09.11.1939
Efri deild: 57. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1030 í B-deild Alþingistíðinda. (2021)

22. mál, tollskrá

*Erlendur Þorsteinsson:

Herra forseti! Þessi tollskrá, sem hér er til umr., hefir verið að nokkru leyti mjög svo rækilega undirbúin, og liggur í því mikið starf, a. m. k. í því að samræma ýmsa tolla, sem áður voru dreifð og ósamkvæm ákvæði um. Það kemur fram í áliti milliþn., hve mikið af starfi hennar hefir verið falið í því að samræma núgildandi tollákvæði og að það var einmitt hlutverk hennar. En hún hefir farið út fyrir þetta verksvið og gert tillögur um stórkostlegar hækkanir. Á hinn bóginn hefir hún ekki athugað nema nokkurn hluta þess, sem henni var falið. Hún hefir ekki enn lagt fram nein frv. um gjöld af innlendum framleiðsluvörum, sem nauðsynlegt var, að kæmu fram um leið og skrá um toll af erlendum vörum. Og hún hefir ekki skilað neinu um skattalög að öðru leyti. En ef þau yrðu í sama anda og tollskráin, mundu tekjur ríkissjóðs aukast allverulega.

Eins og kunnugt er, var talsverður ágreiningur innan n. Meiri hl. virðist hafa álitið, að tekjuþörf ríkisins yrði mun meiri eftirleiðis en nú. Nefndin gerði áætlun um þetta efni fyrir árið 1940, á fundi sínum 24. jan. síðastl., og gerði ráð fyrir 15% hækkun umfram yfirstandandi ár. Í samræmi við það áætlar hún síðan, hvað tollarnir þurfi að vera háir, og leggur toll á vörur, sem þyrftu helzt að vera tollfrjálsar. Það er náttúrlega kostur, hvað létt er að innheimta tolla. En þeir koma mjög óréttlátt niður, og því hærri sem þeir eru á nauðsynjum almennings, því óhæfari eru þeir á þeim vörum.

Nefndin hefir lagt fram rækilegt álit, sem ég geri ráð fyrir, að þm. séu búnir að kynna sér. Við hækkanir hennar á tollum er margt að athuga. Vörumagnstollurinn er alstaðar hækkaður. Þar sem hann var 6 au. á kg. — eða 6.72 au. með bráðabirgðaálagi — verður hann alstaðar 7 au. á kg., og þessar hækkanir nema yfirleitt miklu á nauðsynlegum vörum. Þá er það tollurinn á farmgjöldunum, sem hækkuð eru um mörg hundruð %, eins og nú er komið. Ég skal ekkert fullyrða um það, hvort reikningar n. eru réttir, það sem þeir ná í þessu efni, en þar er ekki gert ráð fyrir meir en 50–100% hækkun á farmgjöldum. En ég veit, að t. d. til Vesturheims hafa farmgjöldin hækkað um 300–400% og ekki ólíklegt, að sama verði lagt til grundvallar um farmgjöld þaðan hingað. Ég veit, að síðastl. ár var t. d. hægt að senda síldartunnuna vestur fyrir 1.25 dollara, en nú ekki fyrir mínna en 3.75 dollara eða 4 dollara hjá Eimskipafélaginu. Þá býst ég við, að farmgjaldið vestan verði 180–190 kr. t. d. á hvert sykurtonn, og geta menn þá reiknað út, hver tollurinn af því farmgjaldi muni verða; mér virðist hann verða nær 2 aurum á kg. af sykri.

Þá er fólgin hækkun á breytingum eða umreiknun á tolli, þar sem meiri hl. n. reiknar út þungatollinn eftir verzlunarskýrslum, en í skýrslunum er, eins og fram er tekið í grg. minni hl., Jóns Blöndals, reiknað með nettóþunga, en ekki brúttó. Nú eru margar nauðsynjavörur í þungum umbúðum, sem vörumagnstollur verður reiknaður af samkv. tollskránni. (MJ: Það er nú engin breyting.) Að vísu ekki, en tollaukningin er meiri, þegar hún er reiknuð eftir nettóþunga og lögð á brúttóþungann, og það er beint tölufals hjá nefndinni, að láta sem það geri ekki teljandi mun á heildinni. Eða var henni ofætlun að gera sér sjálf grein fyrir mismuninum á því?

Í brtt. mínum á þskj. 154 og 155 fylgi ég áliti minni hl., Jóns Blöndals. Hann hefir rökstutt skoðanir sínar vel og rækilega.

Með því að bera saman fylgiskjölin, þar sem reiknaður er út tollur af hverri vörutegund um sig, sést, að brtt. mín myndi hafa í för með sér, að tollurinn myndi lækka sem svarar þeirri umframgreiðslu, sem meiri hl. n. bætti við, og ekki meira. Hinsvegar væri tilgangi hinnar rökst. dagskrár náð, ef mín brtt. yrði samþ.

Brtt. á þskj. 155 fer í þá átt, að tollur á kaffi og sykri lækkar niður í það, sem hann er nú. Einnig, að kornvörur allar yrðu tollfrjálsar, eins og verið hefir, að undanteknu því, að fyrir 2–3 árum var lagt viðskiptagjald á nokkrar kornvörur. Þá er gert ráð fyrir því, að öll lyf séu tollfrjáls, og ættu allir að vera sammála um það.

Hv. fjhn. hefir tekið hér eina till. til greina, og er það till. nr. 3 við VI. kafla, og fellur þá þessi till. mín burtu. En ég varð undrandi yfir því, að hv. mþn. og fjhn. skyldu ekki geta tekið til greina 4. og 5. lið, sem eru eins.

Þá geri ég ráð fyrir, að 10. gr. breytist nokkuð. Þar er ætlazt til þess, að ef greidd eru flutningsgjöld eða farmgjöld, sem eru undir venjulegum flutningsgjöldum eða farmgjöldum, þá sé greiddur tollur eins og um væri að ræða venjulegan flutnings- eða sendingarkostnað. Nú er ekki getið, hvort ætlazt er til, að lögð séu til grundvallar flutningsgjöld með flutningaskipum almennt. Hinsvegar er þetta óréttlátt, þegar um er að ræða flutninga, sem hægt er að fá með venjulegu tækifærisverði, að greiddur sé tollur í ríkissjóð af verði, sem ekki var greitt í raun og veru fyrir flutningana.

Það kann að vera, að það sé eðlilegra að innheimta tolla af cif-gjaldi en fob-gjaldi, en ég held þó, að það ætti að fresta því að innheimta

tolla af cif-gjaldi, meðan farmgjöld eru jafnóeðlileg og nú. Þetta gæti verið til athugunar í Nd., sem fær frv. til athugunar, og svo aftur hér í d., því að Nd. mun vitanlega gera einhverjar breytingar á því.

Þá er það líka athugavert, að tollar af öllum útgerðarvörum hafa hækkað mikið. Við síðustu umr. hér var samþ., að skylt skyldi að endurgreiða toll af sykri, kryddi og öðru því, sem notað er í vörur til útflutnings. Ég hefi nú hugsað mér að leggja til í samræmi við það, að síldarkrydd sé algerlega tollfrjálst, en legg ekki þá till. fram að þessu sinni, vegna tilmæla hæstv. forseta, — geri það líklega síðar. Till. þessi er byggð á því, að síldarkrydd er flutt inn í sérstökum umbúðum, og væri skrítið að innheimta toll af þeim og endurgreiða hann síðan.

Hin brtt., sem ég legg fram á þskj. 151, er um það, að allir taxtar lækki um 20%, en ný gr. komi inn, þar sem heimilað er að hækka taxtana til eins árs í senn. Allar tollabreytingar, sem gerðar hafa verið á undanförnum árum, hafa verið samþ. með það fyrir augum, að þeim yrði létt af svo fljótt sem auðið væri; þær hafa verið samþ. sem bráðabirgðal. Væri því undarlegt, ef festa ætti þessa tolla til frambúðar og með mikilli hækkun á helztu nauðsynjum. Ég geri því ráð fyrir, að þessi till. muni ná samþykki og geri ráð fyrir stuðningi frá hv. 1. þm. Reykv., sem alltaf hefir samþ. þesskonar hækkanir með því fororði, að um bráðabirgðahækkanir væri að ræða. Hinsvegar geri ég ráð fyrir, að hækka mætti gjaldskrána upp í 25%.

Á það má einnig benda, að meiri hl. milliþn. miðar alla tolltaxta við árin, þegar innflutningshöftunum hefir verið harðast beitt og minnst verið flutt inn af þeim vörum, sem gefa tolla í ríkissjóð. Ef til þess kemur, að fjárhagsástand ríkisins batnar, sem gera verður ráð fyrir, að einhverntíma verði, þá hljóta tolltekjurnar að aukast alveg gífurlega með rýmkun innflutningsins, og býst ég ekki við, að hv. n. hafi gert sér grein fyrir þessu.

Um aðrar brtt. get ég verið fáorður. Ég fylgi brtt., er hv. fjhn. hefir samþ., enda er þar um að ræða lagfæringu á frv. Þá vil ég samþ. brtt. á þskj. 156, frá hv. þm. Vestm., þar sem gert er ráð fyrir, að lýsisframleiðendum sé endurgreiddur tollur af lýsissóda. Að vísu hefir milliþn. lækkað tollinn, en mér finnst ekki nema sjálfsagt, að tollur af þessari vöru sé endurgreiddur eins og af öðrum vörum, sem hafðar eru til framleiðslu á útflutningsafurðum.