09.11.1939
Efri deild: 57. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1032 í B-deild Alþingistíðinda. (2022)

22. mál, tollskrá

*Frsm. (Magnús Jónsson) :

Við ræddum hér í gær að nokkru brtt. hv. 1. landsk., svo að ég þarf nú fáu að svara.

Ég vil leiðrétta það, sem hv. þm. hafði eftir mér, að þó að við störfuðum mörg ár að tollskránni, þá myndi hún samt standa til bóta. Ég sagði, að við mættum bíða í mörg ár eftir því, að enginn gæti komið með brtt. við tollskrána, því að fulltrúar einstakra stétta eða hópa manna munu alltaf koma með brtt., enda mun skráin löngum standa til bóta. En munurinn á till. okkar fjhn.-manna og till. hv. þm. er sá, að okkar till. miða allar til aukins samræmis, en till. hans miða burt frá samræmingu, kippa hinu og þessu út úr og setja í lága hráefnataxta.

Hv. þm. ræddi aftur um cif-verðið og þá gífurlegu tollahækkun á matvælum, sem af því leiddi. Hér hefir nú verið útbýtt til hv. þm. útreikningi, þar sem miðað er við 100% álagningu, og það sýnir sig, að þar er um svo litla hækkun að ræða, að hæpið er, að hún komi fram í vöruverðinu. Náttúrlega gætu farmgjöldin hækkað um mörg hundruð prósent, og yrði þá að taka þetta aftur til athugunar. En með 100% hækkun er það nú ekki stórkostlegra en þetta, svo að farmgjöld verða að hækka mjög mikið, ef það á að hafa áhrif á útsöluverð vörunnar. Það er náttúrlega leitt, að hækkunin skuli þurfa að lenda á þessum nauðsynjum. En ef svo herðir að, að ekki verður flutt til landsins annað en nauðsynjar, hvar á þá að taka tollana, ef ekki af nauðsynjunum? Verðhækkunin nemur hér meira. Hún hækkar verðtollinn án tillits til þess, hvort reiknað er cif eða fob. — Ég þarf ekki að ræða um rökstuddu dagskrána. Hún gengur út á það sama og till. hv. þm., sem felld var hér í gær.

Þá talaði hv. þm. um, að vont væri að innleiða svona breytingar eins og nú stæði á. Það er rétt, að auðvitað væri betra að geta miðað löggjöfina við venjulegt ástand. En ég tel, að n. hafi verið svo íhaldssöm sem hægt var í þessu efni, þó að ég viti ekki, hvort það eru meðmæli í augum þessa hv. þm.

Hv. 10. landsk. taldi hækkunina mjög mikla á tollum yfirleitt. En hér er í rauninni bæði um hækkun og lækkun að ræða. Menn eru yfirleitt næmari á hækkanirnar. Í grg. n. má sjá, að víða hafa verið gerðar lækkanir. Að vísu er gert ráð fyrir allmikilli hækkun á vefnaðarvöru og skófatnaði, en þar eru líka lækkanir á stórum vöruflokkum. Sumstaðar stafar þetta af því, að n. reyndi að fá tolltaxtana færri en áður, og tel ég það kost.

Hv. þm. sagði, að ekki hefði komið frá milliþn. annað en þessi tollskrá. Það er rétt, en n. er að starfa. að öðrum verkefnum sínum. Og ég held, að það verði að teljast ærið verk að skila þessu frv. til tollskrár á einu ári, því að samning tollskrár hefir alstaðar reynzt geysimikið verk.

Mér kemur það á óvart, ef hv. þm. er á móti því að reikna tolla af cif-verði, því að í fjhn. hefir hann einmitt mælt með þessu. Hygg ég því, að hann sé ekki á móti þessu nú fremur en áður, en blandi saman þeirri grundvallarreglu að reikna tolla af cif-verði og þeim örðugleikum, sem stafa af því, að nú er stríðsástand. Þetta ástand ruglar auðvitað margt, en því má ekki blanda saman við þá meginreglu, sem lögð er til grundvallar við tollaútreikning.

Um einstakar till. hv. 10. landsk. á þskj. 155 þarf ég ekki að ræða. Það er um það að ræða að lækka kaffi- og sykurtoll og taka tollinn algerlega af kornvöru. Hv. þingd. verður að taka afstöðu til þess, hvort hún treystir sér til að gera þetta, hvort hún sér það fært fjárhagsins vegna. Þá er gert ráð fyrir því, að niður sé felldur lyfjatollur. Þetta hljómar að vísu vel, og hefir milliþn. fengið bréf frá stj. sjúkrasamlaganna, þar sem farið er fram á þetta. Hér er raunar ekki að ræða um vörutegundir, sem séu meiri nauðsynjavörur en allar aðrar. Það er einn ókostur við sjúkrasamlögin, sá, að menn eta og drekka ósköp af meðulum, án þess að ég sé að mæla á móti sjúkrasamlögum að öðru leyti. En það eru til mörg hundruð vörutegunda, sem eru nauðsynlegri en lyfin, og ég held, að þjóðin væri litlu lakar sett hvað heilsufar snertir, þó að 90% væru tekin burt af meðulunum. Hv. þm. ætti að lesa ritgerð eftir flokksbróður sinn, landlækninn, um nauðsyn meðala. Auk þess eru fremur vægir tollar á meðulum. Fyrir sjúkrasamlögin geta þeir raunar numið allmiklu, en fyrir einstaklinga breyta þeir ekki miklu.

Hv. þm. efast um, að milliþn. hafi gert sér grein fyrir þeirri hækkun, sem breytingin í cifverð orsakaði. Hún gerði sér nú þá grein fyrir þessu, að hún lét reikna alla liði tollskrárinnar eftir því, og er þetta prentað í fylgiskjölunum, sem tollskránni fylgja. Er ekki hægt að gera sér betur grein fyrir þessu en á þann hátt.

Þá hvarflaði hv. þm. aftur að stríðsástandinu og spurði, hvort ekki sé hægt að leggja til grundvallar venjulegar „fragtir“, sem gilda á eðlilegum tímum. Þetta mætti auðvitað gera, — en hví þá ekki líka að leggja til grundvallar normalt vöruverð, þar sem líka flutningskostnaður er hverfandi lítill hlutfallslega. Annars sé ég ekki, hvernig ætti að framkvæma slíkt. Það yrði þá að nema allt úr gildi viðvíkjandi faktúrum og svo framvegis.

Þá taldi hv. þm. það líka lakara, að n. hefði lagt til grundvallar þau árin, sem innflutningshöftin voru sem mest og innflutningur þess vegna lítill. Það er rétt, að n. hefir miðað við þessi ár. Hún tók ástandið eins og það er og sá ekki að hægt væri að leggja til grundvallar aðra tíma en voru, er hún var að starfa, og verða myndu auðsjáanlega enn um nokkurt skeið. Ég er sjálfur andvígur innflutningshöftum, en álít þó, að innflutningur myndi ekki aukast verulega, þó að höftin væru afnumin nú þegar. Það dugar ekki að gera sér hillingar um eðlilegt ástand og miða áætlanir um tolltekjur ríkisins við það. Ég veit líka, að hv. þm. myndi aldrei fara þannig að, ef hann ætti að bera ábyrgð á fjárhag ríkissjóðs. Honum myndi ekki detta í hug að byggja ráðstafanir sínar á normalástandi.

Hv. þm. spurði, af hverju ætti ekki að lækka eins toll á öllu leðri. Það er vegna þess, að sólaleður er ekki hægt að framleiða hér, en aftur á móti fullyrða menn, að ýmsar aðrar leðurtegundir, svo sem vatnsleður o. fl., megi framleiða hér.

Þá er síðasta brtt. hv. þm., er hann vill breyta orðunum „skal allt að einu“ í: er allt að einu heimilt, o. s. frv. Hann spurði í þessu sambandi, hvort ætti að reikna eftir farmgjaldataxta gufuskipafélaganna, sem sigla hér í föstum ferðum, eða eftir þeim farmgjöldum, sem gerast þegar um er að ræða, að heilir farmar eru fluttir af einhverri einstakri vörutegund.

Sem stendur á að reikna eftir almennum sendingarkostnaði. Séu það vörur eins og t. d. síldartunnur eða sement, sem hvorttveggja kemur oft í heilum förmum, þá ber að reikna hið venjulega flutningsgjald á slíkum flutningum. Það væri ekkert vit að reikna eftir meira eða minna tilbúnum töxtum. Þá vil ég benda hv. þm. á, að breyting sú, sem hann hyggst gera með brtt. sinni, er alls engin; það yrði í háðum tilfellum ekki annað en heimild til að reikna eftir öðrum taxta. Og hvaða vald er það, sem úrskurðar, hvort reikna skuli eftir öðru gjaldi en tilgreint er? Það er alveg sama vald, sem ákveður, hvort um óeðlilegan flutningskostnað sé að ræða, og ákveður því, hvort nota skuli heimildina til að leggja annað verð til grundvallar við úfreikning tollsins. Þetta breytir sem sé engu; tollyfirvaldið hefir í báðum tilfellum heimild til að meta kostnaðinn og hvort hér sé verið að skjóta undan tolli.

Þá vil ég minnast á till. á þskj. 154. Ég minntist að vísu lítilsháttar á hana í gær, þótt hv. flm. væri þá ekki viðstaddur. Vegna þess að þetta er tillaga, sem kunn er úr áliti minni hl. milliþn., er þetta, eins og ég minntist á áður, atriði, sem aðeins verður skorið úr með atkvgr., hvort menn vilja í orði kveðnu lækka alla tolla um einhvern ákveðinn hundraðshluta, eða hvort menn vilja gefa heimild til þess að hækka þá með fjárlagaákvæði. Ég hefi tvennt við þetta að athuga. Annað er það, að þar yrði farið inn á nýstárlega braut, ef þingið færi að leggja skatta á með fjárlagaákvæði. Sú venja er á komin, að fjárlögin sæta sérstakri meðferð hér á Alþingi; þau eru aðeins rædd við þrjár umr. í Sþ., og er það gert vegna þess, að fjárl. eru sérstök að eðli til og þykja frekar versna við fleiri umr. Að taka svo jafnvandasama löggjöf og skattalöggjöfina og láta hana sæta sömu meðferð og fjárlögin, því tel ég ekkert vit i. Með því mundi hverfa einn aðalkostur tollskrárinnar, sem sé það, að hægt er þar að sjá í einu lagi, hvað á að borga af hverri vöru. Með hinni aðferðinni kæmist aftur á sami glundroðinn. Fyrst legðust 10% á hér, svo 11 og 12%, og svo yrði að fara að reikna allt út aftur. Ég er hræddur um, að gleði hv. flm. brtt. og annara, sem brtt. kunna að fylgja, yrði skammvinn þegar framkvæma ætti þetta. Ætli ekki yrðu lögð á 25% í fyrstu fjárlögum? Mér sýnist útlitið þannig, að þeim, sem ábyrgð bera á tekjum ríkissjóðs, þyki ekki vanþörf á að bæta kjör hans. Og hverju væru menn þá bættari með það, að færa þetta ákvæði þannig fram og aftur?