sjálf. Enda hygg ég, að allar þjóðir, sem hafa tekið upp verðtoll, hafi hallazt að þessari reglu.

Hv. þm. sagði: Þetta er allt gott og blessað út af fyrir sig, en það má bara ekki skella þessu á meðan stríðsástandið er. Ég vildi nú næstum snúa þessu við. Einmitt stríðsástandið hefir leitt í ljós, hvað þetta er miklu réttlátara og sjálfsagðara. Það er einmitt það, sem hefir orsakað þessi háu flutningsgjöld og miðar að því að draga úr innflutningnum. Hinsvegar er tekjuþörf ríkissjóðs sú sama. Þess vegna koma hin hækkuðu flutningsgjöld og tryggingargjöld í viðbót við verðtollinn, og verður það til að bæta ríkissjóði upp hallann, sem skapast af þessu ástandi. Ég vildi skjóta því til hv. þm., að ef þessi tollskrá væri búin að vera í gildi t. d. í 10 ár, þá myndi engum detta í hug að umreikna hana í fob-verð vegna hækkaðra flutningsgjalda vegna styrjaldarinnar. Ef þetta kemur til með að hafa óhæfileg áhrif á einstakar vörur, þá verður bara að lækka tollinn af þeim vörum, en ekki láta ástandið hafa þau áhrif, að fara að umbylta tollskránni allri.

Annars get ég upplýst, að mþn. lét gera nokkra dreifikönnun á því, hvaða áhrif þessi hækkun á flutningsgjöldum myndi hafa á tollupphæðina. Og án þess að ég ætli að fara að lesa upp þessar tölur, þá get ég upplýst það, að hækkunin virðist verða tiltölulega lítil. (BrB: Við hvað mikla hækkun á farmgjöldum var þetta miðað?). Það var miðað við 50–100% hækkun. Næstum því eina varan, sem n. reiknaðist til, að þetta kæmi verulega niður á, var sement, af því að þar er flutningsgjaldið svo hátt samanborið við verð vörunnar. En ef það þykir ekki rétt að láta sement hækka svona mikið, þá er einfaldasta ráðið að lækka tollinn á sementi, en kippa ekki grundvellinum undan löggjöfinni í heild, ef menn á annað borð fallast á, að hann sé heilbrigður.

Viðvíkjandi till. hv. þm. um að vísa málinu aftur til n. er það að segja, sem ég hefi nú þegar tekið fram, að ég er á móti því. Þar að auki álít ég, að sú töf myndi af því verða, að óhugsandi væri, að hægt yrði að afgr. málið á þessu þingi. Ef þess vegna menn vildu hverfa að því að fresta málinu, þá er eðlilegast að láta það aftur í hendur mþn. og láta hana vinna að því. Ég vil þess vegna eindregið mótmæla þessari till. og vildi fyrir mitt leyti óska eftir að fá hana strax borna undir atkv.