18.04.1939
Neðri deild: 43. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í B-deild Alþingistíðinda. (203)

46. mál, vátryggingarfélög fyrir vélbáta

*Frsm. (Finnur Jónsson) :

Þær brtt., sem liggja fyrir hér um l. um vátryggingarfélög fyrir vélbáta, eru fyrst og fremst frv., sem ég ásamt hv. þm. Borgf. er flm. að og miðar að því að afnema skylduna til þess að vátryggja opna vélbáta. Það hafa komið fram mjög ákveðnar raddir um það alstaðar að af landinu, að þessi skyld,t verði afnumin, sem byggist fyrst og fremst á því, að mikið af þessum bátum er ekki notað nema mjög lítinn hluta úr árinu. Þeir, sem hafa þessa báta, nota þá til þess að skreppa á sjó. þegar þeir hafa ekki annað að gera, og þeir telja vátryggingargjöldin af þessum bátum svo há, að það borgi sig ekki að eiga bátana, ef þessi vátryggingarskyldukvöð á þessum bátum er ekki afnumin. Umkvartanir í þessa átt hafa komið til hæstv. Alþ. frá eigendum 36 opinna vélbáta á Ísafirði. Hv. þm. Barð. hefir sagt mér, að slíkar umkvartanir hafi einnig komið úr hans kjördæmi. Í þriðja lagi liggur svo fyrir ályktun frá stjórn Vélbátatryggingar Eyjafjarðar, sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Með tilliti til þess, að megn óánægja hefir skapazt hjá öllum þorra eigenda opinna vélbáta á félagssvæðinu yfir því að vera skyldaðir til að tryggja báta sína með þeim skilyrðum, er vátryggingarfélögin ákveða, svo ekki hefir tekizt að fá einn einasta bát skoðaðan til tryggingar, bæði á Akureyri og Hjalteyri, og sama sem ekkert greitt af iðgjöldum fyrir tryggingar á hinum opnu bátum á öðrum stöðum, þá felur stjórnin framkvæmdarstjóra félagsins að skrifa Samábyrgðinni ákveðin tilmæli um það að styðja að því, að núverandi Alþingi nemi úr gildi ákvæði það, er skyldar eigendur opinna vélbáta til að tryggja þá, heldur sé þeim frjálst að fá þá tryggða, ef farið er fram á það.“

Sjútvn. hefir mæt með því einróma, að þessi breyt. nái fram að ganga. En auk þess hafa tveir hv. nm. flutt brtt. við frv., sína brtt. hvor. Önnur þeirra er frá hv. þm. Ak. Hann tekur upp í sínar brtt. alla frvgr. eins og hún er, en bætir við hana heimild til þess, að vátryggingarfélög megi taka skip í vátryggingu allt upp í 250 smálestir. Ég tjáði hv. þm. Ak., að ég mundi vera þessu mótfallinn, vegna þess að ég liti svo á, að þar sem hann væri að gera till. um að heimila vátryggingarfélögum að taka línubáta með í vátryggingarnar, þá væri það allt annar handleggur en það, sem í frv. er gert ráð fyrir. Þessir línubátar eru mjög gamlir, og þeir bátar, slíkir sem hv. þm. Ak. hefir sérstaklega fyrir augum, eru víst engir undir þrítugt, og sumir jafnvel komnir um fertugt. Vélbátarnir munu yfirleitt ekki vera eins gamlir og línubátarnir. og líka munu þeir vera í allt öðru ástandi en línubátarnir, þannig að það þyrfti að greiða allt annað vátryggingargjald fyrir línubátana en vélbátana.

Jafnframt því, að frv. miðar að því að afnema tryggingarskyldu opinna vélbáta, er gert ráð fyrir því í b-lið frvgr., að vátryggingarfélögum sé skylt að tryggja opna vélbáta fyrir þá eigendur þeirra, sem óska þess. Um þetta atriði hefir hv. 6. þm. Reykv. flutt brtt. þess efnis, að vátryggingarfélögunum sé ekki skylt, heldur aðeins heimilt að taka opna vélbáta til vátryggingar. Ég teldi það heldur miður, að þessi brtt. næði fram að ganga. því að þó svo sé ástatt um mikinn hluta vélbátanna, að þeir telji sér óhag í því að vera undir tryggingarskyldunni. þá eru hinsvegar allmargir opnir vélbátar, sem notaðir eru til veiða mikinn hluta ársins, eða heilar vertíðir, og eigendum þeirra báta er nauðsynlegt að fá þá tryggða.

Viðvíkjandi þessari tryggingarskyldu hefir því verið haldið fram, að hætta væri með þessu fyrirkomulagi á því, að menn vátryggðu ekki aðra báta en þá, sem mjög væru úr sér gengnir. En ég tel litla hættu á þessu, vegna þess að bátarnir eru skoðaðir og virtir eins og önnur skip., áður en þeir eru teknir til vátryggingar, og ætti það að vera nóg trygging fyrir vátryggingarfélögin í þessu efni.

Ég vænti svo, að aðalefni frvgr. nái fram að ganga hér á Alþ., því að það er hagsmunamál mjög margra manna úti um allt land. Þó að hér sé ekki um stóra hagsmuni að ræða, þá er um hagsmuni svo margra að ræða, að ég tel rétt, að hæstv. Alþ. samþ. þetta frv.