22.12.1939
Neðri deild: 90. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1048 í B-deild Alþingistíðinda. (2047)

22. mál, tollskrá

*Steingrímur Steinþórsson:

Við 2. umr. var samþ. brtt. við 3. gr. frv. að undanþiggja aðflutningsgjaldi sýrur til votheysgerðar, efni til varnar gegn kartöflusýki og vökva til fiturannsókna á mjólk, sem áburðarsala ríkisins flytur inn. Nú hefir mér verið bent á, að heppilegra hefði verið að orða till. svo, að undanþiggja aðflutningsgjöldum efni til varnar gegn sjúkdómum í nytjajurtum almennt. Ég vil því, með leyfi hæstv. forseta, leyfa mér að bera fram svohljóðandi skriflega brtt. við 3. gr., að stafliður c. orðist svo: „Að heimta ekki aðflutningsgjöld af sýrum til votheysgerðar, efnum til varnar gegn sjúkdómum í nytjajurtum, svo og Höjbergsvökva til fiturannsókna á mjólk, sem áburðarsala ríkisins flytur inn“.

Þetta er lítil efnisbreyting, frekar leiðrétting, svo að ég vænti þess, að hv. deild samþ. þessa skriflegu brtt.