18.04.1939
Neðri deild: 43. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í B-deild Alþingistíðinda. (206)

46. mál, vátryggingarfélög fyrir vélbáta

*Pétur Ottesen:

Að því leyti að það sé réttmætt og sanngjarnt, að d. verði við óskum, sem fram hafa komið um breyt. á l. um vélbátatryggingar, eins og lagt er til í frv. okkar hv. þm. Ísaf., þá get ég skírskotað til þess, sem hann hefir þegar sagt um það mál. En út af orðum hv. 6. þm. Reykv. vil ég segja honum það, að það er ástæðulaust af honum að óttast, að vátryggingarfélögunum sé stefnt á nokkurn hátt út á hála braut, þó að þeim sé gert að skyldu að tryggja báta þeirra manna, sem kynnu að vilja óska eftir að fá báta sína tryggða. Ég býst við, að reynslan myndi verða algerlega öfug við það, sem hann heldur fram, að hún myndi verða. Það yrðu ekki skriflin, sem óskað yrði eftir tryggingum á, heldur dýrustu bátarnir, sem mest fjármagnið liggur í og eigendurnir hafa af þeim ástæðum neyðzt til að taka lán út á þá. Mér virðist þess vegna ekki ósanngjarnt, að gert sé ráð fyrir, að menn eigi innhlaup hjá tryggingarfélögunum um að fá báta sína tryggða. Hinsvegar gætu kjörin vel orðið allt önnur og miklu verri, og jafnvel útilokað að fá bátana tryggða, ef petta væri í heimildarformi. Ég held þess vegna, að það verði miklu öruggara að halda skyldunni um þetta heldur en að hafa það í heimildarformi. Og þegar svo það er vitanlegt, að stjórnir vátryggingarfélaganna hafa það í hendi sinni að ákveða iðgjöldin og skilyrði fyrir tryggingunum, þá held ég, að þetta þurfi ekki að verða að neinu leyti hættulegt fyrir félögin.