22.12.1939
Neðri deild: 90. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1047 í B-deild Alþingistíðinda. (2046)

22. mál, tollskrá

*Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Fjhn. hefir borið fram nokkrar brtt. við frv. þetta að þessu sinni, og er aðalbrtt. á þskj. 504, þar sem gert er ráð fyrir við verðtollsálagningu, að miðað sé við flutningsgjöld eins og þau voru fyrir stríð. Er till. þessi borin fram skv. ósk margra deildarmanna. Búast má við, að flutningsgjöld hækki enn nokkuð og gætu því valdið truflun við tollaálagningu, en hitt heldur nefndin fast við, að verðtollur leggist á ámóta há farmgjöld og voru fyrir stríð. Geri ég ráð fyrir, að hv. deildarmenn séu sammála um þessa till.

Þá er brtt. á þskj. 340, sem gerir ráð fyrir því. að verðtollur á sementi lækki úr 8% í 2%, og þar sem nefndin hefir borið fram þessa till. vænti ég, að flm.brtt. á þskj. 510 geti fallizt á að taka sína till. aftur.

Ennfremur gerir nefndin það að till. sinni, að landabréf af Íslandi, þar með talin sjókort, verði gefin tollfrjáls. Hafði danska herforingjaráðinu verið lofað því, að landabréfin væru tollfrjáls, enda ekki nema eðlilegt, þar sem við getum ekki gert kortin sjálfir.

Ég hygg, að ekki þurfi að tala mikið fyrir till. n. um toll af hettum á mjólkurflöskur, akkerisvindum og herpinótabátum. Herpinótabátarnir eru hér settir í flokk með skipum, því að þeir þykja betri, sem keyptir eru frá útlöndum, en þeir, sem eru smíðaðir hér.

Þá er till. n., að skylt sé að endurgreiða aðflutningsgjöld af sykri og kryddi, sem notið er við verkun síldar og hrogna til útflutnings, og sömuleiðis af kryddvörum og sykri, sem notað er við niðursuðu matvæla til útflutnings. Þetta er í samræmi við ákvæðið um síldina og hrognin og er jafnnauðsynlegt, því að annars geta innlendar niðursuðuvörur ekki keppt við niðursuðuvörur á erlendum markaði.

Þá er III. brtt. á þskj. 540, sem gerir ráð fyrir því, að tollar hækki ekki, þótt greiða verði hærra flutningsgjald á einstaka stað vegna erfiðrar aðstöðu við affermingu. Tel ég, að þessi till. nái sama tilgangi og till. á þskj. 509 er ætlað, en hana má ekki samþykkja, því að hún truflar allt álagningarkerfi milliþinganefndar um verðtolla.

Mun ég svo ekki ræða till. fjhn. frekar, en óska eftir því. að flm. tili. á þskj. 509 og 510 taki þessar till. sínar aftur.