18.04.1939
Neðri deild: 43. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í B-deild Alþingistíðinda. (205)

46. mál, vátryggingarfélög fyrir vélbáta

*Sigurður E. Hlíðar:

Hv. frsm. beindi nokkrum orðum gegn þeirri brtt., sem ég er flm. að. Hann lagði sérstaka áherzlu á, að þessi skip, sem ég ber mest fyrir brjósti, væru eldgömul; það væru 30–40 ára gamlir línuveiðarar. Því ber ekki að neita, að skipin eru gömul. En aðalatriðið í þessu sambandi er vitanlega það, að þessi skip eru talin sjófær. Sum þeirra hafa hlotið viðgerð á síðustu árum og sem sagt fengið vottorð um. að þau væru sjófær. Svo þegar tekið er tillit til, hvað veiðitíminn er stuttur og að hann er yfir hásumarið, þá er í raun og veru ekki svo mikið upp úr því leggjandi, hvort skipið er einu ári yngra eða eldra. Það er rétt hjá hv. þm., að það er eðlilegt, ef þessi breyt. yrði gerð. að þá krefjist tryggingarfélögin nokkru hærri gjalda af þeim en öðrum skipum. Það er ekki nema eðlilegt. Hitt er aðalatriðið fyrir eigendur þessara skipa, að þeir losni við að greiða vátryggingariðgjöld þann tíma, sem skipin liggja. Ég hjó sérstaklega eftir því í dag í ræðu þess hæstv. ráðh., sem þessi þm. á mest ítök í, að hann lagði sérstaka áherzlu á það, að það væri nauðsynlegt að koma öllum skipum á flot til þess að auka atvinnuna og efla framleiðsluna í landinu. Mér finnast skoðanir hv. frsm. í fullri andstöðu við þessi ummæli hæstv. ráðh.